10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

Rannsókn kjörbréfs

Frsm. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg get verið stuttorður. Háttv. frsm. minni hl. (P. J.) gat þess, að hjer vœri um vöntun að ræða í stjórnarskránni. Það kann vel að vera. Jeg benti líka á það í framsögu minni, að betur færi, ef varamaður væri fyrir hvern þm.

En hjer getur ekki verið að ræða um vöntun af gleymsku hjá löggjöfunum, því að slíkt er ekki fátítt, að þm. vanti. En verði þetta talin vöntun, þá tel jeg auðgert að breyta stjórnarskránni og bæta úr göllum hennar, en ekki get jeg fallist á, að bæta úr þeim á þennan hátt.

Aftur á móti mun jeg á sínum tíma verða þeirri breytingu fylgjandi, að varamenn komi fyrir alla þm.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók að sjer það verk að sýna fram á, að þetta væri ekki brot á stjórnarskránni. Hefir það verið ilt verk, þar eð jafnverkfærum manni reyndist það ofurefli.

Hann byrjar á því, að við sjeum sammála, en bætir svo við, að ekkert ákvæði sje til yfir tilfelli það, sem hjer er um að rœða. Þar virðist hann tala af annarlegum anda, þar sem það er nákvæmlega tiltekið, að varamaður skuli ekki setjast, nema sæti þm. sje autt, á sama hátt og þegar kjósa þarf þjóðkjörinn þm.

Þá telur hann það engin gögn, sem við, nefndarmennirnir, segjum um málið á fyrri þingum. (E. A.: Jú, ef ykkur bæri saman). Það má hann þó vita, að jeg man þetta betur, þar sem honum er kunnugt um minni mitt. Enda man jeg það glögt, að jeg hjelt því fram þá, að varlegra væri að orða síðari hluta greinarinnar eins skýrt og hinn fyrri, til að taka af skarið um það, að sömu ákvæði giltu um landsk. og kjördæmakjörna þm. En einn af nefndarmönnum, Lárus H. Bjarnason, mótmælti því og taldi þess ekki þörf.

Vona jeg, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) meti orð samkennara síns um það, að þetta sje rjett skilið hjá mjer. En hann lagði þann skilning í ákvœðið, að það vœri tæmandi, eins og það er nú orðað. En vilji menn vefengja orð mín nú, get jeg skírskotað til flokksfunda, sem um málið hafa rætt. Skýrði jeg þar frá því og sýndi fram á, að ákvæði þetta um varaþm. kom fram af þeim ástæðum, að kostnaður og erfiðleikar allmiklir mundu fylgja því að stofna til landskosninga í hvert skifti sem sæti yrði autt. Skyldi því varaþm. setjast í autt sæti. En nú er hjer ekkert sæti autt, því að hver af hv. þm. hefir dáið, hver hefir sagt af sjer þingstörfum? Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri spurningu að hœstv. forsætisráðh., hvort hjer sje nokkurt þingsæti autt. Því hefir ekki verið lýst yfir, og engin skjöl hafa verið lögð fram því til sönnunar.

Háttv. 1. landsk. þm. (H. H.) situr því enn þá í sínu sæti, því að með þingsæti meina jeg ekki stól þann, sem þm. situr á, því að ef svo væri, mætti senda veika manninum stólinn heim. (P. J.: Þingsæti er stóllinn, sem atkvæði eru greidd frá). Jeg vil enn þá fullyrða, að hjer er ekkert þingsæti autt.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um fjárveitingu til ferðakostnaðar ráðherra. En það er ekki nýtt, þótt með fjárlögum sje ákveðin útgjaldahœkkun eða lækkun. Til þess hefir heldur aldrei verið ætlast, að stjórnarskráin yrði notuð fyrir fjárlög, og ákvœði hennar um útgjöld landssjóðs eru engan veginn tæmandi. Það kemur því ekki til mála að taka það ákvæði til samanburðar. En hins má geta, að eins stendur á um tölu þm. Það er hliðstætt dæmi. Þar stendur, að þm. skuli vera 40, en er hvergi bannað, að fleiri sjeu. Hjer stendur, að varaþm. skuli setjast í autt sæti, en er ekki bannað, að tveir skipi sama sætið.

En hvorttveggja virðist jafnfráleitt, meðan hvorki er til lagaheimild nje fyrirskipun um það.