17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki miklu við að bæta það, sem sjerstaklega hæstv. fjármálaráðherra og háttv. frsm. minni hl. (B. J.) hafa tekið fram. Það er mín skoðan, að stjórnin hafi ekki í þessu frv. farið nægilega langt. Jeg lýsti yfir þeirri skoðun minni í vetur, að jeg teldi rjettast að bæta öll laun upp með sömu %-tölu; það mundi hafa verið rökrjettast. En að stjórnin fór nú ekki lengra en þetta kom til af því, að stjórnin þóttist þó mega byggja á því, að þingið væri ekki svo hverflynt, að það færi að breyta um grundvöll, sem það hafði lagt sjálft. Slíkt mætti og þykja undarlegt, sjerstaklega ef þingið nú lækkaði uppbótina frá því, sem aukaþingið tiltók hana, með því að margtekið hefir verið fram, að þörfin væri nú enn meiri en í vetur. Það hefir verið sagt, til stuðnings þeirri till., að hagur landssjóðs væri verri nú en þá, svo að hann þyldi það ekki. Sú mótbára er ekki rjett. Það getur verið, að tekjur landssjóðs verði eitthvað minni í ár en í fyrra, en þótt svo færi, þá get jeg ekki talið það hættulegt, þótt landssjóður tæki lítils háttar lán til þess að uppfylla þessa skyldu sína. Það ætti ekki að vera hættulegra fyrir okkur en fyrir allar aðrar þjóðir að taka lán til þess að bæta úr bráðustu þörfunum, lán, sem jafna má niður á mörg ár, til þess að greiðslan verði ekki tilfinnanleg. Það getur ekki talist vansalaust fyrir þingið, ef það færi að draga úr þeirri upphæð, sem það hefir áður fallist á, að rjett væri að veita. Jeg er hræddur um, að öðrum þjóðum mundi þykja það skrítin aðferð hjá þinginu, þegar ekki er hægt að benda á, að vjer sjeum ófærir til að inna þessa skyldu af hendi, því að, eins og jeg hefi þegar tekið fram, þá er það ekki nægileg ástæða, að tekjur landssjóðs í ár kunna ef til vill að verða eitthvað lítils háttar rýrari en í fyrra.

Jeg býst varla við, að þörf sje á að ræða þetta mál frekara. Jeg verð að telja óheppilegt að veita lægri uppbót heldur en stjórnin hefir lagt til. Stjórnin álítur skylt að veita uppbót, telur hjer um enga gjöf nje fátækrastyrk vera að ræða, heldur sanngjarnar bætur.

Stjórnin hefir ekki tekið upp styrk til kennara, en líklega mætti þó veita þeim uppbót á annan hátt. Það eru margir þeirrar skoðunar, að vafasamt sje, hvort hægt sje að halda fasta skóla næsta vetur, en þar fyrir væri samt rangt að segja upp starfsmönnum þeirra, og ef styrkurinn þá hjeldist, mundu kennararnir fá tiltölulega eins góð kjör og starfsmenn landssjóðs, svo að þeir mistu einkis í launum. Það væri betra, að uppbótin kæmi fram á þennan hátt, heldur en að blanda saman óskyldum atriðum, starfsmönnum landssjóðs sjálfs og starfsmönnum sveitarfjelaga. Jeg er því andvígur því að taka aðra í frv. en starfsmenn landssjóðs. Hitt tel jeg óráðlegt, að þingið fari að fyrirskipa sveitunum, hvað þær skuli borga sínum starfsmönnum, og tel þar farið inn á starfsvið, sem þinginu kemur ekki við.