26.04.1918
Efri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1702)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Flm. (Sigurjón Friðjónsson):

Ástæðurnar fyrir frv. þessu eru allítarlega teknar fram í greinargerð þess, og tel jeg ekki ástæðu til þess að taka þær upp aftur í ræðuformi.

Þó vil jeg fara um málið nokkrum orðum. Fyrst vil jeg geta þess, að prentvilla hefur slæðst inn í greinargerðina. Þar segir svo á einum stað, að verð á smjöri landsverslunarinnar mundi að líkindum hafa áhrif til hækkunar á því smjörverði o. s. frv., en á auðvitað að vera til lækkunar.

Þá vil jeg geta þess, að aðalástæðan til þess, að jeg kom fram með frv. þetta, er sú, að jeg er mótfallinn frv. um fráfærur ásauðar, en leit þó svo á, að ekki væri sæmandi að fella það mál niður með öllu, án þess nokkuð kæmi í staðinn.

Nú er það vitanlegt, að aðalhvötin fyrir framleiðendur til að færa frá er sú, að þeim sje trygt nægilega hátt verð fyrir afurðir sínar. Og það var ætlun mín, að þetta frv. gæti orðið til þess.

Með slíkum lögum væru stjórninni fengnar í hendur nokkurskonar metaskálar, þar sem á væri feitmetiseklan á annari skálinni og framleiðslan á hinni. Þegar svo feitmetiseklan yrði of þung á metunum, yrði að bæta þunga á hina skálina, þ. e. hækkuðu smjörverði, sem gæfi hvöt til að auka framleiðsluna, uns jafnvægi næðist.

En frv. þetta þarf þó ekki að útiloka hitt frv., um fráfærur, því að þótt nóg yrði feitmeti, gæti frv. þetta orðið til þess að greiða úr viðskiftunum og laga ýmsar misfellur á smjörverðinu.

Jeg hefi heyrt, að smjörverðið, sem til er tekið í frv., muni þykja helst til lágt. En jeg lít svo á, að rjett sje að hafa ákvæðisverðið frekar of lágt en of hátt í fyrstu, því að hægra mun reynast að færa það upp en niður.

Og reynslan hefir sýnt það, að mörgum hefir reynst örðugt að kaupa við ákvæðisverði vörur sínar, og margt hefir það komið fram í viðskiftum manna, sem minnir á gömlu setninguna: „Á jeg að gæta bróður míns?“

Jeg sá hjer í gær erindi Bjarna Jónssonar frá Vogi, „Um annað líf“. — Jeg nefni hann hjer með nafni, því að jeg tala ekki um hann sem þm., heldur sem rithöfund. — Þetta „annað líf“, sem hann talar þar um, er lífið í listunum, og hefi jeg ekkert út á þau ummæli hans að setja. En jeg veit, að til er enn annað líf, lífið í samkendunum og viljanum til þess að bæta úr kjörum þeirra, sem bágt eiga. Að vísu geta allir með fullum rjetti sagt sem svo: „Við þurfum að fá svo mikið fyrir vörur okkar, að við getum framfleytt okkur sjálfum og skylduliði okkar“. En þess ber þó að gæta, að ekki má ganga of langt í þeim sökum, svo að ekki þurfi að spyrja: „Hvað er orðið af bróður þínum?“

Sumir vilja hafa alla verslun frjálsa, aðrir vilja leggja á hana nokkra fjötra, sumir allharða. Mín skoðun liggur þess á milli. Jeg vil hafa verslunina sem mest frjálsa, en þó hömlur nokkrar stundum, þar sem þörf krefur. Og hömlur þær, sem hjer í frv. eru lagðar á feitmetisverslun landsins, vona jeg að reynist teygjanlegar og ekki ómjúkar, en harðni þó þegar á reynir, líkt og fjöturinn forni, sem gerður var af dyn kattarins, skeggi konunnar og af rótum bjargsins o. fl. Því að hjer er líka verið að leggja haft á úlf, þar sem er eigingirni annara, svo að hún fái ekki að leika lausum hala.

Jeg vil svo gera það að till. minni, að máli þessu verði vísað til bjargráðanefndar, að umr. lokinni.