03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Magnús Kristjánsson:

Eins og kunnugt er hefir það verið venja í þinginu, að þm. hefir gefist kostur á að segja stjórninni til syndanna við 1. umr. fjárlaganna. Þetta hefir jafnan þótt merkisdagur og tilhlökkunarefni fyrir þá kjósendur, sem hafa átt kost á að hlusta á þær umræður. En ekki er ólíklegt, að þessi eldhúsdagur verði nokkur vonbrigði fyrir menn, og naumast eins skemtilegur og hann hefir oft verið áður. Til þess eru eðlilegar orsakir og skiljanlegt, að á meðan svo stóð á, að aðallega voru 2 andstæðir flokkar í þinginu, stjórnarflokkur og andófsflokkur, þá hefir andófsflokkurinn notað tækifærið vel til þess að benda á gallana, sem hann hefir þóst finna hjá stjórninni. Nú víkur þessu öðruvísi við, þar sem núverandi stjórn er skipuð mönnum úr öllum flokkum þingsins og að sjálfsögðu studd af öllu þinginu að því leyti, sem hún hefir ekki brotið af sjer það traust, sem flokkarnir hafa borið til hennar. Það er því óeðlilegt, að sú stjórn, er nú situr að völdum, verði fyrir alvarlegum ákúrum. Ef flokkarnir eru ráðnir í að styðja hana framvegis, er ástæðulaust að víta hana fyrir gerðir hennar. En væru gerðir hennar svo vítaverðar, hefðu flokkarnir eðlilega gert ráðstafanir til að mynda nýja stjórn. Nú er mjer ekki kunnugt um, að nokkuð þess háttar liggi í loftinu, og bið jeg því afsökunar á því, að jeg mun fara fljótt yfir og að eins minnast á örfá atriði. En hitt á ekki illa við, að þingmenn beini nokkrum fyrirspurnum til stjórnarinnar við þetta tækifæri, sjerstaklega þegar svo stendur á, að óánægjuraddir hafa heyrst úr ýmsum áttum um aðgerðir stjórnarinnar. Hygg jeg það vera til gagns fyrir alla málsaðilja, bæði landsstjórn, þing og kjósendur, að opinberlega verði minst á nokkur atriði, sem eru orðin aðalumræðuefni manna úti um land alt, og það því fremur sem ekki er laust við, að menn sjeu misjafnlega ánægðir með sumar af þeim ráðstöfunum.

Jeg ætla þá að leita upplýsinga hjá stjórninni um tvö náskyld atriði, er bæði snerta landsverslunina, eins og hún er rekin nú. En jafnvel þótt þau sjeu skyld, verð jeg að fara nokkrum orðum um hvert þeirra fyrir sig.

