01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

6. mál, þóknun til vitna

Frsm. (Einar Arnórsson):

Frv. þetta er í fyrstu borið fram af hæstv. stjórn, síðan hefir það gengið í gegnum háttv. Ed. og þar verið gerð á því lítilfjörleg breyting. Nú hefir allsherjarnefnd þessarar deildar athugað frv. og leggur til, að það verði samþykt að stofninum til, en leyfir sjer þó að gera við það nokkrar breytingar. Skal jeg nú í stuttu máli gera grein fyrir þessum brtt.

1. brtt. er sú, að vitnið skuli jafnt eiga kröfu til ómakslauna; hvort sem það kemur stefnt eða óstefnt á dómþing. Nefndinni fanst sjálfsagt að hafa þetta ákvæði svo, þar sem öll sanngirni mælir með því, að óstefnd vitni fái sömu ómakslaun og önnur. Annars gæti borið að því, að vitnastefnandi yrði ávalt að stefna vitni til þess að fá það til að koma. Að vísu má segja, að vitnastefnandi geti samið við vitnið um þóknun. En ekki er fyrir það girt, að prettir gætu átt sjer stað. Misjafnir menn geta fengið menn til að bera vitni, með því að semja fyrst við þá um ómakslaun og refjast svo um að borga. Þó að vitnastefnandi t. d. lofi borgun undir fjögur augu, þá getur hann neitað því síðar, án þess að kröfu verði við komið. En með þeim breytingum, sem nefndin vill gera á frv., getur vitni sótt þing án þess að því sje stefnt, og átt rjett á ómakslaunum fyrir.

2. brtt. er lítilfjörleg. Hún fer fram á að færa ferðakostnað vitna dálítið niður. Jeg fyrir mitt leyti legg ekki mikla áherslu á þessa breytingu. En mjer fanst ekki skifta hjer svo miklu máli, að það tæki því að valda klofningi í nefndinni. Fyrir því mun jeg greiða atkv. með brtt. við umr. hjer, þótt ekki sje mikil ástæða til að lækka ferðakostnaðinn.

3. brtt. kveður skýrar á um það, að dómari skuli ákveða þóknun til vitna og bóka þann úrskurð í þingbókina. Bókunin þarf ekki að vera löng, að eins geta þess, að þessu vitni hafi verið ákvörðuð þessi upphæð í ómakslaun fyrir vitnisburð í tilgreindu máli. Að þeirri bókun þyrfti því ekki að verða nein tímatöf. Eftirrit úr þingbókinni mundi þá verða gundvöllur undir lögtakskröfu síðarmeir, ef á því þyrfti að halda.

4. brtt. er ekki nein efnisbreyting. Nefndinni þótti fyrirsögnin óþarflega löng og þunglamaleg. Það getur ekki verið neinum vafa undirorpið, hverjir þessa þóknun eiga að fá. Bæði segir frv. sjálft til þess, og svo er það orðin föst skilgreining á orðinu »vitni«, að með því er átt við menn, sem, án þess að vera aðiljar eða dómkvaddir til mats eða skoðunar, gefa skýrslu fyrir dómi. Meira hefi jeg ekki um málið að segja að svo stöddu.