06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (1872)

26. mál, úthlutun matvöru- og sykurseðla

Þorleifur Jónsson:

Mjer skilst, sem hv. bjargráðnefnd hafi fallist á .ástæður okkar flutningsmanna till. á þgskj. 32, um að nauðsyn geti verið á að liðka til um úthlutun vara þar, sem erfiðir aðdrættir eru. En svo hefir bjargráðanefnd fengið þær upplýsingar hjá landsversluninni, að stjórn landsverslunarinnar búist við að taka eins mikið tillit til þarfa allra og hægt sje, og að haft myndi tillit til erfiðrar afstöðu ýmissa bygðarlaga. Þar sem landsverslunin tekur svo vel í málið, hefir bjargráðanefnd ekki þótt ástæða til að halda tillögunni fram, og ber hún því fram þessa rökstuddu dagskrá, á þgskj. 50.

Jeg verð nú að segja fyrir mitt leyti, að með þessari yfirlýsingu forstjóra landsverslunarinnar tel jeg fengið mest af því, er fyrir okkur vakti, er við fluttum tillöguna. Tilgangur okkar var sem sje að vekja athygli stjórnarinnar á þessu máli og fá viðkomandi stjórnarvöld til að taka fult tillit til þessara atriða. Jeg ber það traust til landsverslunarstjórnarinnar, að hún leyfi útbýtingu á vörum til lengri tíma, þar sem hún sjer þess þörf og ástæður leyfa. Og jeg skil ekki annað en að hún sjái slíka þörf á þeim stöðum, sem sjerstaklega er minst á í till. Því ber ekki að neita, að svo er mjög ástatt í Skaftafellssýslunum, og sama er að segja um Fljótsdalshjerað ofan til.

Ef landsverslunin sjer sjer fært að liðka svo til, að vöruúthlutunin og aðdrættirnir komist í sæmilegt horf á þessum stöðum og annarsstaðar, þar sem líkt hagar til, þá get jeg horfið að því að samþykkja dagskrána, í því trausti, að þessu máli verði ekki slegið út í veður og vind. Vona jeg og, að landsstjórnin og stjórn landsverslunarinnar geri sitt ítrasta til að síðari lið till. verði framfylgt, þar sem þess er eigi hvað síst þörf að birgja þau hjeruð upp með vetrarforða að haustinu, sem ilt eiga aðstöðu, og þar sem aðflutningar geta hæglega tepst svo að segja allan veturinn.

Vona jeg, að þessar umr. og dagskráin verði til þess, að hafðar verði töluvert nánari gætur en áður á þeim atriðum, er till. átti um að fjalla. Sje jeg því ekkert á móti því, að dagskráin verði samþykt.