10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

Rannsókn kjörbréfs

Einar Arnórsson:

Jeg vil leyfa mjer að gera stutta athugasemd um þetta mál, og þá einkum út af ræðu háttv. þm. Dala. (B J.). Hann virðist telja spurningu þeirri, sem hjer liggur fyrir, algerlega svarað með ákvæðum 9. gr. stjskpl. 19. júní 1915, eða 18. gr. í „kverinu“, er hann nefndi og hefir að geyma samsteypu af stjórnskipunarlögum landsins þremur.

Jeg get ekki talið, að tilfelli það, sem hjer þarf umræðu og úrlausnar, sje lögákveðið með orðum stjórnskipunarlaganna.

Í stjórnskipunarlögunum 1915, 9. gr. (18. gr. í „kverinu“) 2. málsgr, segir: „Deyi þingmaður, kosinn óhlutbundinni kosningu, meðan á kjörtímanum stendur, eða fari frá, þá skal kjósa þingmann í stað hans, fyrir það, sem eftir er kjörtímans“. Þetta á að eins við um kjördæmakosna þingmenn, en eigi svo kallaða „landskjörna“, eins og líka orðin sýna glögt.

En svo kemur á eftir í sömu málsgrein: „Verði á sama hátt autt sæti þingmanns, kosins hlutbundinni kosningu, tekur sæti hans varamaður sá, er í hlut á“.

Mig og háttv. þm. Dala. (B. J.) greinir á um skilning þessa ákvæðis, og ágreiningur sá liggur í því, hvort þetta ákvæði stjórnarskrárinnar sje tæmandi.

Hjer er ekkert sagt annað en það, að þegar aðalþingmaður deyr eða fer frá, þá skal varaþingmaður taka við.

Um slíkt tilfelli, sem hjer er um að ræða, sem sje það, ef aðalþingmaður sannanlega forfallast svo, að hann getur ekki setið eitt þing, er ekkert sagt.

Jeg get ekkert um það sagt, hvað borið hefir á góma hjá þingnefndum þeim, er fjölluðu um stjórnarskrána 1913, en í nefndaráliti þeirra er ekkert á þetta atriði minst. En þar sem þetta er algerlega ólögákveðið, er frá mínu sjónarmiði ekki nema um tvent að ræða, annað hvort að ályktun „e contrario“ (andstæðuályktun) eða „analogiu“-ályktun (lögjöfnun).

Noti maður andstæðuályktun, verður að líta svo á, sem ákvæði þetta sje tæmandi, og á þá varaþingmaður ekki að taka sæti. Vill háttv. framsm. meiri hlutans (B. J.) hafa þá aðferð. En nú er hún aldrei notuð við lagaskýringar, nema knýjandi nauðsyn sje til. Hjer yrði því að sanna, að tilgangurinn með samningi þessa ákvæðis hafi verið sá, en til þess brestur öll gögn, því að gögn get jeg ekki talið fullyrðingar háttv. nefndarmanna, allra síst þegar þær fara í andstæðar áttir.

Jeg býst við, að það verði erfitt að dæma um, hvor þeirra fer með rjett mál; að minsta kosti hefi jeg enga vog til að mæla á vit manna og minni.

Að vísu er það virðingarvert af háttv. þm. Dala. (B. J.) að vilja gæta þess sem best, að fyrirmæli stjórnarskrárinnar sjeu haldin. En það má líka brjóta anda þeirra og tilgang með einstrengingslegri bókstafsskýringu.

Jeg ætla að benda á nokkur atriði í stjórnskipunarlögunum, sem vafi getur leikið á hvernig skilja beri, líkt og hjer, hvort lögjafna skuli eða álykta „e contrario“, og þar sem velja verður því þá skýringuna, sem skynsamlegri er og betur fullnægir tilgangi löggjafarinnar.

Í 1. gr. stjórnskipunarlaga frá 1915 2. gr. í kveri þessu, segir svo:

„Nú deyr ráðherra eða lætur af embætti, og gegnir landritari þá ráðherrastörfum á eigin ábyrgð, þangað til skipaður hefir verið nýr ráðherra“?

Ákvæði þetta er skýrt og glögt og að því leyti eins um það og ákvæðið í 9. gr. stjórnskipunarlaga 1915 (18. gr. í kverinu).

