24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Jeg veit nú ekki hvort þeir eru allir viðstaddir, sem jeg þyrfti helst að varpa orði á. En jeg vona, að yfirsiðameistari deildarinnar (E. J.) fyrirgefi mjer, þótt jeg verði um stund leiðinlegur, með því að þeir hafa verið svo skemtilegir, sem nú hafa talað um hríð, og þetta mun því jafna sig.

Minn litli skilningur fær eigi tekið yfir það, hvers vegna menn eru svo geðvondir, sem raun er nú á orðin. Hjer hafa 3 menn staðið upp og ausið yfir mig botnlausum skömmum. En verði þeim að góðu; jeg mun hnippa í þá um leið og jeg geng fram hjá þeim.

Margir hafa hneykslast á fjárveitingunni til Bjarnar Jakobssonar, en gæta þess ekki, að bæði samkvæmt ummælum mínum og nál., þá er ekki til þess ætlast, að þessi staða verði stofnuð, meðan skólinn starfar ekki.

Hæstv. forsætisráðherra skal jeg svara því, að nefndin lagði áherslu á, að ruslið væri kyrt á lóð kennaraskólans.

Til svars við athugasemd hæstv. forsætisráðherra, þar sem hann kvaðst ekki skilja, hvernig landsstjórnin mætti hafa yfirumsjón með »privat«-skóla, sem ekki væri lagt til nema ¼ kostnaðar, þá er því til að svara, að það er ætlunin að henni verði líkt háttað og með aðra sams konar skóla, eins og t. d. hinn ágæta Hvítárbakkaskóla, sem aldrei mátti snerta, og háttv. 2. Rang. (E. J.) mælti með alla tíð. Mig furðar á því að hæstv. forsætisráðherra skuli vera að amast við þessari þýðingarlitlu tilfærslu á launum Páls Eggerts Ólasonar, því hjer er ekki um neina breytingu að ræða, heldur að eins það, hvort hann eigi að sækja laun sín til landsfjehirðis, eða bíða eftir þeim hjá landsbókasafnsverði. Hæstv. forsætisráðherra talaði um að við hefðum átt að spyrjast fyrir hjá stjórninni eða bókaverði safnsins áður en þetta yrði ákveðið. En við höfðum ekki brjóst í okkur til að ónáða stjórnina, hún var svo önnum kafin. Um bókavörðinn er það að segja, að ef Páli Eggert hefir ekki gengið betur að ná í launin sín hjá honum en mjer gekk, þegar jeg ætlaði að finna hann, þá er hann ekki öfundsverður af því.

Viðvíkjandi þeim lið, sem Helgi Jónsson bróðir minn er á, þá gleymdist mjer að geta þess áðan, að nefndin ætlast til, að þessi ferðakostnaður sje að eins veittur í þetta sinn af fje til óvissra útgjalda, af því að hún hefir ekki getað samið neina ábyggilega áætlun um hann. En stjórnin gæti svo aftur síðar, ef til þyrfti að taka, gert ákveðna áætlun um ferðastyrk í þessu skyni.

Hæstv. forsætisráðherra hjelt því fram, að veitingin til Lárusar prests Halldórssonar væri óvenjuhá eftirlaun. Það getur vel verið, að það sje nokkuð hærra en eftirlaun alment gerast, og er þá ekki vandinn annar en að breyta dálítið orðalaginu, sem betur færi á, að sagt væri t. d. »til eftirlauna og ritstarfa«. Þessi maður er, sem jeg og sagði í framsöguræðu minni, framúrskarandi gáfaður og orðhagur, og einn með mestu smekkmönnum sem gerast, og er því ekki nema vel til fallið, að honum sje veitt eitthvað til ritstarfa.

Jeg ætla mjer ekki að svara hæstv. atvinnumálaráðherra, en það gladdi mig meir en lítið, að hann leit svo á; sem nefndin hefði viljað hjálpa stjórninni.

Þá talaði líka 3. ráðherrann, hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), og mælti með því, að veitt væri þessi smáupphæð manninum sem þarf að kaupa sjer fót, og er jeg því eigi mótfallinn. En jeg vildi um leið geta þess, að fóturinn undir fjármálaskoðun ráðherrans er ekki peninga virði, því að hann er ekki nothæfur til gangs. Hæstv. ráðherra (B. K.) vill sem sje, að tekjur og gjöld vegi salt, en játar það þó um leið, að óhjákvæmilega verði litlar tekjur í ár.

