26.04.1918
Efri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (1704)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Flutnm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg vil taka það fyrst fram, viðvíkjandi smjörverði því, sem ákveðið er í frv., að það er ekki ákveðið svo, sem þar er gert, vegna þess, að vjer Norðlendingar sjáum ofsjónum yfir verði því, er búandmenn hjer á Suðurlandi fá fyrir smjör sitt, heldur vegna þess, að jeg leit svo á, og lít svo á, að hjer sje um sanngjarnt verð að ræða. Að þetta sje rjett sjest að nokkru á smjörverðinu fyrir norðan og að nokkru leyti á því, hvað smjörframleiðendur á Suðurlandi vildu fá fyrir smjör sitt í fyrra. Í fyrra var sett hámarksverð á smjör; hámarksverðið var 1 kr. 80 au. til framleiðendanna, en þeim þótti það of lágt, en sögðust vera ánægðir með 2 kr. til 2 kr. 25 au. fyrir pundið. Þeir geta því ekki verið óánægðir með það verð, sem hjer er ákveðið, auk þess sem þeir búa að miklu betri smjörmarkaði og mundu altaf geta fengið undanþágu þá, er frv. gerir ráð fyrir, og selt smjör sitt fyrir útsöluverð.

En við hvað á að miða smjörverðið? Á að miða það við aðrar sauðfjárafurðir, og þá fyrst og fremst sláturafurðir? Sumir vilja miða það við verð aðfluttra vara, t. d. matvara, og þeir hafa nokkuð til síns máls. En jeg held, að í þessu sje rjettast að miða verðið við sjávarafurðir, t. d. fisk.

Smjörinu er ekki ætlað út úr landinu; það eru kaupstaðarbúar og sjávarþorpsbúar, sem fyrst og fremst eiga að fá það, og sú vara, sem þeir geta boðið landbændum fyrir smjörið, er fiskur. Það er gamalt mál, að 1 pd. af smjöri jafngildi 1 lýsipund af fiski, og jeg held, að verðhlutföll þeirra verði svipuð eftir frv.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) virtist vilja halda því fram, að smjörverðið þyrfti að vera hærra hjer á Suðurlandi en á Norðurlandi, en þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það sjest best á því, að þegar rjómabúsöldin var sem mest hjer á landi, þá gáfu rjómabúin á Suðurlandi góðan hagnað, en rjómabúin á Norðurlandi gátu varla borið sig. Þá vildi hann og líta svo á, sem frv. gerði ráð fyrir mörgum milliliðum. Eigi get jeg fallist á það; frv. gerir að eins ráð fyrir einum millilið, landsversluninni; hitt eru verkamenn hennar.

Þó gerði sami hv. þm. (E.P.) ráð fyrir því, að ef frv. þetta næði óbreytt fram að ganga, þá þyrfti landssjóður að eiga hús í hverju kauptúni til smjörgeymslu og að eyða miklu fje til að safna því saman. Allir sjá, að þetta eru öfgar einar, og þetta nær engri átt. Landssjóður fær leigt handa smjörinu þar sem þess þarf, og umboðsmennirnir segja til, hvar smjör sje ósent. Kostnaður þessi er því mjög lítill.

Rjettast tel jeg að vísa þessu máli til bjargráðanefndar; hún á fyrst og fremst, eins nú hagar, að reyna að stuðla að því, að framleiðsla landsmanna aukist, og nægir þar að benda á sjávarútveginn; því á frv. þetta þangað fara, en eigi til landbúnaðarnefndar.