04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (1822)

108. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Þess hefði mátt vænta, að hæstv. atvinnumálaráðherra hefði látið bíða að taka afstöðu til þessa máls, a. m. k. þangað til það kæmi úr nefnd, en sú hefir nú ekki orðið raunin á, þar sem hann er þegar búinn að fella sinn dóm yfir frv. Hitt er annað mál, hve sá dómur er á góðum rökum bygður, og bersýnilegt er, að hæstv. atvinnumálaráðh. hefir verið of fljótur á sjer og ekki kynt sjer alla málavöxtu sem skyldi..

Jeg var altaf á móti húsaleigulögunum, eins og þingið afgreiddi þau, og bar fram brtt. við lögin í fyrra, sem, hefðu þær verið samþ., — mundu hafa fyrirbygt þá óánægju, sem nú er komin á daginn. Nú hefir líka sumum þm. snúist hugur frá í fyrra, og þeir farnir að sjá betur en áður vansmíðin, sem voru á frv. Nefni jeg þar til hv. 2. þm. G.-K. (K. D.).

Jeg tel það yfirskynsástæðu hjá þeim, sem segjast vera að verja lögin vegna leigjendanna, því mjög margt í frv. miðar eingöngu í þá átt, að tryggja rjett leigjendanna, t. d. 4. gr. frv. Einasta ástæðan á móti málinu, sem takandi er gild, er sú, að það sje of seint komið fram, og það skal jeg líka játa. En við því var ekki hægt að gera; það var nú ekki tilbúið fyr. En frv. getur vel orðið að lögum fyrir þessari ástæðu, og að stinga því undir stól nú yrði að eins til þess, að það risi upp á ný á næsta þingi.

Það verður ekki um það deilt, að það er hægt að gera sjálfum húseigendum vistina algerlega ómögulega í sínum eigin húsum, og að þetta hefir verið gert af leigjendum hjer í bæ. Lögin gefa leigjendum líka blátt áfram undir fótinn með það, að þeir þurfi ekki að gæta neinnar sjerstakrar varúðar, siðsemi eða nærgætni gagnvart húseigendum. Reynslan hefir líka orðið eftir þessu og lögin orðið til stórtjóns, ekki að eins fyrir húseigendur sjálfa, heldur líka fyrir leigjendur, með því að spilla hugsunarhætti þeirra og ala upp í þeim stráksskap, — sumum hverjum.

Jeg þykist því sannfærður um, að málið verði samþ. við þessa umr., en verði því vísað til nefndar, þá væri æskilegt, að hún athugaði, hvort ekki mætti ganga lengra en gert er í frv. til þess að verja húseigendur ágangi. T. d. hafa einstakir menn bygt hjer stórhýsi, og ættu lögin að ganga í þá átt, að nota mætti eitthvað af því plássi fyrir leigj— endur, heldur en að neyða upp á menn, sem eiga yfir litlum húsakynnum að ráða, að veita fjölskyldum húsnæði um aldur og æfi, — fjölskyldum, sem menn hafa e. t. v. af vorkunnsemi tekið inn í hús sín. Því lögin hafa frá upphafi verið til þess að íþyngja þeim mönnum, sem hafa af hjálpsemi tekið leigjendur í hús sín, og opna óhlutvöndum mönnum tækifæri til að troða húseigendur um tær.