14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (1805)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Framsm. (Einar Árnason):

Hv. þm. N.-p. (B. Sv.) rjeðst allhart gegn þessu frv. Tók hann til samanburðar verkun á saltfiski og þurkun á kjöti. En sá samanburður var algerlega rangur. Þurkaður saltfiskur hefir fastan markað, sem er jafnvís, ef fiskurinn er jafngóður, hver aðferð sem höfð er við verkunina. En hjer er að ræða um vöru, sem á engan markað vísan og ómögulegt er að geta sjer til hverja framtíð á. Sama máli er að gegna um lýsið. Það hafði sinn fasta markað, og var því ekki undir högg að sækja með hann.

Hv. þm. (B. Sv.) kvað óvíst, að þessi aðferð væri annað en hjegómi. Auðvitað veit hann ekkert um málið, og því get jeg sagt honum það, að gerðar hafa verið tilraunir að þurka kjöt með þessari aðferð, og látið vel yfir árangrinum.

Þá taldi hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) þetta mundu leggja hömlur á íslenska framleiðslu. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta sje rjett á litið. Þessi aðferð gæti alls ekki felt verðið á íslensku kjöti. Því að vitanlega yrðu þeir, sem fyrirtækið rækju, að kaupa kjötið því verði, sem fyrir það fengist á öðrum markaði. Og þrátt fyrir þetta einkaleyfi eru allar leiðir opnar fyrir framleiðendur að flytja út kjöt, bæði saltað og kælt. Það gæti því aldrei dregið úr framleiðslunni.

Hv. þm. (B. Sv.) kvað hjer ekkert að vinna, en miklu að tapa. Það get jeg ekki skilið. Fari svo, að þessi aðferð reynist arðvænleg, þá er hjer mikið að vinna fyrir landbúnaðinn íslenska. En reynist fyrirtækið ótímabært, þá er það ekki landið, heldur einkaleyfishafarnir, sem mest eiga á hættunni. Hvað sem því líður dómum hv. þm. (B. Sv.) um þetta, þá er það reynslan ein, sem hjer sker úr.

Þá gat hv. þm. (B. Sv.) þess, að eftir frv. yrði ekki lagt annað eða meira gjald á þurkað kjöt, sem út er flutt, en 10 kr. á hverja smálest. Getur verið, að menn greini á um, hvernig á að skilja þetta ákvæði. Jeg lít svo á, að engin önnur sjerstök gjöld en þetta eigi að leggja á kjötið, en stimpilgjald eigi að sjálfsögðu að koma niður á þessari vöru sem annari. Þyki mönnum óljóst til orða tekið, má vitanlega lagfæra það. Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) þótti það galli á frv., að einkaleyfið væri ekki veitt til þess að nota viss, ákveðin áhöld. En til þess er því að svara, að í raun og veru kæmi það ekki þeim að gagni, sem rækju fyrirtækið, þótt þeim yrði veitt slíkt einkaleyfi. Það þyrfti ekki annað en að einn eða annar kæmist á snoðir um, hvernig vjelarnar væru. Hann gæti þá komið á stofn þurkunarhúsi með vjelum, er væru lítið eitt frábrugðnar, og eyðilagt með því hitt fyrirtækið. Því að þegar ísinn er brotinn og markaður skapaður, myndi sá, sem á eftir kæmi, geta boðið vöruna lægra verði.

Þá þótti hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) ekki gott samræmi milli 1. og 5. gr. frv. Getur verið, að rjett sje að kveða skýrara að orði í 5. gr. Sje jeg ekkert því til fyrirstöðu að breyta 5. gr. á þá leið, að orðið „einkaleyfishafi“ verði felt í burtu, og orðaröðinni breytt þannig: „þegar 5 ár eru liðin eða meira frá því, að tekið var að flytja út .... “ o. s. frv. Þá getur 5 ára tímatakmarkið komið að fullum notum.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að landbúnaðarnefndin hefði látið snúa á sig í máli þessu. Jeg skil ekki, við hvað hv. þm. á með þessu. Það mætti segja jafnrjettilega, að alt þingið hefði þá látið snúa á sig. Málið gekk sem sje í gegnum þessa deild á síðasta þingi, og nú kemur það frá hv. Ed. Jeg vona því, að þetta frv. nái fram að ganga hjer í deildinni, eins og síðast. Það er ekki óaðgengilegra en það frv., er þá var samþykt, nema síður sje, þar sem einkaleyfistíminn hefir verið styttur um 5 ár.