24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (1752)

56. mál, fólksráðningar

Magnús Kristjánsson:

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) var að kvarta undan því, að því hefði verið dróttað að honum við 1. umr. málsins, að hann mundi hafa talið sjer gefast tækifæri til að gera hvell út af frv. þessu. Hafi þeim kvörtunum verið beint til mín, þá get jeg lýst því yfir, að jeg hefi ekki breytt þeirri skoðun minni. Framkoma hans þá benti til þess; því fruntalegri árás á eina af nefndum þingsins hefi jeg ekki vitað á öllum þeim þingum, sem jeg hefi setið.

En hvort sú aðferð hv. sama þm. (M. T.), að tala nú um málið með hógværð og stillingu, stafar af því, að prúðmenska hans er vöknuð, eða hann hefir nú komið auga á það, að stefna frv. er heppileg, undir þeim sjerstöku kringumstæðum, sem nú eru, það skal jeg ekki um segja. En eins og stendur í 8. gr. frv., þá er til þess ætlast, að þetta sjeu bráðabirgðaráðstafanir, sem gildi meðan stríðið stendur yfir.

En að hjer sje kollvarpað öllu núverandi sveitarstjórnarfyrirkomulagi, nær engri átt, þar sem framkvæmdirnar skulu bornar undir sveitarstjórnir. Jeg get ekki hugsað mjer það, að landsstjórn og sveitarstjórnir leggist á eitt með að misþyrma gildandi löggjöf. Það virðist frekar ástæða til að halda, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) vilji halda sem fastast við gamla fyrirkomulagið, að hvenær sem einhver er í nauðir kominn, sje ekki um aðrar leiðir fyrir hann að ræða en hlaupa til sveitar.

En stefna frv. er sú, að koma í veg fyrir það og forða því, að sveitarþyngslin aukist. Að hv. þm. Ísaf. (M. T.) sje svo misvitur, að hann skilji þetta ekki, því trúi jeg ekki fyr en jeg tek á.

Nú gæti staðið svo á, að harðæri sje í ýmsum hlutum landsins, en á öðrum stöðum greiðari aðgangur til aflafanga og rekstrar ýmissa fyrirtækja. Mundi þá ekki koma sjer vel, að landsstjórnin gæti haft hönd í bagga með að ráðstafa fólkinu frá þeim stöðum, sem atvinnuleysið er, og þangað, sem atvinnu er að fá?

Og jeg vil beina þeirri spurningu til hv. 1. þm. Rang. (E. P.) hvort ekki mundi heppilegt, ef ísalög og harðæri ylli atvinnuteppu á Vestur-, Norður- og Austurlandi, en góðæri væru á Suðurlandi, að geta notað vinnukraftinn til stórfyrirtækja, svo sem vatnsveitanna, sem þar eru á döfinni.

En hjer er ekki um neina nauðungarflutninga að ræða, eins og hver maður, sem læs er, hlýtur að sjá af frv. Að eins er ætlast til, að greitt verði fyrir atvinnuviðskiftum í landinu, svo að vinnukraftur fari ekki til ónýtis.

Jeg þarf ekki að fara nákvæmlega út í efni frv.; um það er svo margt búið að segja. En hins vil jeg geta, að verði frv. nú, af óskiljanlegum ástæðum, felt hjer við 3. umr., þá þykist jeg sannfærður um, að þess verði ekki langt að bíða, að það komi fram aftur, ef ástæður þær, sem nú eru, haldast, og gæti jeg þá hugsað mjer, að hv. þm. yrðu komnir í skilning um, hvert stefnt er með því.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) vildi láta frv. bíða til næsta þings. Jeg er því algerlega mótfallinn. Jeg lít svo á, að ef tími er til að afgreiða þjóðþrifamál, þá eigi ekki að slá þeim á frest. (M. T.: Nefndi hv. þm. frv. þetta þjóðþrifamál?).

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, en hygg, að ef ófriðurinn helst, þá muni hv. þm. Ísaf. (M. T.) og öðrum skiljast það, að betra væri að samþ. frv. þetta.