11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Einar Jónsson:

Jeg get ekki með góðri samvisku hlaupið yfir að lýsa yfir því hjer í þessari háttv. deild, að því fleiri „bjargráð“ sem koma frá háttv. bjargráðanefnd, því leiðinlegri verða þau fyrir mjer.

Þgskj. 315 með þeirri till., sem þar á er þrykt og nú liggur fyrir hv. deild, er eitt af þeim þgskj., sem jeg get ekki litið á öðruvísi en með fyrirlitningu. Það nær ekki nokkurri átt, að konur á Íslandi kunni ekki að búa til og hagnýta mat á heimilum sínum. Og það nær þá ekki heldur nokkurri átt að kasta nú peningum til þess að senda utan karlmann og kvenmann, sem enginn veit hvað á að gera. Get jeg tekið undir það með háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að hjer muni vera á ferðinni bitlingur handa einhverjum, sem þurfandi þykist. Jeg held, að hann hafi komist alveg rjett að orði um það.

Jeg verð að koma að því aftur, að jeg get ekki með nokkru móti kannast við, að íslenskar konur kunni ekki að búa til sæmilegan mat úr þeim venjulegu efnum, sem þeim eru í hendur fengin, og hættan mun meiri á því, að skortur verði á matvöru eða matarefnum, heldur en kunnáttu í matreiðslu. Jeg veit ekki betur en að íslenskar konur sjeu prýðilega vel til þess gerðar, eins og margs annara.

Hæstv. forsætisráðherra komst svo að orði, að þingið ætti að reyna að bjarga sjer og landinu á sem heppilegastan og rjettastan hátt á komandi vetri, en það ætti þá alla jafna að vera kallað saman til starfa á heppilegum og rjettum tíma til að bjarga sjer.

Hæstv. forsætisráðherra mintist líka á Samverjann og kvað þar vel og rjett að orði. Samverjinn hefir hjálpað mörgu fólki. En jeg veit ekki betur en að Samverjinn hafi veitt fólkinu og muni veita því fullgóðan mat, þótt þessi till. væri ekki samþykt. Till. er því óþörf, og í henni felast engin bjargráð. Er hún í mínum augum, eins og allflest frá bjargráðanefndinni, hreint og beint ómark.

Að svo stöddu mun jeg ekki lengja umr. frekar. Gæti jeg sagt margt fleira um málið, en kæri mig ekki um það, enda þykist jeg þegar hafa gefið það fullgreinilega í skyn, að jeg muni ekki greiða atkvæði með tillögunni.