01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Landbúnaðarnefndin hefir lýst skoðun sinni á þessu máli, á þgskj. 699, eg býst jeg við, að háttv. þingdm. hafi kynt sjer það. Málið er mjög mikilsvert, og það kostar mikið fje að hrinda því í framkvæmd.

Markarfljót hefir, síðan það lagðist yfir í Þverá, valdið mjög miklum skemdum í Fljótshlíð og fleiri sveitum í Rangárvallasýslu, og það er nauðsynlegt að skorður sjeu settar við því, að það geti brotið þar niður landið, frekar en orðið er, en það kostar svo mikið fje, að minsta kosti eins og nú er komið, að sýslan getur ekki af eigin rammleik gert það stórvirki, sem fyrirhleðslur þessar þurfa að vera, svo að þær komi að haldi. En þegar það er gert, er ekki eingöngu fjölda jarða forðað frá meiri skemdum, heldur einnig náð aftur víðáttumiklu og góðu landi, sem nú er á valdi ánna og heita má að þær ráði yfir.

Alþingi 1915 sá, að hjer var um nauðsynjamál að ræða, og veitti í fjárlögunum 1916 og 1917 15000 kr. síðara árið til þess að byrja á verkinu, og hafði þáverandi verkfræðingur landsins, Jón Þorláksson, gert áætlun um kostnaðinn við fyrirtækið. Núverandi landsverkfræðingur, Geir Zoëga, hefir farið yfir áætlunina, og hefir hún hækkað nokkuð; býst hann við, að kostnaðurinn verði eigi minni en 167 þús. krónur, og orðið »minni« virðist benda til þess, að kostnaðurinn verði nokkru meiri.

Þótt hjer sje talað um fyrirhleðslu fyrir Þverá, þá er það ekki einvörðungu fyrirhleðsla fyrir hana; auk varnargarðsins þar þarf að byggja 4 varnargarða, til þess að varna Markafljótinu að falla á öðrum stöðum úr farvegi sínum, hlaða fyrir Affallið o. s. frv.

Hjer er farið fram á það, að landssjóður leggi fram ¾ kostnaðarins, og eins og við önnur fyrirtæki, er hann styrkir svo mikið, er ákveðið, að verkið sje framkvæmt undir eftirliti landsstjórnarinnar. En eftir að verkið er komið á fót, er ætlast til þess, að sýslunefnd Rangárvallasýslu annist umsjón og viðhald varnargarðanna. En eins og tekið er fram í áliti nefndarinnar þá ber að sjálfsögðu að leggja mesta áherslu á það, að verkið sje vel og tryggilega hendi leyst, því að þá fyrst er hægt að gera sjer góðar vonir um, að fje það, sem til þessa er varið, gefi góða vexti mjög bráðlega.

Jeg vænti þess, að háttv. deild samþykki frumvarp þetta.