22.05.1918
Neðri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (1896)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal ekki ræða um það atriði, hvort nægilegt eftirlit hafi verið með rekstri námunnar af hendi landsstjórnarinnar, nje heldur annað það, sem fundið hefir verið að rekstrarnámunnar. Til þess brestur mig kunnugleika. En jeg vildi víkja örfáum orðum að hinni almennu hlið málsins, hvort það sje rjettara að afla lífsnauðsynja innanlands, jafnvel þótt þær verði dýrar, eða treysta því, að við getum fengið alt, sem okkur vanhagar um, frá öðrum löndum.

Mjer hefir virst sú stefna ríkjandi á Alþingi að undanförnu, að heimta af stjórninni, að hún aflaði nauðsynja innanlands, nærri því hvað sem það kostaði. Og það þegar af þeirri ástæðu, að óvíst er, hvað við getum fengið að flutt frá útlöndum, á þessum tímum. Finst mjer því nú, sem slái í baksegl hjá hv. fjárhagsnefnd við það, sem deildin hefir viljað áður.

Jeg á bágt með að tala um málið, þar sem mjer er það ekki kunnugt. En þrátt fyrir alt og alt, þrátt fyrir allan kostnað, skilst mjer, að ekki muni hafa orðið svo mikill halli árekstri námunnar, sem menn ætla. Alls mun kostnaðurinn hafa verið um 220 þús. kr. Þar frá ætti að draga 40 þús. kr., er húsin og bryggjur hafa kostað, verði rekstrinum haldið áfram, og að minsta kosti 12 þús. kr. fyrir námuna, því að hún er þó einhvers virði. Auk þess ber að draga frá verkfæri og ýmislegt fleira, og hygg jeg, að þá verði eftir um kr. 150.000,00, sem er sá kostnaður, er sala á kolunum ætti að borga. Þetta er að vísu allmikil upphæð.

Jeg veit ekki með vissu, hve mikið hefir verið tekið upp af kolunum, en er reikningarnir voru gerðir upp, höfðu 1.500 smál. að minsta kosti verið teknar. Hvers virði eru nú þessi kol? Bresk kol hafa komist hæst, að því er jeg veit um nú, upp í 360 kr. tonnið, og í samanburði við það verð á þeim ætti smál. af íslensku kolunum að vera að minsta kosti 100 kr. virði. Eftir þessum mælikvarða yrði enginn skaði á rekstri námunnar, hefðu kolin verið seld á 100 kr. smál. Að kolin hafa verið seld lægra gerir, að landssjóður skaðast, en þjóðarskaði er það ekki.

Þá kemur að ásökunum hv. þm. Stranda. (M. P.), að kolin hafi verið seld of ódýr. Jeg skal ekki um það ræða, en að eins benda á, að landið hefir ekki tapað á þessum námurekstri, á móts við það að kaupa útlend kol.

Ef nú reikningur minn er rjettur, sem jeg hygg að hann sje, og það er einnig rjett, að íslensku kolin hafi hitagildi að þriðjungi á við útlend kol, og þegar þar við bætist, að alt þetta fje er kyrt í landinu, þá ætla jeg, að flestir muni komast að þeirri niðurstöðu, að sjálfsagt sje að halda rekstri námunnar áfram. Bæði í þessu máli og öðrum virðist mjer, að hv. þm. skilji ekki, að nú er alt öðru máli að gegna en á venjulegum tímum.

Stjórninni hefir verið álasað fyrir það, að hún hafi haft slælegt eftirlit með öllum rekstri námunnar, reikningsfærslu o. fl. Þetta atriði ætti að leiða til lykta á annan hátt en till. hv. fjárhagsnefndar fer fram á, ef önnur væri tilætlunin en að taka fyrir rekstur námunnar. Jeg verð að taka undir með hv. þm. Stranda. (M. P.) og segja, að till. er alt of loðin. Það er ekkert á henni byggjandi, því að hvað er hverfandi lítill halli og hvað ekki? Ef till. verður samþykt, væri rjettast að stjórnin segði: „Nú hættum við“, þar sem krafist er, að rekstrinum verði ekki haldið áfram nema hann borgi sig. Jeg vildi að eins benda á þessa hlið málsins.

