06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

110. mál, lán til kolanáms

Matthías Ólafsson:

Ef nál. þetta hefði verið komið fram á undan fyrri umr. um málið, hefði verið einhver ástæða til, að það væri eins og það er. Þá væri hægt að segja, að engar upplýsingar væru fengnar um málið.

Það var satt, sem frsm. meiri hl. (B. K.) sagði, að hann kom til mín, til þess að fá upplýsingar. En jeg hafði gefið deildinni áður allar nauðsynlegar upplýsingar, og taldi jeg óþarft að endurtaka þær. Ef hann kallar það ekki upplýsingar, þá er ekki unt að gefa neinar upplýsingar um þetta mál. (B. K.: Jeg var þá ekki á fundi). Jeg get ekki gert að því, þó að hv. þm. hafi ekki verið á fundi. Þess mætti þó vænta af honum, að hann, sjálfur framsm., hefði einhverja hugmynd um málið.

Jeg sagði þá, að það þyrfti undir eins að greiða verkafólkinu kaup, reisa hús, gera veg, um ¾ kílómetra langan, og: útvega verkfæri.

Hv. frsm. (B. K.) kvað hægt að fá bankalán til þessa fyrirtækis. Það er gott og blessað, því að mjer er þó kunnugt um, að einn úr stjórn Landsbankans vilt styðja fyrirtækið. Jeg verð að segja, að eftir þeim skoðunarhætti, sem fram kom snemma á þingi, að mest riði á að bæta úr eldsneytisþörf landsmanna, þá er mönnum vorkunn, þó að þeir fari fram á hjálp við þingið. Aðrar fjárstofnanir, sem leitað hefir verið til, hafa gefið það svar, að landssjóði stæði næst að veita þetta lán, og er það satt. En um vaxtahæðina er það að segja, að landssjóður hefði getað farið fram á 6%.

Nú hagar svo til í námu þessari, að kolatekjan er mjög lítil fyrst í stað, meðan verið er að greiða fyrir náminu síðar, og gerir það enn þá erfiðara fyrir um vinsluna.

Þá vantar og skýli yfir verkafólkið. Og ef komandi vetur verður álíka harður og veturinn í vetur, má þetta skýli ekki vera nein ómynd. Og ef vjer berum það saman við annað þess háttar skýli, sem landssjóður hefir kostað, þá ættum vjer ekki að þurfa að kippa oss upp við, þó að það kostaði nokkrar þúsundir. Það yrði borgað á sínum tíma með kolum.

Kol verður ekki hægt að selja til hreppanna frá námu þessari fyr en einhvern tíma á vetrinum 1918—’19, eða þá um áramótin. Það liggur því í augum uppi, að hrepparnir verða að fá einhversstaðar lán, til þess að geta haldið vinnunni áfram. Og var eðlilegt, að þeir sneru sjer með þá málaleitun til þingsins, úr því að bankar höfðu gefið það svar, að landssjóði stæði næst að veita lánið.

Jeg hefi getið þess, að erfitt sje um kolavinsluna fyrst í stað, svo að ekki muni verða hægt að selja kolin til hreppanna fyr en um áramótin 1918 og 19. En hvar eiga hrepparnir þá að taka eldsneyti? Að vísu er sæmilegt mótak í Dýrafirði. En það er einstaksmannseign, og eigandinn vildi takmarka mótekjuna, af því að hann áleit landsspjöll að henni.

Ef þingið synjar þessari málaleitun, get jeg ekki betur sjeð en hrepparnir verði að leggja niður kolanámið á þessu sumri, vegna fjárskorts, og tel jeg það mjög illa farið. Þá mundi reka að því, að þeir yrðu að fá kol hjá landssjóði, sem jeg býst við að hann yrði að lána. Það gæti ef til vill talist hyggileg aðferð að koma í veg fyrir framtakssemi manna í þessu efni, og verða svo að lána þeim kol síðar fyrir bragðið, en ekki get jeg samt litið svo á. Því að jeg þykist vita, að landssjóður verði að miðla þeim kolum, á 400 kr. smálestina, áður en þeir deyja úr kulda eða jeta hrátt.

Jeg legg því þetta mál undir atkvæði deildarinnar, eins og það nú liggur fyrir. Jeg get ekki gefið fleiri upplýsingar um málið, enda álít jeg þessar nægilegar. Loks vil jeg óska nafnakalls um till.