Því verður ekki neitað, að talsverðar óánægjuraddir hafa heyrst um fyrirkomulag það, sem er á ýmsum framkvæmdum landsverslunarinnar. Sjerstaklega hefir það komið fram, að mönnum hefir fundist hún nokkuð þunglamaleg og seinfær í vöfum. Mönnum hefir þótt sem þeir ættu ekki greiðan aðgang að fá fljóta og góða úrlausn mála sinna og oft ekki vitað, hvert þeir ættu að snúa sjer með málaleitanir sínar. Þetta er ofureðlilegt með því fyrirkomulagi, sem verið hefir, og þinginu er fremur um að kenna en stjórninni, hafi það ætlast til, að framkvæmdirnar allar væru í höndum stjórnarinnar sjálfrar. Reynslan hefir sýnt, að þetta fyrirkomulag er lítt viðunanlegt. Ef stjórninni á að vinnast tími til að gegna almennum og sjálfsögðum stjórnarstörfum, þá er ekki við því að búast, að hún sje altaf viðbúin að greiða úr málum, er snerta landsverslunina. Er því eðlilegt, að afgreiðsla þeirra mála gangi tregt. Afleiðing þessa er sú, að mönnum verður æ ljósara, að þetta fyrirkomulag er ekki heppilegt framvegis, allra síst, ef þetta ástand, sem nú er, hjeldist lengi. Jeg hygg því alment álit manna úti um land, að landsverslunin þurfi að vera aðskilin frá eiginlegum landsstjórnarstörfum. Til forstöðu hennar þurfi menn, sem sjeu verslunarfróðir, eða að minsta kosti verslunarvanir, og hafa sýnt, að þeim fari slík störf vel úr hendi. Hygg jeg, að ekki mætti komast af með færri en 3 menn, er hefðu forstöðu landsverslunarinnar. Að sjálfsögðu er ekki ætlast til, að þeir sjeu alveg einráðir um allar framkvæmdir. Þeir yrðu að bera undir stjórnina allar mikilvægari ákvarðanir til framkvæmda, er þeim virðast heppilegar. Sjá allir, hve miklu auðveldara það yrði stjórninni að skera úr málum, er kæmu undirbúin til hennar. Landsstjórnin hefði, eins og nú, yfirstjórn verslunarinnar, en þyrfti ekki að eyða eins miklum tíma til þess frá öðrum mikilvægum störfum. Jeg hygg, að þingið geti ekki skilið svo að þessu sinni, að það geri ekki ráðstafanir til þess, að stjórn landsverslunarinnar verði hagað á þennan hátt. Jeg hafði hugsað mjer, ef þessi orð mín mættu sín nokkurs, að einn af 3 forstöðumönnunum hefði aðallega umsjón með innanlandsviðskiftum, en hinir 2 önnuðust viðskiftin út á við, svo sem vörukaup, skipaleigu og þess háttar. Jeg ætlast þó ekki til, að hver og einn forstjóranna sje einráður um þau mál, sem honum eru aðallega falin. Jeg á við, að undirbúningi málanna sje skift þannig á milli þeirra, en þeir beri sig svo saman um allar mikilvægari ráðstafanir, og loks þurfi samþykki landsstjórnarinnar til þeirra. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta atriði, vildi að eins lýsa yfir minni skoðun á því.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir drepið á það, að talsverð óánægja hafi risið út af ráðstöfunum stjórnarinnar um vöruflutninga kringum landið nú fyrir skemstu. Eins og hæstv. stjórn mun kunnugt hafa komið fram kvartanir um það, að flutningsgjald af vörum hafi verið ákveðið óhæfilega hátt. Er mönnum það því óskiljanlegra, sem fullvissa mun nokkurn veginn vera fyrir því, að flutningsgjaldið hafi verið mismunandi á ýmsa staði og ýmsum vörum. Jeg hefi t. d. heyrt það staðhæft, að flutningsgjald á steinolíu hafi verið fjórfaldað frá því, sem það var næstu ferð á undan. Menn hafi greitt 20 kr. í flutningsgjald fyrir tunnuna í síðustu ferð »Botniu« til Norðurlandsins, en næstu ferð á undan hafi flutningsgjaldið verið 5 kr. Þetta er svo gífurlegt stökk, að ekki er furða, þótt að því hafi verið fundið. Enn fremur er fuJlyrt, að flutningsgjald á matvöru til sumra hafna, að minsta kosti í Þingeyjarsýslu, hafi lækkað um þriðjung á sama tíma. Þessu hefi jeg ekki getað áttað mig á, og æski því upplýsinga um þetta atriði. Það getur ekki verið nema til gagns fyrir alla hlutaðeigendur að fá vitneskju um, hvernig á þessum ráðstöfunum stendur. Jeg vænti svo góðs af stjórninni, að hún reyni að kippa þessu í lag og lækki að minsta kosti flutningsgjald á steinolíu. Jeg álít ekki verjandi, að það sje hærra en 10 kr. fyrir tunnuna. Því að það er auðsætt, að hefði skipið flutt olíu eingöngu, þá hefði flutningsgjaldið líklega numið alls 30—40,000 kr. með 10 kr. gjaldi á tunnuna. Og ekki fæ jeg annað skilið en að það hefði átt að geta staðið straum af þeim kostnaði, sem landið hefir haft af skipinu þá ferð. En þótt þetta flutningsgjald greiddi eigi allan kostnaðinn, þá hygg jeg, að það yrði ekki lagt stjórninni til ámælis, þótt hún hefði sent þessa vöru fyrir lægra verð en kostnaðinum svaraði, þar sem alkunnugt er, að sjávarútvegurinn á mjög erfitt uppdráttar. Og með þeirri heimild, er aukaþingið í vetur gaf stjórninni, hafði hún fult vald til að ákveða flutningsgjaldið lægra. En eins og þetta hefir komið fram er erfitt að mæla því bót. Jeg vona, að hæstv. stjórn taki þetta til íhugunar og endurgreiði helming þess flutningskostnaðar, sem um er að ræða.

Jeg skal svo láta staðar numið að sinni. Hygg það ekki viðeigandi að tína til ýmsar sakir, ímyndaðar og jafnvel tilbúnar. Það hefir altaf átt sjer stað, að einstakir menn úti um land hafa haft tilhneigingu til að koma á stað æsingum meðal fólks. Jeg hefi sjálfur ekki slíka tilhneigingu, og sje því ekki ástæðu til að veitast neitt að stjórninni að svo komnu.