30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Pjetur Þórðarson:

Það var út af brtt. minni á þgskj. 693, sem jeg ætlaði að segja nokkur orð.

Það var á sýslunefndarfundi í Mýrasýslu 1916, að nefndin veitti dálitla fjárhæð í því skyni, að rannsaka vegastæði vestur á Mýrum, ef hægt væri að fá landsverkfræðinginn til þess. Mjer er ekki kunnugt um, af hvaða ástæðum ekkert varð úr framkvæmdum á þessu, hvort það var af því, að verkfræðingurinn fekst ekki, eða hvort það var að kenna því, að ekki hafi verið reynt að fá hann til þessa starfa. En á aðalfundi 1917 þá var þessi fjárveiting sýslunefndar endurtekin, og formanni nefndarinnar falið að sjá um, að vegastæði yrði rannsakað á þessum stað. Úr þessu varð ekkert að heldur í þetta sinn, og mun líklega hafa verið af því að verkfræðingurinn hefir ekki getað komið því við. Mjer er að minsta kosti kunnugt um, að hann var á ferð uppi í Borgarfjarðarsýslu um þetta leyti og hafði þá mjög lítinn tíma afgangs, svo að jeg geri ráð fyrir, að oddviti sýslunefndar hafi farið fram á það þá, en verkfræðingurinn ekki geta sint því. Það er ákveðinn vilji sýslunefndarinnar að fá þessu framgengt, að vegastæðið verði rannsakað, þar sem það er alveg bráðnauðsynlegt.

Jeg ætla ekki að fara að lýsa því hjer, hvers vegna svo brýn þörf er á vegi þessum, því að það er mönnum kunnugt um, þótt þeir vilji má ske ekki kannast við það. Það er ekki að búast við, að fjárveitinganefnd finni þennan veg á kortinu, vegna þess að þetta hefir mest verið í ráðagerðum, en er lítið búið af honum. En þörfin fyrir þennan veg er engu að síður mikil. Að vísu skal jeg játa, að sá undirbúningur, sem fjárveitinganefnd krefst, er ekki nógur fyrir hendi. En þess vegna tiltók jeg, að fjárveitingin kæmi niður á seinna árinu, ef ske kynni, að þá væri þessi rannsókn fengin.

Hvað þennan fyrirhugaða veg annars snertir, þá stendur alveg sjerstaklega á með hann. Það er vitanlegt, að hann er ekki enn í tölu neinna lögákveðinna vega og er því engin sjerstök skylda á landssjóði að styrkja hann öðruvísi en sem nauðsynlega samgöngubót, sem hjeraðinu er langsamlega ofvaxin; það er líkt á komið með hann og veginn í Svarfaðardal, Flöguflóa í Þingeyjarsýslu og víðar, sem þingið hefir veitt fje til. Byrjunin á þessum vegi er þannig til komin, að ungmennafjelagið í Hraunhreppi á Mýrum, með tilstyrk nokkurra mætra utanfjelagsmanna, lagði út í það að hefjast handa á þessu verki vestur frá, með eins konar þegnskylduvinnu, sem ekki verður annað um sagt en að hafi borið furðanlegan góðan árangur. Jeg taldi ekki heppilegt, á meðan rannsókn á vegastæðum hefir ekki farið fram, að fara að gefa skýrslu um, hvað gert hefir verið. Enda er jeg heldur vondaufur um að veitingin fáist nú. En aftur á móti tel jeg líklegt, að þetta verði komið svo vel á rekspöl 1919, að þá verði sjálfsagt að styrkja það. En annars skal jeg ekki fjölyrða meir um þetta.