23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (1907)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Benedikt Sveinsson:

Þetta mál hefir nú verið rætt rækilega frá ýmsum hliðum og skýrst að mörgu leyti ljósar en sjá má af skýrslu nefndarinnar á þgskj. 111. Því vitanlega var ekki hægt að segja alt, sem segja mátti, í einni skýrslu.

Jeg ætla að minnast dálítið á ábyrgð þingsins gagnvart þessu máli. Mjer finst að stjórnin sje helst til þunglega vítt fyrir að hafa tekist námureksturinn á hendur og haldið honum áfram. Hv. þm. N.-Ísaf. (S. St.) sagði að vísu, að áskorun þingsins um að afla kola, hafi verið sjálfsögð ráðstöfun og vítavert af þinginu, ef það hefði látið hana undir höfuð leggjast. Hjer mun hv. þm. hafa átt við áskorun þá, er fram kom á aukaþinginu 1916—17. Á sama máli virtist hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) vera. Hann kvað rekstur inn hafa verið að meira eða minna leyti á ábyrgð þingsins, alt fram á síðasta þing (1917). En jeg get ekki fallist á, að ábyrgð þingsins hafi verið þar með lokið. Því að í fyrra lagði þingið einmitt grundvöllinn undir rekstur Tjörnesnámunnar, þeirrar námunnar, sem talin var þá einhver arðvænlegasta kolanáman í landinu. Þar höfðu margir stundað kolanám áður með dágóðum árangri, einkum sumarið 1917, og ætluðu að halda kolanáminu áfram. En annarsstaðar hefði það gengið miklu ver, t. d. í Dufansdal.

Það var því í alla staði eðlilegt, að stjórnin ljet einmitt byrja kolanám á Tjörnesi, samkv. áskorun aukaþingsins, og er það viðurkent, að þessi byrjun sje af hvötum þingsins. — En hinu hafa ýmsir háttv. þingmenn neitað, að framhaldið sje á þingsins ábyrgð. Þetta þarf að leiðrjetta. Skal jeg nú minna á það, að bjargráðanefndir þingsins 1917 báru fram þingsályktunartillögu í báðum deildum, þar sem fastlega er skorað á stjórnina, að snúast sem öfluglegast að kolanámi. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta leyfa mjer að lesa upp úr þessari þingsál. frá bjargráðanefndum, er samþykt var í báðum deildum og loks í sameinuðu þingi (31. júlí 1917):

„Alþingi ályktar að skora á stjórnina að vinda sem bráðastan bug að innlendu kolanámi á þeim stöðum, sem menn finna hentugasta, svo að fylt verði eldiviðarþörf landsmanna, þótt engi erlend kol náist.

Jafnframt ályktar Alþingi, að heimila stjórninni fje úr landssjóði til nauðsynlegra framkvæmda í þessu máli, svo sem til verkfærakaupa, til torfbæja yfir verkamenn, til kaupa eða leigu á námunum.“

Eins og allir sjá, veitti þingið stjórninni þá brýning með tillögu þessari, að óverjandi hefði verið annað en verða við henni, jafnvel þótt stjórnin hefði verið orðin því afhuga áður. Og þann veg skildi líka stjórnin áskorun þessa í fyrra, eins og sjest af ummælum hæstvirts atvinnumálaráðherra þá, og þingtíðindin bera með sjer. — þingið krefst þess að stjórnin vindi sem bráðastan bug að því að afla innlendra kola, og það svo mjög, að nægi, þótt engin kol fáist frá útlöndum. Enn fremur er henni heimilað fje til torfbæjagerðar, verkfærakaupa o. fl. Af þessu er auðsætt, að ætlast hefir verið til, að námureksturinn stæði til langframa og yfir vetrartímann. Stjórnin hafði því ekki einungis heimild til þeirra ráðstafana, sem hún gerði, heldur beina áskorun og fyrirskipun Alþingis. Jeg fæ því eigi sjeð, að stjórnin hafi gert annað en það, sem var í fylsta samræmi við vilja þingsins, er hún ljet halda áfram kolanáminu í Tungulandi, með auknu mannafli, og byggja þar hús til vetrarvistar.

Þá hefir verið deilt um það, hvort rjett hafi verið af stjórninni að festa kaup á námunni. Heimild hafði hún til þess frá þinginu, og þegar gert var ráð fyrir, að kolanámið yrði rekið í stórum stíl, virtist auðsætt, að hagkvæmara væri að kaupa námuna heldur en greiða fyrir hverja smál., sem upp væri tekin, þar sem gjaldið var orðið hátt vegna vaxandi samkeppni um rjettindin.

