01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

6. mál, þóknun til vitna

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg hefi ekkert verulegt að athuga við ræðu hæstv. forsætisráðherra. Eins og við var að búast er hann að mestu leyti sammála nefndinni. Ef vitninu eru greidd ómakslaunin strax, þá þarf auðvitað ekki að bóka neinn úrskurð. Að eins geta þess, að vitninu hafi verið greidd þessi þóknun. Mjer virtist, að ein ástæðan fyrir þessari bókun hefði skotist fram hjá hæstv. forsætisráðherra, sem sje það, að eftirrit úr þingbókinni ætti að vera grundvöllur undir lögtak eftir á. Nú er það vitanlegt, að mönnum er skylt að bera vitni, þótt ekki sjeu greidd ómakslaun fyrirfram, og því er sjálfsagt, að vitnið hafi rjett til að láta taka þau lögtaki, ef þverskallast er við að borga. 3. gr. frv. virðist bera vitni um, að stjórnin líti líkt og nefndin á þetta atriði. Jeg tek þetta að eins fram til skýringar, en sje enga ástæðu til að orðlengja meir um málið, og vænti þess, að það verði ekki tafið.