30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

5. mál, lögræði

Forsætisráðherra (J. M.):

Að því er efni frv. snertir, þá get jeg þakkað háttv. nefnd fyrir meðferð hennar á því.

Nefndin hefir að eins gert eina efnisbreytingu á frv., sem um er vert að tala. Það er um, að hjú geti verið fjárráðamenn. Jeg skal geta þess, að það er ekki af því, að ráðuneytið, og eins mun vera um höfund frv., telji rjett, að meta manngildi eftir því, hver staða mannsins er, heldur eftir því, hvernig í stöðunni er staðið, að svo er til ætlast í frv., að hjú geti ekki verið fjárráðamenn, heldur af því, að hjúið er bundið og ræður ekki yfir tíma sínum. Það hefir ráðið sig undir annars manns yfirráð, og það er vanalega enginn eins bundinn og vinnumaðurinn eða vinnukonan. (H. H.: Nokkuð svo). Það er víst varla efi á því. Þetta hefir vakað fyrir höfundinum og annað ekki, og frá lagalegu sjónarmiði er þessi stjett mest bundin allra stjetta og hefir því varla frjálsræði til að gegna umfangsmiklum fjárráðum fyrir aðra.

Þá eru það brtt. nefndarinnar um málið á frv. Það er vitanlega erfitt að deila um þesskonar till., því að þar er alt komið undir tilfinningu hvers einstaks manns. Háttv. frsm. nefndarinnar (H. H.) gat þess, að brtt. væru ekki fram komnar fyrir þá sök, að hún teldi málið slæmt á frv., heldur kynni hún illa við sum nýyrðin. Jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að jeg kann vel við þau. Mjer þykir t. d. heppilegra að nota orðið lögræði en lögráð. Og jeg held, að menn mundu yfirleitt venjast þessum orðum vel. Þau eru mynduð með hliðsjón af öðrum orðum, eins og t. d. þingræði, þjóðræði o. s. frv. Nefndin hefir hneykslast mjög á orðunum »sjálfráður« og »ósjálfráður« í þeirri merkingu, sem þau eru hjer notuð. En það er, eins og jeg hefi tekið fram, örðugt að deila um smekkinn, en mjer fyrir mitt leyti finnast orðin ekki óviðkunnanleg, og miklu ver kann jeg við »sjálfsráða«. Og ekki verður því neitað, að »sjálfsóráða« er stirt orð og óviðfeldið. Því verður ekki neitað, að »sjálfráður« og »ósjálfráður« eru notuð öðruvísi í þessu sambandi en yfirleitt annarsstaðar í málinu. En jeg fæ ekki sjeð, að það skifti miklu máli. Það er altítt, að orð hafa sjerstaka merkingu í lagamáli, sem þau hafa ekki annars, og breytingin úr sjálfráður í sjálfsráða er síst til bóta, eftir mínum smekk. Annars skal jeg geta þess, að málið á frv. er í samræmi við lagamál það, sem Háskólinn er að leitast við að koma á. Háskólanum hefir virst fara sjerstaklega vel á að nota »ur«-endinguna í mörgum orðum; hann notar t. d. stefndur í stað stefndi o. s. frv. Annars skal jeg játa, að sumar breytingar nefndarinnar eru mjög viðkunnanlegar og liðlegar, eins og við var að búast, er háttv. frsm. nefndarinnar (H. H.) hefir átt hlut að máli, því að alkunnugt er, hversu honum lætur vel að orða hugsanir sínar. En mjer finnast nýyrði nefndarinnar hafa tekist miður vel, eins og jeg hefi drepið á. Og jeg get alls ekki sjeð, að neitt sje t. d. á móti því að tala um sjálfráð eða ósjálfráð börn.