31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Frsm. (Einar Árnason):

Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá er þetta 100.000 kr. takmark lítið atriði fyrir mjer, og ætla jeg því ekki að deila um það. En viðvíkjandi því, að þegar útlánsvextir af sjálfskuldarábyrgðarlánum og fasteignalánum eru ekki hærri en 5% og vextir af innstæðufje 4½%, þá sjeu sjóðirnir ekki færir um að bera mikinn kostnað, þá skal jeg viðurkenna, að það er rjett. En jeg lít svo á, að ekki sje hyggilegt fyrir sjóðina að hafa svo lítinn mun á útláns og innlánsvöxtum. Mjer finst meira um vert fyrir þá, sem þurfa að fá fje að láni, að geta fengið það með góðu móti nálægt sjer, þótt vextirnir sjeu dálítið hærri; menn mundu ekki finna mikið til þess eða hafa út á það að setja. Það út af fyrir sig er því ekki næg ástæða til þess, að ekki sje haldið fast við það, að sjóðirnir hafi bókhaldið sem allra tryggast.

Þá kem jeg að því að skýra, hvað átt er við með orðunum „í sveit“: jeg gleymdi að gera það áðan. Nefndin telur þann sparisjóð í sveit, sem hefir aðsetur sitt utan löggiltra kauptúna. Ef sparisjóðurinn er í löggiltu kauptúni, þá heyrir hann ekki undir það, að geta fengið undanþágu. Þegar sjóðurinn er í kauptúni, þá mun stjórnin venjulega vera þar á staðnum, og á þá ekki eins erfitt með að fullnægja skilyrðum reglugerðarinnar. Aðalerfiðleikarnir eru, ef stjórnin er ekki öll á sama stað.

Hvað upphæðinni viðvíkur, þá eru varla margir sparisjóðir í sveit, sem hafa yfir 75.000 kr. yfir að ráða. Sveitasparisjóðirnir eru flestir ungir og hafa lítið fje til umráða, svo að þeir geta ekki verið nema örfáir, sem fara yfir þessa upphæð.

Jeg sje því ekki ástæðu til að víkja frá brtt. fjárhagsnefndar í þessu máli.