13.06.1918
Efri deild: 43. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

52. mál, rannsókn mómýra

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Nefndin hefir athugað till. þessa og er sammála um það, að hún sje nauðsynleg og verk þetta sje eitt af því fyrsta, sem gera þarf.

En henni hefir ekki blandast hugur um, að þetta hlýtur að kosta allmikið fje, ef rannsóknin á að fara fram í stórum stíl, og þess vegna hefir hún komið fram með nokkrar breytingar við till.

Eftir till. frá Nd. er fjárframlagið ótakmarkað, en nefndin var hrædd um, að það mundi taka bæði langan tíma og verða mjög kostnaðarsamt, ef lagt yrði út í að skoða allar mómýrar á landinu, og að vissu leyti mundi það óþarft verk og árangurslitið.

Nefndin áleit því hyggilegast, að rannsóknin yrði ekki látin fara fram nema þar, sem hugsanlegt er, að móiðnaður verði rekinn í stórum stíl. Hún átti tal við Þorkel Clementz vjelfræðing, og sagði hann, að minni mýri en 100 dagsláttur og með l½ —2 metra þykku mólagi væri ekki hugsanleg til stóriðnaðar.

Það eru því ekki nema stórir mýraflákar, sem tiltök er að rannsaka, og má búast við, að slíka staði sje helst að finna kringum Faxaflóa, þótt hugsanlegt sje, að víðar megi leita.

Nefndin vildi ekki binda rannsóknina við Faxaflóa eingöngu, því að svo gæti farið, að upplýsingar fengjust um ágætt mótak annarsstaðar. Og þá þarf þess vel að gæta að velja þann staðinn, sem hægast er aðstöðu, t. d. þar sem liggur nærri góðri höfn eða hægt væri um vik að leggja járnbrautarspotta frá mótakinu til sjávar.

Þá vildi nefndin einnig takmarka fjárframlagið og miða það við 3.000 kr., til þess að ekki yrði vaðið út í óvissuna með það, hve miklu yrði varið til rannsókna þessara.

En það getur vel hugsast, að fje þetta reynist of lítið, en þá er hægt að grípa til þess að setja það í fjáraukalög síðar, ef einhverju litlu þarf við að bæta.

Þetta eru þá í stuttu máli brtt. nefndarinnar; hún vill takmarka fjárframlagið og ekki rígbinda rannsóknirnar við sjerstakt svæði.

Þorkell Clementz vjelfræðingur vildi láta nefndina bæta við heimildarákvæði fyrir landsstjórnina til að lána fjela í, sem kynni að verða stofnað til að hrinda af stað iðnaði þessum, en nefndinni fanst, eins og bjargráðanefnd háttv. Nd., ekki tími til þess kominn að svo vöxnu máli, meðan alt er órannsakað, og hún leit líka svo á, að stjórnin hefði nóg á sinni könnu að því er lánveitingar snertir.