18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

64. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (B. K.):

Samkvæmt ástæðunum fyrir þessu frv. er tilgangur þess sá, að auka tekjur landssjóðs. Jeg verð að vera mjög þakklátur hverjum þeim þingmanni, sem hugsar um það, því að það vill svo oft brenna við á þingi, að menn hugsa meira um að auka útgjöldin. En hins vegar er jeg, því miður, í nokkrum vafa um, að þetta frv. nái tilgangi sínum. Það er t. d. nokkuð hart af stað farið að hækka toll af óáfengu öli um helming, og »limonaði« um meira en helming. Svo er mál með vexti, að óáfengt öl er hjer talið nauðsynlegt vegna mjólkurskorts. Menn kaupa sjer það til fæðis og heilsubótar. Er því ilt, ef það verður svo dýrt, að menn geti ekki keypt það lengur, og verði þá bæði mjólkur- og öllausir. Ef menn hætta að kaupa, yrði afleiðingin sú, að það hætti að flytjast að mestu eða öllu leyti, og þá misti landssjóður toll, en ykist ekki. Þó að sódavatn hækki um meira en 100% gerir það minna til; það er ekki þarfavara. En vegna þess, hve tollurinn er hár, hættir það að flytjast inn, en verður búið til í landinu sjálfu, og afleiðingin yrði dýrara sódavatn, og landssjóður misti sódavatnstollinn.

Þá er lagt til, að tóbakstollur hækki upp í 3 kr. Það mætti ef til vil takast. En þó er jeg ragur við það, þar sem hjer vantar tollgæslu. Tóbak má fela í allskonar umbúðum og innan um aðrar vörur, og freistingin er því meiri sem tollurinn er hærri. Er þó öllum vitanlegt, að þegar hafa komist upp allstórfeld tollsvik á þessari vöru. En tolllöggjöf verður að stefna að því, að menn hafi sem minsta hvöt til að reyna að koma sjer hjá tollgreiðslu. Þess vegna er hjer, í tollgæslulausu landi, ráðlegast að leggja toll á sem flestar vörutegundir, en ekki ofháan. Á vindlingunum munar litlu, en gæti þó leitt til hins sama.

Á brjóstsykri er tollurinn nú 80 aurar, en hjer er lagt til, að hann verði kr. 1,50 á kg. Þetta gæti að minni hyggju verkað það, að brjóstsykurverksmiðja sú, sem hjer er, fengi »monopol« á þeirri vöru, gæti selt brjóstsykurinn háu verði, án samkepni frá útlöndum. Held jeg, að það sje hollast að útiloka ekki frjálsa samkepni með verndartollum. Að sjálfsögðu má og á að greiða fyrir innlendum iðnaði, en ekki fullkomnum »monopol«. Þess vegna held jeg, að hækkun þessi geti orðið ofmikil.

Jeg vildi gera þessar stuttu aths. áður en málið færi í nefnd og yrði athugað þar, til þess að nefndin gæti líka athugað þessi atriði.