18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1633)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Því neitar enginn, að læknar hafa lág laun, borið saman við ýmsa aðra starfsmenn, og ekki síður ef miðað er við þann tilkostnað, sem undirbúningur þeirra undir starf sitt hefir í för með sjer. En þó föst laun þeirra sjeu lág, þá álít jeg, að þessi leið, sem valin er í frv. til að bæta kjör þeirra, sje afar óhentug. Ekki af því, að í ekki sje ástæða til að hækka laun læknanna, svo þeir geti lifað betra lífi og átt hægara með afkomu alla, heldur vegna þeirra afleiðinga, sem það gæti haft fyrir heilbrigði í landinu, ef þessi leið væri valin. Borgunin fyrir ferðir lækna er ekki há, frá þeirra sjónarmiði sjeð, en hún er samt nógu há fyrir þá, sem læknis þurfa að vitja um langan veg. Löng ferðalög eru dýr fyrir þá, sem þurfa að kaupa öll farartæki, og því tilfinnanlegt að bæta háu ferðakaupi læknis ofan á kostnaðinn við að flytja hann.

Jeg skil vel afstöðu læknanna, og jeg viti alls ekki þá, sem bera þessa launakröfu fram. Læknarnir ættu það sannarlega skilið, að kjör þeirra væru betri. Þeir leggja svo mikið í sölurnar. En leiðin, sem frv. þetta vill fara til að bæta kjör þeirra, er varhugaverð.

Háttv. þingdm. minnast þess ef til vill, að síðastliðinn vetur kom það til tals í Englandi að breyta launalöggjöf læknanna á þá leið, að þeim skyldi vera launað að öllu leyti af ríkisins fje, en sjúklingar þyrftu ekkert að greiða fyrir læknishjálp sína. Þetta átti ekki að gera einungis vegna sjúklinganna sjálfra, heldur vegna heilbrigðisástandsins í landinu. Það þykir meiri trygging fyrir því, að læknis sje vitjað í tíma, ef sjúkdóma ber að löndum, þegar mönnum gefst kostur á læknishjálpinni fyrir væga borgun. — Þó við vildum nú ekki fara eins langt í þessu efni og komið hefir til orða að Bretar færu, þá er varhugavert, ef við ætlum að fara að gera alla læknishjálp dýrari en hún hefir verið. Jeg er hræddur um, að það gæti orðið til þess, að menn vitjuðu ekki læknis nema í ítrustu nauðsyn, sjerstaklega þeir, sem minni ráð hafa á að borga. Menn mega ekki skilja orð mín svo, að jeg sje á móti því, að laun lækna sjeu hækkuð, heldur er jeg á móti því, að farin sje þessi leið, sem frv. gerir ráð fyrir. Jeg get verið því fylgjandi og skal stuðla að því, að eitthvað verði gert til þess, þegar á þessu þingi, að bæta laun lækna, fastakaup þeirra eða á einhvern annan hátt, en að gjaldskráin og borgun fyrir ferðir sje látið halda sjer sem mest óbreytt.

Það hefir komið fram brtt., á þgskj. 114, um að fella í burt 2. gr. frv., það er að segja, nema í burt hækkun á ferðakaupi lækna. Þetta mundi koma sjer einkar vel fyrir þá, sem læknis þurfa að vitja um langan veg. En þetta er samt sá liður, sem næst lægi að hækka, að undanteknu fastakaupinu. Þó það kæmi hart niður á þeim, sem þurfa að sækja lækni langt, þá er þetta kaup undur lágt, eftir núgildandi gjaldskrá. En það hefir auðvitað vakað fyrir tillögumönnum, að það geti orðið töluverð fúlga fyrir þá, suma hverja, sem eiga að greiða hana, en það er þó rjettlátt.

Jeg held það hefði verið heppilegra, frá heilbrigðinnar sjónarmiði, að nefndin hefði borið fram frv. um að hækka föst laun læknanna, og jafnvel hækka þau mjög ríflega. Ef nefndin álítur ekki fært að fá því framgengt á þessu þingi, þá hygg jeg fyrir mitt leyti, að unt yrði þá á annan veg að bæta kjör læknanna. Með þessu móti, sem frv. fer fram á, kemur launabótin á þá, sem síst geta borið hana, sem sje sjúklingana. Þeir, sem heilsugóðir eru, eru ekki of góðir til að bera eitthvað af þeirra byrði. Það gæti farið svo, að eftir frv. yrði ómögulegt, nema fyrir vel efnaða menn, að vitja læknis. Ef t. d. læknis er vitjað eftir 9 að kvöldi, til einhverra minni háttar læknisverka, t. d. skera í ígerð, þá getur það kostað 15—17 kr., þó læknirinn þurfi ekki mjög langt að fara, t. d. 3 tíma ferð fram og aftur. Menn sjá, að þessi kostnaður getur hæglega vaxið mörgum efnalitlum yfir höfuð.