04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

108. mál, húsaleiga í Reykjavík

Flm. (Guðjón Guðlaugsson):

Álestrarsalnum hafa legið frammi skjöl um mál þetta, og vona jeg, að hv. þm. hafi kynt sjer þau. Eru þar færðar gildar ástæður fyrir því, að núgildandi húsaleigulög sjeu hvergi hagkvæm, og síst af öllu sanngjörn, gagnvart eigna- og umráðarjetti húseigenda. Við höfum því tekið að okkur að flytja frv. þetta, svo að þessari hv. deild gefist kostur á að segja álit sitt um málið. Og við lítum svo á, að þessir 350 menn, sem skrifað hafa undir áskorunarskjalið, hafi góð og gild rök að færa fyrir sínu máli.

Vil jeg þar fyrst til nefna, hversu mjög er takmarkaður og skertur eignarjettur manna, og tel jeg það vafamál, hvort skerðing sú stríðir ekki á móti stjórnarskránni, þar sem svo er langt gengið, að umráð manna yfir sínum eigin húsum eru af þeim tekin og þeim jafnvel meinað að hýsa foreldra sína og nánustu vandamenn.

Það er síður en svo, að það geti talist heppilegt, ef húseigandi þarf á húsinu að halda til slíkra hluta, að honum sje þá meinað það. Sömuleiðis er það slæmt að geta ekki skift um leigjendur, ef illkvittnir og lítt þolandi menn eiga í hlut, sem engu tauti verður við komið. Þá er hætt við, að samkomulag alt fari forgörðum, og er þar með húsfriðnum hætta búin.

En allir munu játa það, að helgasti og dýrmætasti friðurinn er friðurinn á manns eigin heimili.

Það hefir verið talið til gildis lögum þessum, að þau kæmu því til leiðar, að fátæklingum væri skotið undir þak, og menn kæmust eigi áfram með það að halda húsum sínum auðum meðan aðrir lægju á götunni. Þetta er aðalatriðið, sem ekki má frá víkja, og er það heldur ekki gert í frv. þessu, þar sem einmitt það skilyrði er sett, að annar komi í staðinn, þá er einhver flytur.

Þetta verður því að eins hringrás og meiri færsla, og húsaleigunefndinni er það í lófa lagið að gæta þess, að meginregla þessi verði ekki brotin.

Mönnum er að eins ekki leyft það lengur að skáka með skömmum og óbótum í því hróksvaldi, að þeir geti setið bjargfastir, þar sem ekki sje hægt að segja þeim upp.

En hitt er víst, að margur mundi haga sjer betur, ef hann hefir þann vönd yfir sjer reiddan, að verða að hröklast á burt þá og þegar, og færi hann nú samt sem áður svo að ráði sínu, að hann yrði að fara, þá gæti það orðið til þess, að hann hagaði sjer betur á næsta leigustað. En þess ber og að gæta, að oft getur sökin verið hjá báðum, húseiganda og leigjanda, ef ósamkomulag er, því sjaldan veldur einn er tveir deila, en þá er því meiri hættan á, að þeir beiti hvor annan ýmsum hrekkjabrögðum, því ófrjálsara sem um er búið alla samninga.

Þá vil jeg geta þess, að frv. þetta er að miklu leyti tekið upp úr húsaleigulögunum; t. d. er 1. gr. frv. orðrjett 1. gr. laganna.

Þá er aðalefnið í 2. gr. það, að segja megi upp leigjendum með fyrirvara og með því móti, að annað fólk úr Reykjavík sje tekið í staðinn. Fólk ofan úr sveit má ekki taka til að fylla skarðið, því að það væri sama sem að það fólk, sem upp var sagt, væri rekið út á götuna.

Þetta er sú breytingin, sem mesta þýðingu hefir.

Og jeg get ekki ímyndað mjer, að nokkur sje svo blindaður, að hann sjái ekki, hvílíkt vorkunnarmál það hlýtur að vera hverjum rjetthugsandi manni, að geta ekki komið inn foreldrum sínum eða barni, en verða að sitja með leigjendur, sem ef til vill hafa alt á hornum sjer og spilla friði og ánægju heimilisins.

Það er, eins og kunnugt er, siðferðileg skylda hvers manns að sjá foreldrum sínum fyrir húsnæði, fæði og klæðum; þar er engin lagaundantekning.

En það er að vísu engin lagaskylda að sjá um börn sín, nema til 16 ára aldurs, en engum getur þó komið til hugar, að efnaður maður vilji ekki gjarnan verða til þess að skjóta skjólshúsi yfir börn sín og jafnvel systkini. Það er ekki nema fögur skyldurækni, sem margur hefir um hönd, án þess að beinn lagastafur heimti.

Það verður líka að teljast hart aðgöngu, ef maður þarf að auka húsrými sitt, vegna breyttrar atvinnu, að mega þá ekki taka þann hluta hússins, sem áður var öðrum leigður, til þess að geta haldið uppi atvinnunni.

En í því atriði verður samt að gæta allrar varúðar, svo menn geti ekki komist áfram með að segjast ætla að nota húsrýmið til slíkra hluta, en gera síðan alt annað við það.

En slíkt kemur auðvitað ekki fyrir um heiðarlegt og skikkanlegt fólk.

En við þessu er hjer sleginn sá varnagli, að útvega verði þeim leigjendum húsnæði, sem flytja verða burtu af þessum ástæðum.

Á hámarki leigu höfum við engar breytingar gert, og ýmsum reglum fyrir húsaleigu, sem finnast í upphaflega frv., sáum við okkur ekki fært að halda fram vegna þess, að það gripi um of inn á vald bæjarstjórnarinnar.

Við flm. hefðum helst óskað, að málið fengi fram að ganga nefndarlaust. Brtt. eru ekki margar; aðallega er það 2. gr. og auk þess ný 4. gr., til þess að vernda rjett leigutaka. En fari svo, að málið verði sett í nefnd, þá vonum við, að hún hraði því sem mest, því það hefir núorðið svo stuttan tíma fyrir sjer, að annaðhvort verður að hrökkva eða stökkva, annaðhvort samþykkja eða fella frv.