Eftir þessari fjármálaskoðun hæstv. ráðherra (B. K.) yrði þá að skera niður allar þarfir landsmanna, þangað til svo langt er komið, að heima standa gjöld og tekjur. Þetta væri nú máske hægt að gera. En jeg hygg, að það mundi koma mönnum alleinkennilega fyrir sjónir, þar sem þetta sama þing semur um stórkostlegar atvinnubætur, að þetta skuli ekki mega sjást í fjárlögunum.

Þá þarf ekki að láta skáldin púla við moldarmokstur, eða láta vísindamennina grafa upp grjót. Fjárlagapólitík hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) sjálfs er þannig í berri mótsögn við gerðir þingsins, af því að þessi ónýti fjármálafótur hans bilar, þegar hann stígur honum til jarðar. Jeg læt hjer svo staðar numið í svari mínu til stjórnarinnar, að því viðbættu, að jeg hygg, að henni mun veitast erfitt að sannfæra hugsandi menn um það, að nefndin hafi farið oflangt, eða í ranga stefnu frá því, er sanngjarnt er og rjett.

Þá kem jeg að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem var að tala um fyrirlestra dýralækna út um sveitir. En um þennan lið er það að segja, að í nefndinni voru atkvæði um hann látin laus. Mjer fyrir mitt leyti, þykir till. vera heldur líkleg til samþykkis, en þeir sem með mæltu, sögðu, að á þessum námsskeiðum væri mikið sókst eftir dýralæknum; þó ekki til að lækna, vona jeg, heldur til að halda fyrirlestra. Jeg er annars mjög þakklátur háttv. sama þm. (G. Sv.) fyrir það lið, sem hann lagði Páli Eggert Ólasyni, af því að alt, sem hann sagði var satt eitt, og hann er honum nákunnugur. Og þeir ættu því, að taka vel eftir þessu, sem ekki þekkja jafn vel málavöxtu.

Þá mintist háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) á tilfærslu á launum aðstoðaskjalavarðar, Hannesar Þorsteinssonar. Jeg vil geta þess, að þetta var ekki skoðað sem neitt stórmál af hálfu nefndarinnar, en meiri hluti var því samþykkur. En við atkvæðagreiðsluna verður að gæta vel að því, að skilja ekki þessa tvo liði sundur, sem heyra saman; því að ef annar liðurinn verður feldur, þá verður samkvæmt till. nefndarinnar að hækka hinn. Og jeg vil biðja hæstv. forseta að gefa þessu gaum.

Þá skal jeg næst nefna brtt. 545. Báðir háttv. þm. Árn. (S. S. og E. A.) voru sammála um það, að þetta »Eyland«, sem þar er talað um, væri mjög vel fallið til fyrirmyndar jarðræktar. En eins og jeg hefi tekið fram áður, þá er þessi maður nefndinni allsendis ókunnugur, og þar er alt á hverfanda hveli. Nefndin veit einu sinni ekki í hvaða landsfjórðungi þessi jörð er, sem á að gera tilraun með, hvað þá í hvaða sýslu, eða þaðan af meira. Hún hefir því ekki getað sjeð sjer fært, að mæla með þessari lánbeiðni, af því hana hefir vantað allar upplýsingar í málinu.

Þá kem jeg loks að ræðumönnunum, og skal þá fyrst svara háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem nú að vísu var ekki svo mjög reiður, því að helmingur af ræðu hans var eintómt þakklæti til fjárveitinganefndar, sem jeg leyfi mjer hjer með að þakka fyrir hönd nefndarinnar. En þá kom háttv. þm. að listamönnunum, og gaf fyrirheit um að taka till. sína aftur, líklega af því að hann hefir sjeð að hún var vanhugsuð.

Loks mintist hann á listasafnahús Einars Jónssonar. Og vil jeg þá geta þess, sem þó allir hljóta að geta sagt sjer sjálfir, nema ef til vill hv. þm. (S. S), að jeg sagði aldrei, að það væri hægt að byggja hús yfir listaverk Einars Jónssonar fyrir 600 kr. Heldur sagði jeg, að slá mætti saman skúrómynd úr bárujárni fyrir þetta verð. Og að þar mætti rúma allar myndirnar, og meira að segja háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) líka, ef honum finst, að hann mundi sóma sjer vel þar á meðal.

