24.06.1918
Neðri deild: 54. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg þori ekki að fullyrða hvort það eru 3 eða 4 dagar síðan jeg æskti þess, að málið væri tekið út af dagskrá. Jeg hefi íhugað málið síðan, en er ekki algerlega undirbúinn undir að ræða það enn þá. Jeg ætlaði að hafa tal af hv. bjargráðanefnd um málið, en er jeg kom á fund hennar, vildi svo til, að hún hafði þegar gert till. sínar.

Mjer finst háttv. frsm. (S. St.) ekki í fullu samræmi við sjálfan sig. Hann gat þess, að lánsleiðin hafi ekki reynst vel í fyrra. Þar er jeg honum algerlega sammála, og það var einmitt af þeirri ástæðu, að stjórnin vildi snúa frá þeirri leið og inn á aðra braut. Ef lán yrðu veitt, yrði það stór halli fyrir landssjóðinn.

Ástæðan til þess, að dýrtíðarlánin voru ekki veitt í fyrra, var ekki sú, að ekki væri fje fyrir hendi. Fje var nægilegt til þess, en hefðu lánin verið veitt, hefði landssjóður orðið fyrir stórhalla. Því þó að það hjeti einungis lán, þá hefði landssjóður tapað margfalt meiru, heldur en þótt ákveðin upphæð væri veitt sem styrkur. Þegar málið var hjer fyrst til umræðu, var stjórninni fundið það til foráttu, að styrkurinn væri alt of lítill. Þetta var aðalmótbáran þá.

Háttv. framsm. (S. St.) mintist á kolaúthlutunina. Skildist mjer hann fara þeim orðum um hana, að hann liti svo á, að hún væri ófyrirsynju, og lýsti hann því, sem sú væri skoðun fólks alment. En jeg er sannfærður um, að mikill þorri manna lítur svo á, að hún hafi verið til afarmikils góðs, og jeg veit fyrir víst, að svo hefir verið. Enda hlýtur öllum að vera það skiljanlegt, að þar sem kolin voru í svo háu verði, að allur fjöldi manna gat ekki keypt þau, þá hefði orðið hreinasta neyð meðal almennings, hefði landið ekki veitt neinn afslátt af þeim.

Þá segir háttv. framsm. (S. St.), að landsstjórnin sje að bjóða út gjafir. Þetta er ekki rjett. Landsstjórnin býður ekki út styrkinn, hún bindur hann einmitt skilyrðum. Sveitarstjórnirnar verða að leggja á sig talsverðar byrðar, en svo var ekki í fyrra. Í þessu er fólgið það eftirlit, er vantaði í fyrra, en full þörf er á. Er því algerlega rangt að segja, að landsstjórnin bjóði styrkinn út. Því að vitanlega er ekki tilætlun að veita hann, nema hans sje full þörf.

Háttv. framsm. (S. St.) sagði enn fremur, að ekki væri rjett að taka til greina reynslu annara þjóða, t. d. Dana. Þar væru menn miklu auðugri. En hyggur háttv. framsm. (S. St.) ekki, að þótt þeir sjeu ríkir, þá muni þeir samt fara þær leiðir, er þeir álíta hagfræðislega bestar. Vitanlega verður að gera ráð fyrir því, að hver hyggin þjóð fari þær leiðir, sem völ er á. (S. St.: Þar hefir lánaleiðin verið farin). Háttv. framsm. (S. St.) segir, að lánaleiðin hafi verið farin þar. Jeg hygg, að sú leið sje ekki farin af þeim þjóðum, er fara viturlega með fje sitt, að þær teymi almenning ekki út á lánabrautina. Það er vitanlegt, að óholt er að taka lán til annars en til þess að auka framleiðsluna. Lán til einstakra manna til eyðslueyris, eru lítt holl.

Miklu rjettari er sú leið, að segja við almenning, að svo eða svo háa upphæð skuli hann fá. Þá veit landssjóður, hve há útgjöldin til þessa verða í hæsta lagi, og þá geta allir þeir fengið styrk, sem uppfylla þau skilyrði, er sett eru.

Háttv. framsm. (S. St.), sem er sjálfsagt mikill ráðdeildarmaður, mun og á því, að einstaklingum er óholt og hættulegt að draga fram lífið með lánum. Og hann veit, að Danir muni ekki vilja leiða fólk sitt inn á þá braut.

Eftir að háttv. framsm. (S. St.) er nýbúinn að segja, að auðugri þjóðir geti veitt styrk, þá segir hann, að þessi þjóð sje að stimpla sig með því að veita öreigastyrk. Jeg á bágt með að skilja, hvað hann er að fara. Hann hefir gripið sig fastan í lánaleiðina. En þó geri jeg ráð fyrir, að hann vilji eigi hleypa mönnum alment inn á þá leið. Sú leið er ekki heldur holl.

Stjórnin hefir haft það fyrir augum, að taka fult tillit til landssjóðsins og binda honum ekki of þunga bagga En hún vill og taka tillit til almennings. Þegar allar vörur eru í jafn-háu verði, sem nú, útlenda varan afardýr og innlendar vörur ekki siður, þegar smjörpundið kostar yfir 3 kr. og mjólkurpotturinn 52 aura og ekkert er gert til þess að halda verðinu niðri, þá á almenningur heimtingu á styrk. Og algerlega er rangt að kalla það ölmusu, þó að landssjóður hlaupi undir bagga með almenningi. Jeg geri ráð fyrir því, að þeir sem vinna við landbúnað, ættu að geta unnað almenningi einhvers styrks, þar sem afurðir þeirra eru í svo háu verði.

Hv. framsm. (S. St) ber einmitt landssjóðinn ekki fyrir brjósti, því að hann gætir þess ekki, að lánin verða til margra ára, 5 ára. Þá verður ófriðurinn vonandi á enda, en verði hann það ekki, þá fær landssjóður ekki heldur lánin endurgreidd á þeim tíma. Frá sjónarmiði háttv. framsm. (S. St.) ætti landssjóður að geta fremur veitt 450.000 kr. styrk, en 1 milj. króna lán. Landssjóður stendur sig betur við það, að sjá af 450.000 heldur en af 1 milj. kr. á þessum tímum, þegar vandræðin, er stafa af ófriðnum, kreppa að; honum veitist ljettara að standast ófriðarörðugleika, með því að gefa 450.000 kr., heldur en veita 1 milj. kr. lán.

Setjum svo, að öll sveitarfjelög á landinu fengju þennan styrk, þá mundi það nema um 450 þús. kr. Það mundi ekki þýða annað en að almenningur yrði þeim mun færari til þess að taka þátt í ófriðarbyrðinni á eftir.

Styrkurinn er takmarkaður og bundinn föstum skilyrðum. Hann getur því aldrei verið hættulegur. En lánabrautin er hættuleg. Jeg hefi oft rekið mig á það, að sú er skoðun mjög margra manna, einnig innan þingsins, að landssjóður geti veitt lán takmarkalaust til hinna og þessara fyrirtækja, án þess að nokkur trygging sje fyrir því, að þau verði endurgreidd. Og margir hafa komist inn á landssjóðinn á þennan hátt. Háttv. þingmenn hafa ekki verið eins gætnir, að hamla á móti lánum, eins og á móti beinum styrkveitingum. Því er styrkveiting heppilegri en lánveiting. Þingið er ávalt betur á verði gegn styrkveitingum.

Verði málið tekið út af dagskrá, sem jeg vona, fæ jeg ekki sjeð, að nauðsyn sje á frekari umræðum um málið að sinni. Því að vonandi finst þá leið í málinu, sem allir geta unað við.