10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (1778)

56. mál, fólksráðningar

Pjetur Jónsson:

Bjargráðanefndir beggja deilda hafa athugað, hvort ráðlegt muni að leggja út í það, áð setja fólk niður í vistir, án þess að hafa til þess samþykki eða vilja þeirra, sem hlut eiga að máli. Þessu hafa nefndirnar velt fyrir sjer, en hvorug þorað að leggja til, að í það sje ráðist. Það grundvallaratriði í brtt. hv. þm. Dala. (B. J.) getur bjargráðanefnd því eigi aðhylst. Þar að auki er það stefnan í þessum brtt. að leggja þetta vandræðamál, að mestu eða öllu leyti, á herðar stjórnarinnar. En nefndin litur svo á, að eins og landsháttum og staðháttum er hjer varið, og eins og hugsunarháttur þjóðarinnar er nú, þá mundi það ofvaxið hverri landsstjórn sem er að skipa fólkinu niður, eftir því sem henni sýnist þörf á og notadrýgst gæti orðið. Nefndin hefir því fallist á að leggja til, að einkum verði byrjað að neðan með þessar ráðstafanir, að sveitar- og bæjarstjórnir ráðstafi fólkinu meðan þær geta, en landsstjórnin taki þar við, sem þær geta ekki að gert, svo sem þörf er á.

Það mætti auðvitað taka til athugunar, hvort ekki væri rjett að láta stjórnina hafa í hendi meira vald en nefndin leggur til. Aðalatriðið er það, að byrjað sje að neðan, alveg eins og viðfangsefnið byrjar neðan að, því atvinnuleysið kemur fyrst í ljós í bæjar- og sveitarfjelögunum og kemur fyrst og fremst niður á þeim.

Viðvíkjandi því, að skifta fólkinu niður á atvinnuvegina, þá er að nokkru leyti gert ráð fyrir því í brtt. nefndarinnar, þar sem landsstjórninni er heimilað að skipa fyrir um flutning á atvinnulausu fólki þangað, sem atvinnu er að fá. Með því er gert ráð fyrir, að hægt verði að taka fólk frá einum atvinnuveginum, sem of margir stunda, og leggja til öðrum, sem getur notað fleira fólk.

Mjer skildist á hæstv. forsætisráðherra, að hann ætlaðist ekki einungis til, að hægt væri að skipa atvinnulausu fólki að atvinnu, heldur mætti einnig taka fólk frá einni atvinnu, t. d. síldarvinnu, og skipa því aðra, t. d. heyskap. — Ef taka á fólk frá síldarvinnunni og senda það upp í sveit til heyskapar, þá þarf til þess alveg ný ákvæði. Ef yfir höfuð að tala ætti að heimila að taka fólk frá einni atvinnu og skipa því aðra, þá er það utan við þann ramma, sem þetta frv. hefir haft.