27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

22. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Það er alveg rjett hjá hv. þm. Dala (B. J.), að við höfum áður eldað grátt silfur á þingi um þessar tvær stefnur, og hefi jeg áður fært ástæður fyrir því, að mjer þótti ráðlegra að taka upp vörutollinn, þótt öllu rjettlátara væri að taka upp hundraðsgjald. Jeg hefi bent á, að þá stefnu væri ekki mögulegt að taka upp í tollgæslulausu landi. Það kostar að setja á stofn fullkomna tollskoðun, þar sem allur flutningur og farangur, er kemur hingað til lands, sje tekinn upp úr umbúðum og rannsakaður. Þess vegna vil jeg biðja háttv. nefnd, ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að breyta lögunum í það horf, að leyfa mjer samtal við sig.