24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

49. mál, styrkur og lánsheimild til flóabáta

Sigurjón Friðjónsson:

Í núgildandi fjárlögum er heimilaður 18.000 kr. styrkur til báts, sem gangi frá Sauðárkróki til Seyðisfjarðar. En nú mun vera ómögulegt að fá bát fyrir þennan styrk í sumar. Þær tilraunir, sem gerðar hafa verið, hafa leitt í ljós, að báturinn fengist ekki fyrir minna en 30.000 kr. Og þótt samgöngumálanefnd þætti þetta mikið fje, áleit hún þó ekki annað fært en að samþ. það. Það hefir reynst svo nú undanfarið, að mikil vandræði hafa stafað af samgönguskorti meðfram norðurströnd landsins austan til. Þannig varð það til stórtjóns fyrir hlutaðeigendur, að kjöt komst ekki út frá Kópaskeri í fyrra haust. Og mikil vandræði voru í haust í Norður-Þingeyjarsýslu með að ná að sjer matvælum. Mjer hefir jafnframt skilist á hv. þingmönnum N.-M., að mjög mikil þörf væri á þessum bát á fjörðunum fyrir norðan Seyðisfjörð. Jeg ætla því, að ekki veiti af bát, er ekki taki minna en 60 tonn, til flutninga á þessu svæði, og að til hans muni tæplega mega ætla minna en 18.000 kr. En á vesturhluta svæðisins þykir mjer líklegt, að komast mætti af með talsvert minni bát og ódýrari. Á Eyjafirði hefir undanfarið gengið bátur með 3.500 kr. styrk, og er líklegt, að enn mætti komast þar af með lítinn bát. En þetta er ekki undirbúið, og eins og sakir standa sje jeg ekki annað en þingið verði að veita þá heimild, sem hjer er farið fram á.

Viðvíkjandi lánsheimildinni til kaupa á Húnaflóabát er þess að geta, að hún var veitt í fyrra, en miðuð þá við 100 tonna bát. Þessi till. hjer er því komin fram til að rýmka um þá lánsheimild. Jeg geri ráð fyrir, að háttv. þm. Snæf. (H. St.) geri grein fyrir brtt. um viðbótarstyrk til Breiðafjarðarbáts, sem lögð hefir verið fyrir háttv. deild.