13.07.1917
Neðri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal fyrst geta þess, að jeg býst ekki við, að ráðuneytið hafi gefið háttv. flm. (G. Sv.) neitt tilefni til að ætla, að stjórnarfrv. í þessa átt mundi koma fyrir þingið. Jeg veit ekki til, að stjórnin hafi sjeð neina ástæðu til að koma með slíkt frv., síst nú, án alls undirbúnings. Jeg held líka, að málið sje nokkuð lítið undirbúið af háttv. flutningsmönnum.

Þegar þetta mál var á ferðinni í hv. Ed. fyrir 4 árum, ljet jeg þess getið, að jeg mundi ekki láta málið taka til mín, heldur fara eftir óskum þingsins. Jeg skal ekki heldur nú fara mikið út í þetta frv.

Jeg vil að eins leyfa mjer að geta þess, að eins og þessu embætti er nú hagað, er litlu eða engu ljett af bæjarfógetanum sjálfum, þótt þessi breyting yrði gerð, því að flest þau mál, sem talin eru upp á þgskj. 37 að ljetta eigi af honum, eru framkvæmd af fulltrúum, auðvitað með einhverju eftirliti, og svo er alstaðar erlendis með slík embætti. Eiginlega er bæjarfógetaembættið ekki ofstórt fyrir 1 mann, borið saman við samskonar embætti annarsstaðar en hjer og aðra bæi á stærð við Reykjavík. Jeg skal reyndar játa, að hjer í Reykjavík er ýmislegt flóknara en í erlendum bæjum jafnstórum, svo að það er ekki að miða eingöngu við fólksfjöldann.

Það, sem að mínu áliti gerir þetta embætti flóknast, er lögreglustjórastarfið, og væri því mikið til bóta, ef því væri ljett af. Meðan lögreglustjórnin er samfara dómsmálunum munu flestir bæjarfógetar vanrækja lögreglustjórnina, eftir því sem fólk gerir kröfu til þess starfs. Sannast að segja er varla hægt að heimta svo mikið fje af bæjarsjóði, sem þyrfti til nægilegrar löggæslu. Það hefir áður verið farið fram á það hjer á þingi, að landssjóður legði fram fje til framkvæmda lögregluþjónustunni hjer í Reykjavík. Það fekst ekki þá, og jeg veit ekki, hvort það fengist nú. Ef embættinu yrði tvískift, má búast við, að störfunum yrði gegnt svo, að ekki þyrfti að kvarta, en meðan dómsmálin eru samfara lögreglustjórninni, finst mjer ekki veita af, að bæjarstjórnin leggi meira fje fram til lögregluþjónustunnar, t. d. nóg fje til að launa vel lögreglufulltrúa. En framkvæmdir lögreglustjórnarinnar getur bæjarfógetinn ekki haft, þótt embættinu verði skift. (G. Sv.: Ekki síður en nú). Ekki fremur en nú, því að tollstjórnin er framkvæmd af fulltrúa. Það getur vel verið, að tolleftirlitið yrði lítið eitt betra ef embættinu yrði skift. Hitt, að embættin sjeu skipuð hæfum mönnum, er aldrei full trygging fyrir, en segja má um bæjarfógetann eins og Eiríkur gufa sagði: Ef hann er ekki hæfur maður, þá gefi guð honum hæfan fulltrúa. (S. S.: Ef hann kann þá að velja).

Ef tollgæsla er sett á fót, er það mikil bót í máli, en það er ekki gert með þessu frv. Einir 2 menn sem tollverðir gera lítið gagn. Tollgæsla getur aldrei orðið trygg hjer á meðan ekki er til sjerstök tollbúð. Hingað flyst mikið af dóti, sem á slæmu máli er kallað »stykkjagóss«, og ekki er hægt að rannsaka öðruvísi en í húsum inni. Hingað flytjast líka ósköpin öll af farþegagóssi, sem líka er ómögulegt að rannsaka undir beru lofti eða úti á skipum. Jeg er ekki að mæla á móti því, að embættinu verði skift, en vil að eins benda á, að ef gagn á að hljótast af því, þarf að gera meira en frv. ætlast til, eða skifta því á annan hátt og kosta meiru til; annars verður skiftingin kákkend.

Hjer í frv. er efalaust altof lág áætlun um skrifstofukostnað, en það skiftir litlu máli, ef á annað borð þarf að skifta, því að þá munar varla um nokkrar þúsundir. Jeg skil ekki í, hvernig dómari á að komast af með 1 fulltrúa og 1 skrifara, því að veðmálabækurnar einar þurfa hjer um bil heilan mann. Svo sje jeg ekki annað en að útvega verði báðum skrifstofunum húsnæði. Það getur verið, að að því reki hvort sem er, en ef skift verður, er það alveg óhjákvæmilegt. Jeg á bágt með að hugsa, að gott verði að fá skrifstofur fyrir tvö svo stór embætti, öðruvísi en með afararkostum. Það er þó óverulegt, ef menn eru staðráðnir í að ljetta lögreglustjórninni af dómaranum og gera tollgæsluna vel úr garði. Jeg skal viðurkenna, að það væri mikil bót að því, að því er aðflutningsbannið snertir, ef hjer væri tollgæsla, en ef hún er bara í Reykjavík, geri jeg ráð fyrir, að áfengi yrði flutt í land í Hafnarfirði og þaðan landveg til Reykjavíkur, eða þá í Viðey, eins og þráfaldlega hefir komið fyrir, og síðan flutt hingað.

Háttv. flutnm. (G. Sv.) tók fram, að skifting sú, sem stungið er upp á í frv., væri ekki bindandi, en þá held jeg, að 1. gr. frv. sje ekki nógu varlega orðuð, því að þar stendur: »Sje annað dómaraembætti, og heyri því til m. a. uppboðs-, skifta- og fógetagerðir, svo og lögreglustjórn bæjarins«. Það lítur út fyrir, að það sjeu að eins dómsstörf og lögreglustörf, en er miklu meira. (G. Sv,: Það stendur »meðal annars«). Það stendur dómsstörf- og lögreglustjórn. (G. Sv.: Þess vegna er fylgiskjalið með, að frv. er ekki nákvæmlega orðað). Jæja — hv. flutnm. (G. Sv.) viðurkennir, að frv. sje ekki heppilega orðað. Það er sjálfsagt heppilegt að vísa málinu til allsherjarnefndar. Jeg vil benda henni á, að í frv. er gert ráð fyrir, að bæjarstjórn taki við innheimtu bæjargjalda af bæjarfógetaskrifstofunni, en hún hefir nú sama sem enga innheimtu fyrir bæinn, heldur að eins innheimtu á hafnargjöldum. Jeg veit ekki hvað átt er við, ef dómari á ekki að hafa innheimtu á bæjargjöldum, því að það er að eins lögtaksgjöld, og ef ekki er tekið lögtaki, er það bara af hlífð. Þetta er því enginn ljettir fyrir dómarann.

Sem sagt, jeg sje ekki nauðsyn til að skifta, nema sett sje um leið regluleg tollgæsla.