Þá skal jeg rjett minnast á háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), sem átti ilt með að haga orðum sínum sómasamlega. Hann talaði fyrst mikið um konur og barneignir, en því ætla jeg ekki að svara, og ekki heldur því, sem hann sagði um listamennina. En þar sem hann var að brigsla Helga Jónssyni, bróður mínum, um fjegræðgi, og þá auðvitað mjer líka, sem hefi mælt með honum eins og fleirum, þá ætti jeg að telja mjer skylt að bera blak af honum. Jeg á ilt með að þola að heyra háttv. þm. fara með níð um hann hjer í þingsalnum. Og þeir, sem eru hjer ekki til annars en láta hlæja að sjer, ættu ekki að láta illgirnina hlaupa svo með sig í gönur, að þeir verði sjer til skammar að auki.

Þá er háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem sagði, að jeg hefði verið með illkvitni til manna, og sagt, að þeir hefðu ekki vitað um hvað voru greidd atkv. í dag. En jeg sagði ekki annað en það, að það mundi vera betra fyrir menn, að hafa nefndarálitið hjá sjer við atkvæðagreiðsluna, svo ekki færi eins og í dag. Eins og háttv. þm. veit, þá er jeg enginn siðameistari hjer, en vil að eins vísa honum til þess þm. (E. J.), sem hefir það embætti hjer í háttv. deild, og vona jeg, að hann gangi í skóla til hans, og læri það, sem hann vantar, ef nokkuð er.

Háttv. sami þm. (Sv. Ó.) varð töluvert orðmargur um þörungana, og vil jeg því minnast dálítið nánar á það.

Það er misskilningur hjá hv. þm., að þetta eigi eingöngu að vera hallærisráðstöfun. Bjargráðanefndin er ekki það miklu ófróðari um þörunga en háttv. þm., að hún telji þá einhlíta til að bjarga mönnum frá hallæri. En þar sem Norður-Þingeyingar hafa sent hingað beiðnir um að rannsaka fóðurgildi þörunga, þá þótti nefndinni rjett að verða við því. Það eru fleiri þörungar en söl, sem að gagni mega koma, ef rjett er með farið. Og jeg tel heppilegt, ef mönnum yrði leiðbeint um, hvaða tegundir væru bestar til fóðurs, og svo um meðferð á þeim. Auk þess væri ekki lítilsvirði fyrir bændur, ef takast mætti að finna orsökina til »skjögurs«, og það ætti háttv. þm. að vita, að stendur jafn nærri grasafræðingum eins og dýralæknum. Það var hreinasti óþarfi fyrir háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að fara að ýfast til reiði við þessum lið; þessi upphæð er ekki öll veitt til rannsókna á þörungum, heldur líka til ýmissa annara rannsókna, eins og áður hefir verið. Hitt er að eins skoðað sem frambúðarráðstöfun, sem var gerð í samráði við bjargráðanefnd, og upphæðin hækkuð upp í 3000 kr.

Jeg læt svo úttalað um þennan lið. En þeir sem vilja, geta látið hann gjalda þess, að það er bróðir minn, sem í hlut á.

Jeg man svo ekki fleira, sem er svara vert. En vil þó geta þess, að jeg er þeim mönnum mjög þakklátur, sem hafa komið fram með aðfinningar sínar, og gætt þess vandlega, að hafa þær svo veigalitlar, að auðvelt væri að velta þeim um koll jafnóðum.

Jeg vil svo að endingu vona, að hv. þingm. sýni það með atkvgr. að þeir kunni með atkv. sitt að fara. Því nefndin hefir hvergi farið of langt eða í ranga stefnu, heldur of skamt, ef nokkuð væri. Hún hefir á einstöku stað viljað sýna mönnum viðurkenningu fyrir vel unnið starf, eða veita þeim styrk til að ljúka við eitthvert starf. Og þó það sje ekki beinlínis lagaleg skylda landssjóðs að sjá um þetta, þá er það siðferðisleg skylda, sem skömm væri að ef væri vanrækt. Því eins og menn vita, þá eru hjer engir auðmenn eins og í öðrum löndum, sem leggja út miljónir til lista og vísinda, og allskonar þjóðþrifa mála. Þess vegna verður landið að styrkja okkar fáu listamenn. En aftur þegar hjerlendir auðmenn eru farnir að gefa háskólanum og styrkja vísindin, þá skal jeg verða fyrstur manna til að kippa þessu út úr fjárlögunum. En fyr má ekki gera það. Menn verða að gæta að því, að þessi voða styrjöld nær til þeirra eins og hinna. Og það, sem sparast á veitingum til einstakra manna eyðist aftur seinna, þegar þarf að fara að styrkja menn til þess að geta haldið í sjer lífinu.