04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (1692)

107. mál, verðlagsnefndir

Einar Arnórsson:

Hv. 1. þm. G. K. (B.K.) sagði, sem sjálfsagt er heldur ekki ástæða til að bera brigður á, að utan Reykjavíkur sje lítil þörf fyrir verðlagsnefndarákvæði. Þetta mun vera alveg satt. Af því dró hann þá ályktun, sem líka er rjett, ef forsendan er rjett, að óþarft sje að skipa verðlagsnefnd annarsstaðar en í Reykjavík. En af sömu forsendunni virðist einnig mega draga aðra ályktun, sem er ofureinföld og liggur beint við. Hún er sú, að þetta frv., sem hv. bjargráðanefnd er með á prjónunum, sje líka hreinasti óþarfi. Ef óþarfi er að gera nokkrar verðlagsákvarðanir, hvað á þá að gera með verðlagsnefndir, og hvað á þá að gera með heimildir til að skipa þær? (B. K.: Þar sem fólkið er flest og viðskiftin mest, þar getur verið þörf fyrir þær). Jú, þar sem fólkið er flest og viðskiftin mest. En mjer skildist á ræðu hv. þm. (B.K.), að hann álíti, að víðast hvar utan Reykjavíkur væri framboð á vörum meira en eftirspurnin. Ef svo er, þá skiftir ekki miklu, hve margt fólk er á staðnum. Ef útlit er fyrir, að eftirspurnin kynni að aukast á einhverjum stað þannig, að hún yrði meiri en vöruframboðið á þeim stað, svo að þörf yrði fyrir verðlagsákvæði, hvað er þá betra að skipa verðlagsnefnd þar á staðnum heldur en að ein verðlagsnefnd sje fyrir alt landið, ávalt reiðubúin til að ákveða hámarksverð, hvar sem þess gerist þörf? Ef verðlagsnefnd er skipuð á hverjum stað, þá er miklu frekar hætta á, að það gæti orðið til þess, að framleiðendur þar í grendinni yrðu fremur fyrir ósanngirni af hennar hálfu heldur en ef óviðriðnir menn eiga að skera úr málunum. Við getum tekið til dæmis á Ísafirði. Það er sá staður, sem helst mundi geta skort innlendar afurðir, næst á eftir Rvík, svo eftirspurn yrði meiri en framboð á þeim. Þá mundi stjórnarráðið skipa þar verðlagsnefnd, væntanlega eftir tillögum bæjarstjórnar. (B. K.: Á móti tillögum bæjarstjórnar. Það er venjan). Það getur vel verið. En þó hv. 1. þm. G. K. (B. K.) segi það venju að skipa nefndir móti till. bæjarstjórnar, þá býst jeg við, að landsstjórnin mundi í þessu tilfelli verða, sökum skortandi þekkingar, að fara eftir till. bæjarstjórnar. En hvort sem hún gerði það eða ekki, þá mundi hún skipa í nefndina einhverja menn, sem búsettir væru á Ísafirði. Jeg get ekki talað mikið með um það, hvað er venja við slíkar útnefningar. Hv. 1. þm. G. K. (B. K.) hlýtur að tala þar af þekkingu, því hann hefir verið ráðherra og kannast líklega við þesskonar praxis frá þeim tímum. Annars mundi hann varla gera ráð fyrir, að honum væri fylgt. — En ef það kæmi fyrir, að verðlagsnefnd yrði skipuð, að sjálfsögðu mönnum úr kaupstaðnum, hvort sein þeir væru valdir eftir till. bæjarstjórnar eða ekki, þá er ekki óhugsandi, að þeir kynnu að halla rjetti framleiðendanna, sem búa í kringum kaupstaðina. Á þessu væri minni hætta, ef að eins væri ein nefnd á öllu landinu, sem skipuð er öllum flokkum mannfjelagsins, ef jeg má svo að orði kveða. Í þeirri nefnd, sem nú situr, eru fulltrúar bæði fyrir sjávar- og sveitaratvinnu, svo hún ætti að geta litið óvilhalt á málin. Jeg held því, að það sje ólíkt heppilegra, ef á að hafa einhverja verðlagsnefnd á annað borð, að halda sjer við það fyrirkomulag, sem nú er, heldur en fara að skipa nefnd á hverjum stað.

