30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (1848)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Frsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Því miður hefir landbúnaðarnefndin ekki getað fylgst að í þessu máli eða orðið samferða um till. En í sjálfu sjer ber nú ekki mikið á milli, þegar litið er á bæði nefndarálitin og ástæðurnar, sem þar eru fram bornar af beggja hálfu. — Nefndarálitin eru á þgskj. 29 og 33.

Í áliti meiri hl. nefndarinnar, á þgskj. 29, eru færðar fram helstu ástæðurnar fyrir því, hvers vegna ekki eigi að selja Gaulverjabæ. — Minni hl. hefir í áliti sínu, á þgskj. 33, reynt að hrekja þessar ástæður meiri hl., en það hefir ekki tekist nema í meðallagi.

Meðal annars segir minni hl., að það sje fjarstæða, „að ekki megi selja jörð úr opinberri eign, þótt hún geti talist góð bújörð.“ En þetta er vitanlega þveröfugt. Það er fjarstæðan og vitleysan að selja góðu bújarðirnar úr eign þess opinbera. þær jarðir ætti, hvað sem öðru líður, alls ekki að selja.

Þá telur hv. minni hl. nefndarinnar, að það sje þessu máli alveg óviðkomandi, þó að lögin um áveitu á Flóann geri ráð fyrir, að landssjóður geti eignast jarðir á áveitusvæðinu. Þetta hlýtur að vera bygt á misskilningi hjá hinum hv. minni hl., því að það kemur einmitt mjög við þessu máli, hvað lögin segja um þetta atriði, vegna þess að Gaulverjabær er á áveitusvæðinu, enda fer það beinlínis í bága við anda laganna að selja opinberar eignir á þessu svæði til einstakra manna. Árangri áveitunnar og búskapnum á áveitusvæðinu, þegar hún er komin á, mundi miklu betur borgið, ef landssjóður ætti þar jarðir, heldur en hitt, að eiga það á hættu, að svo og svo margar jarðir lentu í höndunum á jarðabröskurum.

Hjer er einnig á það að líta, að ákveðið er í Flóaáveitulögunum, að landssjóður leggi fram hluta kostnaðarins. Það eitt út af fyrir sig mælir mjög á móti því, að jörðin sje seld nú, einmitt þegar liggur við borð, að ráðist sje í þetta fyrirtæki. Og þó að sumir hjartveikir menn telji jafnvel þetta fyrirtæki ótryggilegt, þá virðist þó, að eftirspurn eftir jörðum í Flóanum, og hið háa verð, sem á þeim er, bendi á annað, að bendi í gagnstæða átt, og er það fyrir mörgum vottur þess, að menn hafi álit á fyrirtækinu.

Jeg hefi heyrt því haldið fram af sumum, að þessi eftirspurn eftir jörðum í Flóanum ætti rót sína að rekja til jarðabraskaranna, sem sitja um að ná í hverja jörð sem losnar. En þá tekur ekki betra við, og er þetta einmitt ein af ástæðum meiri hl. nefndarinnar til þess, að hún vill ekki selja þessa jörð, að hætta er á því, að hún geti lent hjá jarðabröskurum. Og þessu neitar hv. minni hl. ekki. En hann álítur, að óttinn fyrir því eigi ekki að aftra því, að jörðin verði seld. — „Mikið vinnur þú til fyrir Höskuld, elskan góð,“ sagði bóndinn. Eins segi jeg um hinn hv. minni hl. Hann kveðst ekki geta verið með till., og vill þar af leiðandi, að jörðin sje seld, þrátt fyrir það, þótt gera megi ráð fyrir því, að hún kunni þá, fyr eða síðar, að lenda í höndum jarðabraskara.

Í sambandi við sölu á Gaulverjabæ má benda á það, að ástæðurnar — fjórar alls — sem taldar voru mæla á móti sölu Ólafsvalla, gilda eins um Gaulverjabæ, allar nema hin fyrsta.

Gaulverjabær hefir komið til tals og álit sem skólasetur, eins og Ólafsvellir. Flóaáveitan og Miklavatnsáveitan nær til Gaulverjabæjar, alveg eins og Skeiðaáveitan nær til Ólafsvalla, og um skoðun sýslunefndar, að því er snertir sölu þessara tveggja jarða, má segja hið sama.

Þessar ástæður, sem jeg nú nefndi, gegn sölu Gaulverjabæjar, hefir hv. minni hl. undirskrifað og samþykt, að því er snertir Ólafsvelli. En hvernig stendur þá á ósamræminu, er virðist vera í skoðunum hans, að því er snertir Gaulverjabæ? Jeg skil það ekki.

Hjer er að vísu um einn formmismun að ræða, og hann er sá, að það er ábúandinn á Gaulverjarbæ, sem sækir um kaupin; annars er mismunurinn enginn. Það er því engu minni ástæða til að halda í Gaulverjarbæ en Ólafsvelli, eins og þegar hefir verið sýnt fram á og leidd rök að.

Yfir höfuð álít jeg og meiri hl. nefndarinnar, að ekki geti komið til mála að selja jarðir hins opinbera á áveitusvæðinu.

Annars skal jeg geta þess um Gaulverjabæ, að sú jörð er landnámsjörð, eftir því sem segir í Flóamannasögu. Og herra Jón biskup Helgason hefir frætt mig um það, að jörðin hafi verið í eign hins opinbera frá því um 1100, eða nú í rúm 800 ár. (Einar Arnórsson: Hvar stendur það skrifað?). Jeg inti hann ekki eftir heimildum, en hann sagðist hafa verið að leita eftir þessu, og ekki geta annað fundið en að hún hafi veri í eign hins opinbera síðan um 1103, enda má ætla, að máldagar jarðarinnar, eldri og yngri, sýni það og sanni.

Þetta, sem nú var talið, ásamt mörgu öðru, er í mínum augum næg ástæða til þess, að ekki megi selja jörðina, og jeg vil bæta því við, að það væri í rauninni ófyrirgefanlegt glappaskot, ef svo yrði.

Loks vil jeg minna á það, að þessi jörð hefir um margar aldir verið prestssetur. Með prestakallalögunum frá 1907 er Gaulverjabæjarprestakall að vísu lagt niður og því skift upp á milli, eða lagt til, annara prestakalla. En út af því reis þá megn óánægja, og á Alþingi 1909 var eftir beiðni manna í hinu gamla Gaulverjabæjarprestakalli farið fram á að gera það aftur að sjerstöku prestakalli. Þessi krafa getur komið fram á ný, þegar minst varir. Fjölgun býla og fólks á þessu svæði, þegar áveitan kemst á, gerir það ef til vill alveg nauðsynlegt, að Gaulverjabær verði sjerstakt prestakall aftur. Væri þá alveg ófyrirgefanlegt, ef búið væri að selja þessa jörð.

Till. um að Ólafsvelli skyldi ekki selja samþ. þessi hv. deild með 22:2 atkv., að viðhöfðu nafnakalli. Jeg læt mjer því ekki detta annað í hug en að þessi till. um Gaulverjabæ verði einnig samþykt, því að það á að vera báðum þessum jörðum jafnhátt undir höfði, og hvoruga þessa jörð á að selja eða má selja í framtíðinni.