Við vitum nú ekki, hvort við megum treysta því, að við munum fá nægilegt eldsneyti frá útlöndum. Ef svo er ekki, er þá nokkuð vit í því að girða fyrir, að við getum aflað innlends eldsneytis, eða að heimta, að enginn halli verði á námurekstrinum. Jeg vil leyfa mjer að benda á, að Færeyingar hafa reynt að vinna kol og stórsköðuðust á því. Nú halda þeir áfram, þrátt fyrir alla erfiðleika, þó að þeir fái erlendu kolin miklu ódýrari en við.

Það er oft svo, að atvinnufyrirtæki í stórum stíl bera sig ekki í byrjun, og það þótt þau geti borið sig, ef þau eru rekin í smáum stíl. T. d. má taka mótakið í Reykjavík.

Nú skilst mjer, að fyrirtækið sje talið komið undir stjórn hæfra og ábyggilegra manna, frá sjónarmiði nefndarinnar. En hvers vegna á þá að taka fyrir kverkar fyrirtækinu og heimta, að það hætti, ef það ber sig ekki þegar? Það er ekki gott að ábyrgjast, að jafnvel góð náma borgi sig, og yfirleitt er örðugt að vita fyrir, hvort námur hjer geti borgað sig beinlínis. En hjer er það svo mikið atriði, að fje það, sem gengur til að afla nauðsynja í landinu sjálfu, það fer ekki burt úr landinu.

Mjer þykir ekki rjett, meðan samningum við bandamenn er eigi enn lokið, að banna landsstjórninni að vinna kol, þótt ekki sje vist, að það borgi sig.

Það er rjett, sem hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að kolin hafi verið seld of ódýrt. En hitt er ekki alls kostar rjett, að stjórnina hafi brostið heimild til þess. Auðvitað varð að selja kolin ekki dýrari en það, að hægt væri að koma þeim út. Þegar stjórninni var leyft að láta vinna námuna, þá var og heimilað að selja kolin hæfilegu verði eftir atvikum. Heimildarleysi er því ekki til að dreifa. Hitt er aftur álitamál, hvort eigi hafi verið rjett að selja kolin dýrara.

Einnig fanst mjer hv. þm. Stranda. (M. P.) vera sanngjarnari er hv. frsm. (G. Sv.) að því leyti, að hann viðurkendi, að stjórnin hefði haft heimild til að reisa hús og kaupa sjálfa námuna; en úr því gerði hv. frsm (G. Sv.) mikið veður og áleit varla heimilt. En hitt verð jeg að telja of mikla kröfu hjá hv. þm. Stranda. (M. P.) og hv. frsm. (G. Sv.), að stjórnin hefði átt að hætta rekstri námunnar, er hún sá fram á það, að tekjuhalli myndi verða. Jeg tel þetta alveg fráleitt afstöðu hv. deildar til þessa máls á síðasta þingi. Deildin vissi þá, að byrjað var á námurekstri á Tjörnesi; hún vissi og, hvernig til fyrirtækisins var stofnað, og að stjórnin hafði í hyggju að reisa þarna hús og kaupa námuna. Og það var einmitt fyrir bein tilmæli stjórnarinnar, að sett var inn í tillöguna heimild til þessa.

Það var ekki hægt að skilja vilja bjargráðanefndar í fyrra á annan hátt en þann, að hún ætlaðist til, að unnið yrði bæði sumar og vetur. Það var þá ógerningur að segja fyrir, hvort reksturinn myndi borga sig, þar sem halda átti vinnunni áfram yfir veturinn. Voru því margar af ásökunum hv. frsm. (G. Sv.) ósanngjarnar.

Jeg vil drepa lauslega á nokkur önnur atriði í ræðu hv. þm. Stranda. (M. P.), af því að hæstv. atvinnumálaráðh. var ekki viðstaddur. Hv. þm. kvaðst hafa heyrt látið betur af kolunum úr Hringversnámunni en Tjörnesnámunni. Annað var að heyra á hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Hann, sem er þessu miklu kunnugri, sagði, að dómurinn um þetta væri alveg upp og ofan.

