14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (1879)

46. mál, biðlaun handa Metúsalem Stefánssyni

Sveinn Ólafsson:

Jeg heyrði ekki niðurlagið á ræðu frsm. (J. J.), af því að jeg var kvaddur til viðtals, en ræðu hæstv. forsætisráðherra heyrði jeg. — þó að þessi maður, sem hjer er um rætt, sje alls góðs maklegur, þá álít jeg ekki rjett að samþykkja þingsál.till. þessa eins og hún er. Maðurinn hefir gott tækifæri til að afla sjer atvinnu, og það engu síður en margir aðrir. Forsætisráðh. benti á leið, sem er miklu viðfeldnari en biðlaunagreiðsla, og mæltist til við fjárhagsnefnd, hvort hún vildi ekki komast fyrir um það, hvort hann vildi ekki vera kennari við skólann næsta vetur. Jeg geri ráð fyrir, að Austfirðingum þætti fyrir, ef engin kensla yrði þar á komanda vetri, enda tæplega heimilt eftir bráðabirgðaákvæðum laganna frá síðasta þingi um Eiðaskóla að láta kenslu með öllu niður falla, en yrði kensla þar, þá gæti hann aðstoðað og haft þetta kaup. Jeg get ekki fallist á að greiða biðlaun þessi á annan veg.

Enginn skilji orð mín svo, að jeg vilji gera lítið úr verðleikum þessa manns. Og þótt jeg nú verði að álíta, að sú skylda, sem áður kynni að hafa hvílt á fyrri eiganda skólans, Múlasýslum, til að bæta honum atvinnumissi, sje nú komin landssjóði á hönd, sem eignast hefir stofnunina með gögnum og gæðum, þá er þess að gæta, að starfanum hefir verið sagt upp með tilskildum fyrirvara. En hjer er líka önnur ástæða, sem mælir móti biðlaunagreiðslu. Margir alþýðu- og barnakennarar hafa af dýrtíðarástæðum mist atvinnu að meira eða minna leyti, menn sem eiga engu minni sanngirniskröfu til bóta fyrir atvinnutjón, og sennilega mundu sæta færi og koma á eftir, þegar brúin væri bygð með veitingu þessara biðlauna.

Þessi maður stendur eflaust mörgum öðrum kennurum betur að vígi. Hann er, eins og jeg áður tók fram, fjölhæfur, bæði til andlegra og líkamlegra starfa, þektur og vel metinn og vissulega fær til að tryggja sjer sjálfur góða atvinnu.