Nú getur ekki orkað tvímælis, að óumflýjanlegt hefði verið, að landritari gegndi einnig ráðherrastörfum á eigin ábyrgð, enda þótt ráðherra hvorki dæi nje ljeti af embætti, ef hann yrði t. d. vegna geðveiki eða af öðrum slíkum ástæðum ófær til að bera nokkra ábyrgð gerða sinna. En slíkur skilningur er þó ekki eftir orðum ákvæðisins, heldur anda þess. Enda þótt orðin í nefndri grein sjeu engu síður fortakslaus en í 9. gr. stjórnskipunarlaga 1915 (18. gr. í „kverinu“), er það alveg fráleitt að álykta af þeim „e contrario“. Hitt er samkvæmt anda og tilgangi ákvæðisins að lögjafna.

Það verður því öllum ljóst, að við skýringu þessa ákvæðis verður að nota „analogi“ eða lögjöfnun, en eigi andstæðuályktun.

En svo að jeg haldi mjer við sömu greinina, 2. gr. í kverinu, þá er þar annað atriði, sem ekki er heldur hægt að leggja bókstafsskilninginn í. Þar stendur svo, að landssjóður greiði laun ráðherra, svo og kostnað hans við ferðir á konungsfund. Eftir bókstafnum ber landssjóði ekki að greiða kostnað við utanferðir hans í öðrum erindum. Jafneinstrengingsleg bókstafsskýring og sú, er háttv. þm. Dala. (B. J.) fylgir, mundi hjer leiða til þessa.

En þann veg hefir þingið þó ekki litið á, því að með lögum frá 2. jan. 1917 er það ákveðið, að landssjóður greiði utanfararkostnað ráðherra, þótt ekki sje á konungsfund.

Þann veg mætti til tína mörg fleiri dæmi úr sjálfum stjórnskipunarlögum vorum, þar sem álitamál er, hvort nota skuli andstæðuályktun eða lögjöfnun við skýringu lagaákvæða. Verður þá jafnan að taka það, sem skynsamlegast þykir og næst tilgangi þeim, er löggjafinn ætlar að ná, eða virðist ætla að ná, með ákvæðum sínum.

Tilgangurinn með varaþingmönnum er fyrst og fremst sá, að aldrei þurfi að vera óskipað sæti aðalþingmanns, enda játar háttv. þm. Dala. (B J.), að sanngirni mæli með því, að varaþingmaður (S. F.) komi nú í sœti 1. landsk. þm. (H. H.). Eftir Alþ.tilskipun frá 1843 var þetta og svo, að varamaður tók sœti, ef aðalmaður var forfallaður, enda þótt hann væri hvorki dáinn nje farinn til fulls frá. Svo er það og enn um sýslunefndarmenn. Það yrði því að sanna, að stjórnskipunarlögin hefðu beinlínis átt að útiloka hjer gamla viðurkenda reglu, bæði frá ráðgjafarþinginu og sýslunefndum. En sú sönnun er eigi fram komin.

Jeg get því ekki sjeð, að hjer sje um brot á stjórnarskránni að ræða, þótt varaþm. taki sæti forfallaðs aðalmanns, frekar en í dæmum þeim, sem jeg tilnefndi, og fleirum, þar sem ákvæðið er ekki tæmandi og tekur ekkert fram um slíkt tilfelli, sem útkljá þarf. Hjer er að eins tekin líking af svipuðum ákvæðum.

Samkvæmt því, er jeg nú hefi sagt, virðist mjer varaþingmaður (S. F.) geta tekið sætið með fullum rjetti og án þess að stjórnskipunarlögin sjeu á nokkurn hátt brotin.

Þá kem jeg að gamanyrði háttv. þm. (B. J.) um 41. þm. Þá hefði eins mátt segja, eftir tilskipun frá 1843, að þm. væru 21, 22, eða jafnvel 40, þar sem svo var tilskipað, að varaþm. tæki sæti hvert sinn, er aðalþm. var hindraður, líkt og nú á sjer stað í sýslunefndunum.

Það mætti telja í allan dag samskonar dæmi úr stjórnskipunarlögunum, þar sem vafamál er og skiftar skoðanir um, hvernig skilja beri.

En jeg vildi að eins með þessum orðum mótmæla því, að hjer sje framið brot á stjórnarskránni, þótt varaþm. fái sœti á þinginu.