21.06.1918
Neðri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg skal geta þess, í sambandi við athugasemdir, er hjer komu fram við orðalag till. við fyrri umr. þessa máls, að nefndin hefir íhugað hana síðan og orðið ásátt um að breyta eigi orðalaginu. Nefndin vildi ekki draga neitt úr ábyrgð þeirri, sem stjórnin hefir og á að hafa í þessu máli. Þetta er heimild fyrir landsstjórnina til þess að lána, og nefndin vill ekki draga úr því, að hún heimti þær tryggingar, er henni finnast henta, til þess að geta sjeð hag landssjóðs borgið.

Stjórnin hefir því heimild til að lána eigendum verksmiðjunnar, gegn veði í verksmiðjunni sjálfri, að því leyti, sem hún er ekki veðbundin áður, og gegn ábyrgðum þeim, er hún tekur gildar. — Það sem jeg ljet um mælt við fyrri umr. var, að nefndinni virtist, að fyrirtæki þetta stæði alltraustum fótum, með bakhjöllum þeim, sem nú eru eigendur, og því mundi ekki þurfa að óttast að lána eigendum út á það. En þess átti ekki að vera varnað, að stjórnin heimtaði frekari ábyrgðir, ef henni að rannsökuðu máli þætti þetta ekki fullnægjandi Það var aldrei meining mín eða nefndarinnar, að neitt fjetál ætti að komast hjer að. En við nánari athugun má sjá, að þó að eigendur þeir, sem nú standa að verksmiðjunni, sjeu vel stæðir menn, þá geta orðið eigendaskifti að hlutum í svona fyrirtæki, og það áður en kemur til að lána, og því er sjálfsagt, að stjórnin hafi allan veg og vanda af tryggingunum.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að eyða að þessu frekari orðum, en vænti, að háttv. deild taki till. vel og leyfi henni fram að ganga á þeim grundvelli, sem hún hljóðar um.