22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (1745)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg verð að svara örfáum orðum því, sem nú hefir fram komið. Er það aðallega viðvíkjandi ráðstöfunarvaldi stjórnarinnar og nauðsung þeirri, sem henni mun vera samfara.

Um ráðstöfunarvald þetta hefi jeg það að segja, að jeg tel það frekar of lítið en of mikið, þar sem það er bundið samþykki sveitarstjórna, en það er öllum kunnugt, að þær eru ófúsar á að taka í sveitina fólk, sem vandræði kynnu að stafa af, og er því engin hætta á, að slíkar ráðstafanir yrðu gerðar nema þegar nauðsyn krefði.

Þá er annað, sem fundið hefir verið að, það, að sveitarstjórnir skuli eiga að vera milliliður milli skrifstofunnar og einstaklinga; þykir sumum það muni vera haganlegra, að hver einstaklingur geti snúið sjer til skrifstofunnar milliliðalaust. En það er heldur engum meinað eftir frv.

En þegar svo stendur á, að margir leita á náðir skrifstofunnar úr einni sveit, virðist mjer auðsætt, að betra sje fyrir skrifstofuna að geta snúið sjer til eins manns fyrir sveitina en til hvers einstaklings. Slíkt fyrirkomulag verður því einfaldara, en ekki flóknara.

Þá er læknisskoðunin. Hv. þm. Snæf. (H. St.) spurði, hvað ætti að gera við fólk það, sem haldið er næmum sjúkdómi. Eftir frv. verður ekkert við það gert; því verður ekki ráðstafað af landsstjórninni í víst.

Jeg get ekki komist að annari niðurstöðu, hvernig sem jeg hugsa um mál

þetta, en að það muni að minsta kosti á engan hátt verða til hins verra. Gagnið kann að verða minna en til er ætlast, en þó er það trú mín, að það muni ljetta nokkuð undir með að ráðstafa fólki því, sem atvinnulaust er og í bjargarvandræðum.