22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (1744)

56. mál, fólksráðningar

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal láta þess getið strax, að jeg hefi ekki haft tíma til að bera mig saman við hina aðra ráðh. um mál þetta. Það, sem jeg segi, verður því að eins mín eigin skoðun.

Jeg get tekið undir með þeim hv. þm. Snæf. (H. St.) og hv. 2. þm. G. K. (K. D.), að jeg sje mjer ekki fært að vera með frv. þessu, eins og það nú liggur fyrir. En hitt get jeg vel ímyndað mjer, að ef settar yrðu á stofn frjálsar fólksráðningaskrifstofur, þá kæmu þær að góðu haldi. Get jeg þar vísað til reynslunnar. Hjer í Reykjavík var atvinnuskrifstofa í vetur, til þess að velja úr þá, sem erfiðast áttu, og veita þeim atvinnu, og ávanst talsvert í því að útvega slíkum mönnum atvinnu.

Annars mun jeg greiða atkv. með frv. til 3. umr., en ekki með því, að það fari óbreytt út úr deildinni.