11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Pjetur Jónsson:

Jeg er alveg samþykkur því, er háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók fram; jeg vil að eins bæta örlitlu atriði við það.

Það má líklega telja þetta til bjargráða, en það eru ekki þau bjargráð, sem við þingum mest um, eða neitt sjerstaklega fyrir yfirstandandi tíma, heldur fyrir framtíðina.

Mönnum hefir komið margt til hugar til bjargar í yfirstandandi hernaðarvandræðum, en það hefir strandað á fjárskorti vorum. Þar sem svo er, þá skil jeg ekki, hvernig háttv. þm. vilja svo óðfúsir kasta út fje til málefnis, sem ekki er betur undirbúið en þetta er.

Styrkur sá, sem hjer er um að ræða, nemur þó þó töluverðu fje, og meiru en nú er ráð fyrir gert, því að jafnframt því að veita þennan styrk er fyrirheit veitt um styrk til fleiri báta annarsstaðar. Og vel má svo fara, að eigi verði af framkvæmdum um þetta, en þá hefir fyrirheitið um styrkinn að eins bundið hendur þingsins um aðrar brýnni ráðstafanir.

Jeg er því bæði á móti till. sjálfri og brtt. Jeg tel hyggilegra, að gera meira til bjargráða fyrir yfirstandandi tíma en framtíðina. Fjeð verður hjer að ráða.