Hv. þm. Mýra. (P. Þ.) vildi ekki neita því, að ef það fyrirkomulag, sem hann, eða háttv. bjargráðanefnd, leggur til að verði upp tekið, gæti valdið glundroða í framkvæmdinni. Það er ekki von, að hann vildi neita þessu, því hann er skynsamur maður, og skynsamir menn neita ekki staðreyndum. En hv. þm. (P. Þ.) hjelt, að girða mundi mega fyrir þennan möguleika með reglugerð, sem stjórnarráðið gæfi út. Jeg veit ekki hvort hægt er að girða fyrir þann möguleika með reglugerð, og sje ekki aðra örugga leið til þess en þá, að drepa þetta frv., sem hjer er á prjónunum.

Hv. frsm. (S. St.) sagði, að heimildin mundi ekki verða notuð, því ekki mundi verði þörf á verðlagsnefndum. En þá er ekki heldur nein þörf á frv. hv. þm. Mýra (P. Þ.) benti á, að stjórnin hefði heimild til að neita að skipa verðlagsnefnd, ef henni virtist engin ástæða til að gera það, þó að þess væri óskað. En það mundi vera mjög illa sjeð af stjórninni, ef hún gerði það. Sú bæjarstjórn, sem lagt hefir til, að verðlagsnefnd skuli skipuð á þeim stað, mundi verða óánægð, ef till. hennar væri ekki sint. (P. Þ.: Jeg geri ráð fyrir, að hún mundi færa einhverjar ástæður fyrir því, að hún fór fram á það). Því býst jeg líka við. En fyrst hv. þm. (P. Þ.) gerir ráð fyrir, að neitað kynni að verða um nefndarskipun, þá hlyti það að vera af því, að stjórnin tæki þessar ástæður ekki gildar. Og ekki verður óánægjan minni hjá bæjarstjórninni, þó að henni finnist hún hafa fært gullvægar ástæður fyrir tillögum sínum, en að þær hafi verið virtar að vettugi. En jeg get gefið hv. þm. Mýra (P. Þ.) eftir í því, að till. hans er í fullu samræmi við það, sem nefndin fer fram á. Ef þörf getur orðið á verðlagsnefnd einhversstaðar, þá getur sú þörf komið fyrir á hverjum stað sem er, en er ekki bundin við kaupstaðina. Hún fer ekki eftir því formi á stjórnarskipun staðarins, sem gerir hann að kaupstað. Jeg veit t. d. ekki hve nær Siglufjörður verður gerður að kaupstað. En sá dagur, sem hann fær kaupstaðarrjettindin, verður varla úrslitadagur um það, hvort ákveða þurfi þar verðlag á útlendri eða innlendri vöru.

Jeg get ekki fallist á það, með hæstv. forsætisráðherra, að heppilegt væri, að sýslunefndir gerðu till. um verðlagsnefndarskipun. Eins og kunnugt er, halda þær sjaldan fundi. Að vísu má kveðja þær saman á aukafundi, þegar nauðsyn krefur. En hræddur er jeg um, að sumir sýslunefndarmenn yrðu óánægðir yfir því, að þurfa að takast löng og erfið ferðalög á hendur, til þess að mæla með skipun verðlagsnefndar í einhverju kauptúninu í sýslunni. Enda mundi venjulega reynast svo, að meiri hluti sýslunefndar yrði algerlega á móti því að skipa verðlagsnefnd, ef til vill í eina kauptúninu í sýslunni. Það mætti því teljast fyrirfram ákveðið, að slíkar nefndarskipanir yrðu æfinlega feldar. Það væri því sama sem að taka með annari hendinni, sem gefið er með hinni, að fela sýslunefndum þetta skipunarvald.