Jeg skal ekki rekja nánar einstök atriði þessa máls, en tel vafalaust, að hjer sem annarsstaðar hefði margt mátt fara betur úr hendi um rekstur námunnnar. Hefir það komið hjer fram, sem oft vill við brenna á landi hjer, að námurekstur, sjerstaklega í stærri stíl, hefir ekki gengið sem æskilegast. Það hefir þegar sýnt sig, að kolanám í smáum stíl svarar oft kostnaði, en síður í stórum stíl. — Vafalaust hefði orðið ódýrara fyrir landssjóð að láta verkamennina fæða sig sjálfa. En á hinn bóginn mun þó of mikið gert úr fæðiskostnaðinum, því að þegar þess er gætt, að fæði hefir kostað um eina krónu á dag á venjulegum tímum, þá er alls ekki óeðlilegt, að fæðið kosti nú þrjár krónur. Jeg skal benda á það til samanburðar, að á botnvörpuskipunum íslensku hefir fæðið kostað jafnvel yfir 3 kr. Nú er skortur á ýmsum efnum, og margt dýrara þarna nyrðra, t. d. aðflutningar o. fl. En auðvitað má gera ráð fyrir, að verkamenn hefðu ekki verið eins heimtufrekir, ef þeir hefðu fætt sig sjálfir, og mundi sá háttur hagkvæmari. Jeg býst við, að nýi ráðsmaðurinn kippi þessu í lag. (Atvinnumálaráðh.: Það er þegar gert).

Hv. þm. Stranda. (M. P.) gerði talsvert úr því, að stjórnin hafi spilt fyrir kolanámi með þessu ráðlagi sínu; það mundi fæla aðra frá að reka þennan iðnað. En jeg get ekki fallist á þetta; því að menn hafa líka fyrir augum meiri fyrirmyndarnámurekstur, sem þeir geta miðað við. (M. P.: Til guðs lukku). En jeg skal samt láta ósagt, hvort reynsla annara námurekenda verður til þess að glæða áhuga manna á námurekstri. Náman í Dufansdal hefir að minsta kosti oft lagst niður, og hvert fjelagið af öðru gefist upp við að halda þar áfram kolanámi. Og um námuna í Stálfjalli er það sagt, að þar hafi orðið geysilegur tekjuhalli. Hún var rekin í stórum stíl, og áhöld nægileg, en þó er sagt, að hallinn hafi orðið þar öllu meiri en á Tjörnesi. Annarsstaðar hafa námur verið reknar í smáum stíl, t. d. í Bolungarvík, og þó ekki þótt svara kostnaði. En jeg álít, að þar sem þingið samþykti jafnríka áskorun til stjórnarinnar í fyrra um kolanám, þá hefði það verið óverjandi af stjórninni, ef hún hefði ekki haldið náminu áfram á þessum stað, nema hún hefði haft skilríki fyrir, að það borgar sig betur annarsstaðar. Hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að stjórnin hafi ekki gengið eins langt í því að afla kola og gert er ráð fyrir í till., því að hún hefði ekki getað fullnægt kolaþörf landsmanna. Hjer er hann þá að áfella stjórnina fyrir það, að hún hafi gert of lítið aðrir saka hana fyrir, að hún hafi látið vinna of mikið. En að krefjast þess, að stjórnin geri kolanámið að atvinnufyrirtæki, er alveg svari kostnaði, er ekki mikil sanngirni, eftir þeirri reynslu, sem á var að byggja. Hjer var ekki á vísan að róa. En till. þingsins í fyrra var fram sett sem öryggis- og dýrtíðarráðstöfun, en gerði ekki ráð fyrir, að settur yrði á stofn atvinnurekstur, sem víst væri að myndi borga sig.

Til samanburðar má benda á mótekjuna í Reykjavík. Aðstaða til mótekju hjer, er ólíkt betri en til kolanáms á útkjálka lands. Þar eru örðugleikamir miklir og hlutföll milli kostnaðar og uppskeru óvís. Aftur á móti er mótekja vel þekt á landi hjer. Þar er alt vitað fyrirfram, nema veðráttan; því að henni er mótekjan allmjög háð.

