24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (B. K.):

Eina brtt., sem jeg þyrfti að tala um, er á þgskj. 606. Háttv. fjárveitinganefnd hefir látið í ljós, að hún myndi ekki verða mótfallin þessum litla styrk, sem farið er fram á með þessari brtt. Hjer á atkvæðaskránni hefir misprentast 300 tvisvar sinnum í stað þess, að talan 300 á ekki að standa nema einu sinni.

Jeg hefi borið fram þessa brtt. í þeirri von að þingið fallist á að gera það, sem einstöku sinnum hefir verið gert, þegar líkt hefir staðið á. Það var t. d. á þingi 1915 að veittar voru manni, sem mist hafði höndina, 500 kr. í eitt skifti fyrir öll. Það er þannig ástatt með þennan mann, sem jeg ber hjer fram, að hann er mesti dugnaðarmaður og hefir verið allgóðum efnum búinn, þar til hann tók þá veiki, er lagði hann í rúmið í 4 ár. Þar af lá hann 7 mánuði á spítala, þá 6 mánuði og síðan aftur 5 mánuði á spítala, og var tekinn af honum fóturinn. Nú hefir hann fengið fót, en þolir hann ekki, en rær þó þrátt fyrir það altaf, til þess að reyna að bjarga sjer. Hann þarf að fá tilbúinn fót með lofti í, sem er ljettari og betri en sá, er hann hefir nú, og hefir því leitað á náð þingsins í því skyni. Jeg vona, af því að þetta er mesti dugnaðarmaður, sem heldur í lengstu lög út með vinnu, að þingið verði við þessari ósk.

Um þennan kafla fjárlaganna get jeg verið stuttorður, með því líka að hinir ráðherrarnir hafa lýst afstöðu stjórnarinnar, en hún hefir viljað halda sjer við gamla lagið, reyna að láta gjöldin standast sem mest á við tekjurnar. Jeg tel þá skoðun hina einu rjettu og álít enn fremur ekki rjett eins og útlitið er nú, að fara að byggja á stórlánum, af því að jeg býst líka við, að tækifærið til að taka lán og binda þjóðina skuldaböndum gefist af öðrum ástæðum. Jeg get því ekki fallist á allar þær upphæðir, sem hjer standa, sjerstaklega ef ráðast á í stórfyrirtæki. Þess vegna hefir og stjórnin ekki áætlað búnaðarstyrkinn nema annað árið eins og gert var á þingi 1915, og eins gæti þingið gert nú, ef það væri sömu skoðunar. Jeg hefi engan heyrt minnast hjer á einn lið, nema hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), en það var um styrkinn til Stórstúku Íslands. Það vita allir, að fjelagið er búið að lifa heilan mannsaldur og er það eina fjelagið, sem alveg hefir starfað í óeigingjörnum tilgangi og að eins í kærleikans nafni, að því að reyna að frelsa drykkjumenn frá þeirra ástríðu. Jeg vil því mælast til, að deildin felli ekki þenna styrk, sem hefir verið veittur í svo fjöldamörg ár. Starfsemi fjelagsins er eins nauðsynleg nú og áður, því það vita allir Íslendingar, að landið okkar er ekki vínlaust enn. Þar sem þetta fjelag er mjög margment og út um alt land hefir lagt í mikinn kostnað, er þörf á að styrkja það. Af því að það vinnur eingöngu fyrir aðra, er það mjög illa farið, ef styrkurinn yrði feldur.

Jeg hefi dálítið að athuga við 130. liðinn, og kem með brtt. til 3. umr.

Jeg geri reyndar ráð fyrir, að þó jeg hafi nú bent á, að full ástæða sje til að hlífa landssjóði sem mest við útgjöldum, þá sje það þýðingarlaust. Þingið er nú svo skipað, að það veitir alt, sem farið er fram á. Það þýðir því ekkert að vera að tala um sparnað.