28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (1935)

86. mál, dýrtíðaruppbót handa barna- og lýðskólanum í Bergstaðastræti

Frsm. minni hl. (Kristinn Daníelsson):

Þó að nál. á þgskj. 396 sje stutt, þá er óþarfi að vera langorður og nægilegt fyrir báða aðilja að vísa til þess. Það sýnir, að nefndin hefir að vísu ekki getað orðið samferða í málinu, þar sem tveir nefndarmenn litu svo á, að ákvæði laganna um kennara við fasta skóla, sem eiga kröfu til uppbótar, næði ekki til þessa skóla. Skírskota jeg um það til þess, sem jeg hefi sagt í nál., að skóli þessi hefir þá viðurkenningu, sem lög nr. 37, 30. júlí 1909, mæla fyrir, og má því teljast fastur skóli.

Jeg vil að öðru leyti að eins bæta því við það, sem stendur í nál., að jeg hygg einnig verða að líta svo á, að skólinn hafi haft styrk úr landssjóði hingað til, því að í fjárlögunum eru veittar 30.000 kr. til skóla; þar af 10.000 kr. til kaupstaðaskóla. Nú hefir það að vísu komið svo út, að styrkur sá, sem þessi skóli hefir haft, væri úr bæjarsjóði, en hann hefir fengið hann vitanlega vegna þess, að landssjóður styrkti skólahald bæjarins, svo að styrkurinn til þessa skóla er í raun og veru ekki annað en hluti úr landssjóðsstyrknum.

Jeg held, að hv. stjórn hafi ekki þótt ósanngjarnt að greiða þá dýrtíðaruppbót til skólans, sem hjer er farið fram á, en taldi sig þó þurfa að fá samþykki þingsins til þess, og þess vegna er þingsályktunartill. þessi líka fram komin. Hv. Nd. samþ. till., og jeg vona, að hv. Ed. standi henni ekki að baki í því að veita samþykki sitt sanngirnismálum þeim, sem fyrir þingið koma og jeg tel þessa till. vera.