Nú rjeðst bærinn í að taka upp mó á góðum stað í landi bæjarins, þar sem kunnugt var um þykt og gæði mólagsins og aðstöðu alla. Lærður verkfræðingur var fenginn til þess að hafa umsjón með verkinu. Mótekja þessi kostaði um 190.000 kr. þar af er talið, að varið hafi verið til ýmissa umbóta 17.000 kr. og 33.000 kr. til áhalda. Þessar 50.000 kr. hafa því ekki farið í eyðslu, heldur til „undirbúnings og áhalda“, sem að notum geta komið síðar við mótekjuna, þótt hætt sje við, að verkfærin hafi til muna gengið úr sjer. Seldur mór o. fl. nam 65.000 kr. En tekjuhallinn varð 75.000 kr. Þó er ekki þar með reiknað áhaldaslit o. þ. u. l.

Ekki verður sagt, að flanað hafi verið út í þetta fyrirtæki í blindni. Allur kostnaðurinn var reiknaður fyrirfram af hæfasta manni. Ráðgert var að selja smál. af mónum á 25 kr. En þegar til kom og farið var að selja móinn, kom það í ljós, að framleiðslan var miklu dýrari en áætlað hafi verið. þess vegna var verðið hækkað úr 25 kr. upp í 45 kr. handa þeim, sem pantað höfðu mó, en 50 kr. kostaði smál. þá, sem eigi höfðu móinn pantaðan. En ef átt hefði að selja móinn bænum að skaðlausu, hefði hann orðið að vera ferfalt dýrari en gert var ráð fyrir í fyrstu, og var þó verðið þá ákveðið hærra en tíðkast hafði manna á millum. Mórinn hefði þá þurft að vera eins dýr og Tjörneskolin, til þess að sá útvegur gæti borið sig. Og það er þó áreiðanlegt, að þótt þessi kol sjeu misjöfn að gæðum, eru þau, upp og ofan, stórum betri en ljelegur mór.

Jeg hefi nú viljað benda á þessi dæmi til samanburðar, til þess að sýna, hversu erfitt er að takast á hendur slík fyrirtæki sem þetta, ef þau á að reka í stórum stíl. Og ýmsar ásakanir í stjórnarinnar garð um það, að hún hafi flanað út í þetta Tjörneskolamál, eru ekki rjettmætar. Undirbúningsleysi var ekki til að dreifa í móvinslu Reykjavíkur, því að alt var þetta reiknað út fyrirfram. Og þó fór sem fór. Jeg hygg, að dómarnir um kolanámið á Tjörnesi verði vægari þegar menn bera þetta saman og athuga vel alla málavexti. En hitt er annað mál, hvort halda eigi áfram þessum námurekstri. Menn virðast yfirleitt á því, að honum eigi ekki að halda áfram, ef sýnt er, að hann ber sig ekki í sumar.

Stjórnin hefir nú reynt að gera umbætur á því, sem aflaga hefir farið. Meðal annars hefir hún falið yfirumsjónina að öllu leyti verkfræðingi landsins, og í samráði við hann hefir hún útvegað nýjan verkstjóra, sænskan, duglegan mann og reyndan, frá brúnkolanámunum á Skáni. Er hann nú kominn norður og er að koma nýjum rekspöli á námureksturinn, og er haft fyrir satt, að honum muni takast að koma á ýmsum umbótum og sneiða hjá þeim skerjum, sem fyrirtækið hefir áður steytt á. Mun þingið geta treyst því, að þar komist á það skipulag, er vel má við una. Væri því óráð að hnekkja fyrirtækinu nú, en það væri nokkuð sama sem ef nú ætti að segja sem svo: „Nú dugir ekki að vinna námuna lengur, nema það sje víst, að náman beri sig þegar“.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) virtist vilja, að verð kolanna væri ákveðið svo, að það væri hjer um bil víst, að náman geti bori sig. En það er ekki svo auðvelt, því að ekki er hægt að segja fyrirfram, hve miklu megi ná á hverjum stað, og kolalög, sem hægt er að ákveða þyktina á í sárið, geta dregist saman eða þynst, eða afnvel þorrið. Það væri því ekki hægt að selja neitt fyr en búið væri að afla einhverrar tiltekinnar smálestatölu, og ákveða svo verðið eftir kostnaðinum við öflun þessa smálestfjölda, en það væri ekki hagfelt fyrirkomulag. Jeg hygg, að yfirleitt sje ekki hægt að setja verðið á fyrirfram, fyr en ríkari reynsla er fengin en enn er orðin í þessu efni.