Ekki er rjett á litið hjá hv. þm. Stranda. (M. P.), að hæstv. atvinnumálaráðh. hafi verið að afsaka rekstur Tjörnesnámunnar með því, að bera hana saman við mótekjuna í Reykjavík. En hitt var eðlilegt, að hann bæri þessi tvö fyrirtæki saman, þar sem hjer er um að ræða mjög svipað fyrirtæki og um svipaða útkomu.

Hv. þm. Stranda (M. P. var hræddur um að tjón það, sem orðið hefir á rekstri námunnar, myndi fæla aðra frá því að leita eldsneytis á sama hátt — vestigia terrent —. Ekki er jeg svo hræddur um það, enda hefði reynslan, sem fengin er fyrir Stálfjallsnámunni, alveg eins átt að fæla Alþingi frá því að gera þessa tilraun. En ef gert er ráð fyrir því, að reynsla þessi fæli aðra menn frá samskonar fyrirtækjum, hvaða vit er þá í því að ætlast til, að stjórnin hvetji einstaka menn til þess að ráðast í það, sem henni hefir mishepnast, eins og till. á þgskj. 112 gerir? Mundi nú hvöt frá stjórninni, sem að dómi hv. nefndar hefir fengið svona reynslu í málinu, vera best fallin til að hvetja aðra? (G. Sv.: Þetta er stjórnarinnar reynsla). Já, það er stjórnin, sem hefir haft þessa reynslu, og á hún svo að fara að hvetja aðra? (G. Sv.: Vinna einstaklinganna borgar sig betur).

Svo sagði hv. þm. Stranda. (M. P.), að stjórnin hefði skemt fyrir öðrum með hinu háa kaupgjaldi, en hv. þm. (M. P.) hefir ekki athugað, að það er oft og einatt borgað hátt kaup við ýmsa vinnu, án þess að það á nokkurn hátt þurfi að spilla fyrir öðrum atvinnugreinum; t. d. er oft borgað meira en helmingi hærra kaup en venjulegt er við uppskipun og útskipun, án þess að það hafi bein áhrif á verkkaup alment, og mikla almenna þýðingu getur það ekki haft, þó að borgað sje hátt kaup í kolanámu, sem þykir einhver versta vinna; það getur því ekki haft skaðleg áhrif um land alt, þó að fáeinum mönnum hafi verið borgaðir 60—70 aurar um tímann. Svo er þess líka að gæta, að þeir voru ráðnir frá fjarlægum stöðum og heimta því hærra kaup heldur en þeir gætu búið við heima hjá sjer. En sem sagt, um eiginlega aðfinslu út af þessum rekstri dettur mjer ekki í hug að segja neitt, það gerir hæstv. atvinnumálaráðherra náttúrlega, en jeg ætla alment að benda hv. þm. á það, að hjer í þessari hv. deild virðist vera beinlínis stefnumunur í bjargráðaráðstöfun, miklu meira en aðfinslur við sjerstakar framkvæmdir. Jeg skal að eins leyfa mjer að nefna það í þessu sambandi, að svo virðist, sem talsvert mikið hafi verið um það rætt, hve fæðið hafi verið dýrt þar í námunni. Mjer hefir verið sagt frá því, að við vinnu á Vesturlandi, þar er líkt stóð á, hafi fæðiskostnaðurinn verið svipaður.

Að öðru leyti mun jeg ekki þreyta hv. þm. í þessu máli, en að eins geta þess, að það er aðalstefnan í till. þessari, sem mjer er illa við. Jeg vil ekki láta draga úr því, þó að það kunni að kosta nokkuð mikið í svipinn að afla sjer þeirra innlendra nauðsynja, sem hægt er, og vona jeg, að menn gefist ekki upp við þess konar tilraunir, þó að mönnum sýnist þær ekki takast vel í byrjun, og sjerstaklega vildi jeg óska þess, að hv. deild fyndi einhver ráð til þess að taka ekki gersamlega fyrir kolanámið á Tjörnesi; en ef hún vill setja eitthvað út á gerðir stjórnarinnar, þá að gera það út af fyrir sig, en alls ekki í sambandi við þetta mál, því að við það verður málið alt of óhreint, og það á heldur ekki við að vera að draga nauðsynjamál út í deilur, sem sumir telja óþarfar, þó að einstöku menn kunni kann ske að álíta, að þær sjeu þarfar.