12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

35. mál, stefnufrestur

Flm. (Einar Arnórsson):

Jeg býst við að geta verið mjög stuttorður við þessa umræðu, því að jeg hefi þegar gert nokkurn veginn nákvæma grein fyrir, hvernig frv. er til komið. Það má segja, að hjer sje verið að leysa af hendi lítinn hluta af verki, sem fyrir löngu ætti að vera fullgert. Svo er ástatt, að rjettarfarslöggjöf vor Íslendinga er orðin gömul og úrelt, því að hún hvílir enn að mestu leyti á Norsku lögum Kristjáns konungs fimta frá 1687. Lög þessi hafa aldrei þýdd verið á íslenska tungu, og er því enginn löggiltur texti til af þeim. (B. J.: Þá geta þau ekki gilt hjer á landi). Þau hafa nú samt verið notuð hjer á landi í 200 ár, og háttv. þm. Dala. (B. J.) þyrfti ekki að leita lengi, t. d. í Dómasafninu, til þess að sjá vitnað í þau. Reyndar hefir verið mjög á reiki um notkun ýmislegs úr þeim, sumir talið það gildandi, en aðrir ekki. (B. J.: Sjer ekki þm., að þetta styrkir mitt mál?) Jeg skal ekki karpa við háttv. þm. Dala. (B. J.) um þetta, því að jeg sje það á andanum í orðum hans, að hann er á mínu máli.

Lög okkar eru að þessu leyti í mestu óreiðu, því að Norsku lög eru orðin úrelt og hafa aldrei átt hjer við, því að þau eru sett handa Noregi. Það er alls ekki sæmilegt að nota þau lengur, þar sem þau eru ekki einu sinni til á sæmilegri íslensku í heild sinni eða löggiltur texti af þeim.

Mjer þykir ekki þurfa að fara fleirum orðum um þetta frv. Jeg vona, að háttv. deild taki því vel og láti það ganga til nefndar, sem annaðhvort yrði þá að vera sjerstök nefnd eða allsherjarnefnd. Það er uppástunga mín, að það verði látið ganga til allsherjarnefndar.