06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E):

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hagaði mjög einkennilega orðum sínum í síðustu ræðu sinni. Þóttist alls ekki hafa ráðist á stjórnina, og dáðist að sinni eigin hógværð. Háttv. þm. (S. St.) minnist þó ef til vill þess, að hann talaði um „hyldýpi ráðleysis og aðgerðaleysis hjá stjórninni“. (S. St.: Hann sagði það, karlinn). Og þetta mun í flestum siðuðum löndum vera skoðað sem árás. En annað mál er það, ef háttv. þm. (S. St.) hefir iðrast þessara orða; þá er sjálfsagt að fyrirgefa honum það, gömlum manninum. Enn þá bljes háttv. þm. (S. St.) út af því, að aukaþingið hefði verið kallað saman. En jeg er búinn að færa glöggar ástæður fyrir samankölluninni. Var ástæðan sú ærin nóg, að gera þurfti samninga við Bretann. Og eðlilegt, að stjórnin í slíku stórmáli vildi hafa þingið sjer við hlið, því að sú getur niðurstaðan orðið af þessum samningum, að þjóðin þurfi alveg að breyta lifnaðarháttum sínum Og hve nær er þörf á, að þing sje kvatt saman, ef ekki undir slíkum kringumstæðum ? Þetta hljóta allir að sjá, sem ekki eru gengnir í barndóm og hugsa um annað en að gera árás á stjórnina.

Þá ætti öllum að vera ljóst, eins og jeg vjek að í fyrstu ræðu minni, að höfuðástæðan til þingsamanköllunarinnar voru sjálfstæðismálin. Er nú gleymt, hver afdrif fánamálsins urðu í ríkisráði? Og er ekki öllum ljóst, að sú varð niðurstaðan í því máli, að stjórninni var nauðsynlegt að ráða ráðum sínum með þinginu um það mál? Og ekki veit jeg betur en þetta mál sje enn í höndum þingsins. Fullveldisnefndin situr á rökstólum og hefir málið til meðferðar. Jeg skal ekki fara mikið inn á afskifti háttv. þm. (S. St.) af sjálfstæðismálunum, en ekki mundi of mikið sagt, að hann hefði verið loðinn í þeim málum, og má af því ráða áhugaleysi hans nú. Veit jeg, að allir skilja þau ummæli mín. (S. St.: Nei). Man þá ekki háttv. þm. (S. St.) framkomu sína í efri deild 1913? Mikil var veðrabreytingin þá í sál hans. Og roðinn í kinnum hans eftir þá framkomu var enginn sjálfstæðisroði.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagðist ekki vera að tala fagurgala við alþýðu og hrópa elskuleg alþýða. Þetta skil jeg vel, því að enginn í alþýðustjett mundi trúa honum, þótt hann hrópaði þannig. Háttv. þm. (S. St.) hefir ekki verið forvörður alþýðunnar. Og hann vinnur ekkert á því, þótt hann reyni að gera tilraunir stjórnarinnar til að hjálpa í neyðinni í vetur tortryggilegar.

Jeg tel, að allir ættu að gleðjast yfir því, hve vel bærinn og landið slapp yfir þennan harða vetur. Það verður ekki metið til peninga. Annars man jeg ekki eftir, að jeg þurfi að svara háttv. þm. (S. St.) meira. Við stóryrðin vil jeg ekki eltast; þau dæma sig sjálf.

Háttv. 1. þm. G. K. (B. K.) kom með nokkrar athugasemdir við frv., er jeg lít svo á, að frekar heyri til 2. umr. um málið en 1. umr., og mun því litlu svara þeim nú. Háttv. þm. (B. K.) sagði, að hann hefði kunnað betur við að leggja útflutningsgjald á vörur en stimpilgjald það á farmskrárnar, sem hjer er ráð fyrir geit. Jeg get alls ekki fallist á þetta, vegna þess að það er alls ekki ætlun mín að innleiða til langframa þennan skatt á afurðir landsins, heldur ætlast jeg að eins til þess, að hann sje til bráðabirgða. Jeg er jafnmótfallinn tolli á afurðum landsins og jeg hefi verið, en það hefir orðið að víkja vegna tekjuþarfar landsins. Og svo hefir farið fyrir öðrum háttv. þm. Þannig hafa margir, sem harðast stóðu gegn vörutollinum, framlengt hann vegna nauðsynjarinnar. Þetta er alt gert til bráðabirgða, með það fyrir augum, að skattalöggjöfin verði öll endurskoðuð hið fyrsta sem unt er, og reynt að koma meira samræmi í hana en nú er.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) var að finna að því, að stjórnin væri að grafa upp gömul frv. og leggja þau fyrir þingið — jeg sje ekki hvað er eðlilegra. Því skyldi stjórnin ekki eftir föngum hagnýta sjer vinnu fyrri þinga? Frv. þetta var samþ. hjer í háttv. Nd. á síðasta þingi. (M. P.: Ekki svona). Það er satt, en líkt í frumdráttum, og háttv. Ed. tók vel í það, þótt hún vísaði því til stjórnarinnar. Og hvað er þá eðlilegra en að stjórnin taki það frv., er hún býst við, að Alþingi samþ.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagðist ekki hafa búist við öðru en fálmi frá þessari stjórn. Þetta þykir mjer kynlegt, því að jeg hjelt, að hann bæri þó fult traust til hæstv. forsætisráðherra; að minsta kosti hefir hann verið í bandalagi og trygðaböndum við flokk hans, og þeir hafa tylt háttv. þm. Stranda, (M. P.) í þær nefndir, er hann langaði mest til að komast í.