20.04.1918
Efri deild: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1606)

3. mál, fráfærur ásauðar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) þótti bresta á röksemdir fyrir dagskrá þeirri, er landbúnaðarnefndin ber fram og ætlast til að frv. sje afgreitt með. Það er rjett, að rökfærslan er ekki ítarleg að því leyti; en þó er í niðurlagi nefndarálitsins nokkur rökstuðning fyrir dagskránni.

Þá fann hann það og nefndinni til foráttu, að hún gerði ekki grein fyrir því, á hvern hátt stjórnin mætti best auka vinnukraft bænda. Satt er það, að nefndin hefir eigi borið neitt fram um það, á hvern hátt það eigi að framkvæmast, en nefndin varð að líta svo á, sem það væri, í þessu sambandi, fremur skylda stjórnarinnar. Frv. það, er hjer liggur fyrir og stjórnin ber fram, krefst mikils aukins vinnukrafts, og ætti stjórnin að hafa hugsað sjer leiðir til að bæta úr því. Jeg vil því vísa hv. þm. Ísaf. (M. T.) til stjórnarinnar um þetta atriði. Ef ætti

að bæta úr þessu til fulls, mundi þurfa önnur þvingunarlög, er ræku fólk með valdi úr sjávarþorpunum upp í sveitir landsins, til að stunda þar vinnu. (Atvinnumálaráðh.: Mætti veita ívilnun á ferðakostnaði).

Besta ráðið til þess að hvetja bændur til þess að færa frá er eflaust það, ef landsstjórnin gæti trygt mönnum gott smjörverð, svo bændur sæju, að fráfærur borguðu sig.

Sami hv. þm. (M. T.) gat um það, að frv. það, er jeg hefi flutt, mundi draga úr smjörframleiðslunni. (M. T.: Mjer gefst tækifæri til að kreista svampinn síðar). En þar sem það liggur ekki hjer fyrir, en jeg býst hins vegar við, að síðar verði tækifæri til þess að ræða þetta mál, þá læt jeg það bíða að sinni.

Samkvæmt ósk þm. Ísaf. (M. T.) bar forseti upp, hvort fresta skyldi umræðunni.

Það var felt með 8:5 atkv.