Flestu af því, sem fram kom hjá hv. framsm. (S. St.) hefi jeg áður svarað í orðum mínum til annara þm. Það kemur sama hugsuninni fram hjá honum og hjá hv. 1. þm. G. K. (B. K.), að ekki muni verða þörf á verðlagsnefndum, nema fyrir Reykjavík. Ber það alt að sama brunni, að best sje að láta standa það fyrirkomulag sem er. — Hv. framsm. (S. St.) virtist sárna það, sem jeg hafði sagt, að jeg taldi ekki girt fyrir hlutdrægni í skipunum verðlagsnefnda, ef sveitar- og bæjarstjórnir ættu að ráða þar mestu um. Hann sagði, að menn yrðu að ganga út frá, að þessir tímar væru búnir að bræða svo úr mönnum allan sjerplægnisanda, að ekki væri hætt við neinni hlutdrægni. Jeg hefi ekki þá trú, að mennirnir sjeu orðnir svo miklu betri en þeir hafa verið, eða verði það fyrst um sinn. Það mun lengst af verða svo, að hver reynir til að vera sjálfum sjer næstur. Og mjer dettur ekki í hug að álasa neinum fyrir það, þó að sá, sem vöru hefir að selja, reyni að fá fyrir hana svo mikið verð, sem hann getur fengið, og sá, sem þarf að kaupa vöruna, reyni að fá hana fyrir svo lágt verð, sem kostur er á. Jeg býst ekki við, að þessi grundvallarregla alls kaupskapar verði upp hafin á þessu ári, eða á nokkru ári. En af því sprettur þessi sjerplægnisandi, að hver maður reynir í vöruskiftum að fara það sem hann kemst með heiðarlegu móti. Og jeg býst ekki við öðru, en að sá sjerplægnisandi, muni lengst ríkja í viðskiftum manna.

Þá mintist hv. framsm. (S. St.) á kostnaðaratriðið og sagði, að það væri ekkert aðalatriði fyrir sjer, hver ætti að borga kostnaðinn við þessar nefndir. Jeg trúi því vel, að frá hans sjónarmiði sje þetta ekkert aðalatriði. En fyrst svona langt er komið, að hv. nefnd viðurkennir, að kostnaðaratriðið sje ekkert aðalatriði, og fyrst sýnt hefir verið fram á með rökum, að það fyrirkomulag, sem nefndin vill koma á, verði ekki á neinn hátt betra í framkvæmdinni, heldur öllu lakara, en það sem er, þá finst mjer, að nefndin ætti að taka sporið alveg út og taka frv. aftur.

Háttv. þm. S. Þ. (P. J.) mun hafa látið orð falla í þá átt, að verðlagsnefnd, sem skipuð er eftir tillögum hreppsnefndar eða bæjarstjórnar, gæti lagt á verð, sem gilti fyrir utan þann hrepp eða bæ, sem hún væri skipuð fyrir. Jeg get ekki sjeð, að þetta felist í frv. Mjer finst, að menn hljóti öllu heldur að skilja frv. þannig, að valdsvið verðlagsnefndarinnar nái ekki út fyrir þann kaupstað, eða þann hrepp, sem hefir lagt til, að hún yrði skipuð. Mjer finst, að ef nefndin ætti að ákveða verðlag á vörum á öðrum stöðum, þá gæti sú bæjar- eða sveitarstjórn, sem þar ræður yfir, talið farið inn á sitt valdsvið, þar sem hún átti engar tillögur um skipun nefndarinnar. Það yrði tæpast talið rjettlátt. Ef það er tilætlunin með lögunum, að verðlagsnefndir geti ákveðið verðlag annarsstaðar en í sinni sveit, eða sínum bæ, þá yrði það að minsta kosti að vera skýrt tekið fram í frv. En frv. gefur alls ekkert tilefni til, að það verði skilið á þann hátt, sem hv. þm. S. Þ. (P. J.) gaf í skyn, og virtist telja frv. til bóta.