31.07.1917
Efri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði hjer fyr við 2. umr., er háttv. þm. Ak. (M. K.) var að hreyfa þessu atriði, og jeg vil taka undir ummæli háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) um frv. þetta. Það er og ljóst, að það er meiri munur á milli skoðana háttv. þm. Ak. (M. K.) og háttv. frsm. (K. D.) en háttv. frsm. áleit fyrst, er hann hjelt, að það munaði ekki svo miklu þótt brtt. á þgskj. 212 væri samþykt, en það er álit háttv. þm. Ak. (M. K.), að lögin verki gagnstætt tilgangi sínum, ef brtt. hans verður ekki samþykt, og byggir hann það á því, að það dragi úr dugnaði manna að koma upp nýjum íbúðum. Ef húsaleigunefndin á að fara að meta allskonar brýnar þarfir, þá hlýtur starf hennar að aukast að miklum mun, því að það munar stórum að meta eina brýna þörf eða margar.

Þótt ýmsir kunni að leggja lítið upp úr því, sem fátæklingarnir segja um þetta, þá vil jeg þó skýra frá því, að margir þeirra hafa litið svo á, sem þessi lög væru nauðsynleg. Og brtt. á þgskj. 212 veikir þýðingu laganna í þessu tilliti að mjög miklum mun.

Að lögin dragi úr dugnaði manna til að byggja hús og leigja þau út í stórum mæli, fæ jeg ekki skilið. Eina ástæðan til þess hlyti að vera sú, að menn treystu ekki húsaleigunefndinni til að gegna vel og samviskusamlega starfi sínu. Jeg hygg, að nefndin hafi haft mikið að starfa, og hafi farið mjög lipurlega og hyggilega með hlutverk sitt, svo að engin ástæða sje til slíks ótta. Og það er víst, að engar opinberar kvartanir hafa fram komið yfir húsaleigunefndinni.

Það er áreiðanlega mjög þýðingarmikið fyrir þennan bæ, að menn lendi ekki á köldum klaka, eins og legið hefir við, vegna þessara dýru húsaskifta. Og víst er um það, að lögin miða að því að tryggja það, að svo verði ekki.