30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (1849)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi að eins gera stutta athugasemd, af því að jeg verð að fara af fundi. Eiginlega þarf jeg ekki að segja mikið annað en það, sem jeg sagði, þegar verið var að ræða um sölu Ólafsvalla. Jeg álít nú eins og þá, að það sje alveg rangt af hinni hv. deild að fara inn á þá braut, að vera að taka eina og eina jörð út úr og vera að samþ. þingsál. um hana. Það er, held jeg, óheppilegt að taka upp á þessu, og það mun sýna sig, að þessi aðferð er ekki vel sæmandi fyrir þingið. Jeg held þess vegna, að það sje rjettast, að hin hv. deild vísi málinu til stjórnarinnar, hvernig svo sem hún fer með það. Auðvitað getur verið, að það hafi dálítið aðra þýðingu, vegna afstöðu deildarinnar til Ólafsvallamálsins, en það er samt ekki rjett af hv. deild að hlaupa svona upp, sjerstaklega þegar það er gert að beiðni einstaks manns, eins og gert var seinast í Ólafsvallamálinu.

Jeg álít, að það sje engin ástæða til fyrir stjórnina, að fara að gefa nokkra yfirlýsingu um þetta mál; hún svaraði þannig seinast, þegar um svona mál var að ræða, að þess er nú engin þörf.