15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (1989)

115. mál, heildsala

Björn Kristjánsson:

Það er ekki af því, að jeg búist við, að þessi till. verði samþykt, að mig langar til að segja nokkur orð, heldur er það af því, að það liggur meira í þessari till. heldur en í fljótu bragði virðist. Jeg býst við, að bak við hana liggi sú hugsun, að landið eigi að taka að sjer alla verslun landsmanna framvegis, og að þessi till. eigi að verða brú að því takmarki síðarmeir. — Það er þess vegna, að jeg vildi segja nokkur orð.

Það er ekki hægt að sjá annað af till. en að hún ætlist til þess, að landið taki að sjer alla verslunina upp til hópa, eins og hún nú er orðuð, og jeg get ekki skilið, að hv. flm. (M. T.) hafi hugsað sjer annað, þó að hann segi nú, að það eigi að eins að vera til þess að „drepa í skörðin“, enda örðugt fyrir landsverslunina að kaupa slíkar vörur að eins í því skyni að drepa í skörðin. Það er þá þessi litla viðbót, sem verið er að gera, að taka að sjer alla verslun á „þurftarvörum“ í landinu, eftir að þingið hefir tekjð að sjer að kaupa skip fyrir 3 miljónir, alla nauðsynjavöruverslun landsins, og svo nýbúið að taka að sjer að kaupa síld fyrir 6 miljónir króna, og þetta alt upp á fengin og ófengin lán, með stuttum gjaldfresti, svo að það er engin smáræðisviðbót, sem hjer er ætlast til að landið taki á sig, þegar á það er litið, að enginn maður getur sagt um það, með nokkurri vissu, hve hátt þessi verslun með þurftarvörur kann að hlaupa. Jeg tek þetta fram af því, að mjer virðist sá andi vera hjer ofan á í þinginu, að eftir því sem við skuldum meira, því áræðnari sjeu menn að ráðast í fyrirtæki, sem mikið fje heimta; sem sagt, að okkur vaxi hugrekki að sama skapi við það, sem við skuldum fleiri miljónirnar.

Það hefir komið hjer fram í umr., að það væri aðallega stefnt að heildsölunum, en það er ekki rjett, því að hjer er einnig stefnt að öllum sjálfstæðum kaupmönnum, því að það eru venjulega ekki nema þeir fátækari, sem kaupa af heildsölunum; hinir kaupa nær alt inn sjálfir í útlöndum. Vitaskuld er það, að ef hægt væri að stefna þessu að heildsölunum einum, þá horfði málið nokkuð öðruvísi við; ekki þó svo að skilja, að jeg skoði það rjettmætt fyrir því, vegna þess, að þegar við athugum það, að þessi heildsöluverslun, sem hjer er fram komin, er alveg nýsköpuð, það er leið, sem við höfum nú nýlega getað komist út á, það er leið, sem hingað til hefir algerlega verið í útlendinga höndum; áður en heildsöluverslunin myndaðist hjer voru það heildsalar í Kaupmannahöfn, sem drógu til sín allan arðinn af heildsölunni, og það var ekki til neins fyrir Íslendinga, sem komu til Kaupmannahafnar, að fara beint til þeirra, sem framleiddu vöruna, og þó að þeir að nafninu til keyptu beint, þá varð það þó svo, að heildsalinn fjekk sinn arð óskiftan. Nú er mynduð hjer heildsölustjett. Fyrir milligöngu þessara manna kaupa nú margir, sem ekki kaupa beint, og það má líka fullyrða, að landsverslunin hefir keypt fyrir milligöngu þessara manna, eða þó að hún hafi keypt beint, þá hafa þó heildsalarnir notið hagnaðarins.

Ef menn nú vildu hætta að kaupa af heildsölunum, þá myndu þeir sitja heima í legubekknum sínum og hirða hagnaðinn eins og áður, en landið yrði aftur að borga fyrir þau störf, sem þeir hafa unnið áður, — með öðrum orðum, borga tvöföld ómakslaunin. Þetta er nefnilega sú meginregla, sem gildir um allan heim og við erum ekki menn til að brjóta á bak aftur. Engin stórverslun eða stórframleiðandi selur vöruna með öðru verði en því, að hún hafi lagt á þennan stórsöluhagnað, og fái millimaðurinn hann ekki, þá rennur hann í stórverslunarinnar eigin vasa. — Jeg geri ráð fyrir því, að hv. flm. (M. T.) hafi ekki þekt þetta.

Það hljómar auðvitað mjög vel í eyrum, að menn kaupi beint frá framleiðendunum, og það getur haft, undir vissum kringumstæðum, pólitíska þýðingu, að halda því á lofti, að menn gangi fram hjá milliliðunum, sem svo mikið er talað um nú á tímum, en það er samt ekkert nema blekking. Og er ríkin fara að versla, þá er enginn sem verður harðara úti en þau hjá framleiðendunum; ríkin kaupa venjulega altaf dýrara en einstakir menn, það er altaf reynslan.

Og við þetta bætist svo, að opinber verslun er ávalt ver rekin en verslun hins einstaka. Það er reynsla, að hjá opinberri verslun verður alt dýrara og varan verri. Þá er ekki sparað að taka milliliðahaginn ríflegan, því að allir vilja draga upp hið opinbera. Þar við bætist, að það er ekki verslunarstefna annara landa, að landið reki verslunina. par að auki er það reynslan, að engu landi dettur í hug að versla með vöru í frjálsri samkepni. Opinberu versluninni verður alt dýrara, bæði innkaup, fólkshald o. fl. Það er viðurkent, að varan sje bæði dýrari og verri. Og mjer liggur við að segja, að við sjáum nú dæmin til þess. Eins og menn þekkja, felst aðalstórkaupahagur í því, að kunna að kaupa og selja á rjettum tíma. Þetta geta ekki aðrir en ötulustu menn og menn með óþreytandi viljaþreki og þekkingu. En fráleitt mundi stjórninni takast að velja einmitt þessa menn til verslunarrekstrarins. Hún mundi ekki geta fengið svo góða menn, því að hún mundi heldur ekki geta goldið þeim nógu hátt kaup. Og þar að auki mundu þeir verða sljórri og ekki leggja annað eins á sig, er þeir væru komnir á landssjóðinn, eins og ef þeir ynnu fyrir sjálfa sig. Þetta er óhrekjandi reynsla alstaðar og alstaðar viðurkent.

Jeg geri ráð fyrir, að till. þessi sje fram komin vegna þess, að mönnum ægi, hve stórkaupmenn hafa borið mikinn hag úr býtum. Mjer er ekki kunnugt um þennan hagnað. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) benti á, að þetta gæti ef til vill komið í veg fyrir þá verslun, sem nefnd er á dönsku „Kædehandel“ og kölluð hefir verið á íslensku hringverslun. Ef flm. gætu komið í veg fyrir þessa verslun með till., þá væri það gott og blessað. En jeg fæ ekki sjeð, að þeim takist það. Til þess þyrfti sjerstök lög og meira eftirlit en hjer gerist. Hver maður, sem keypt hefir borgarabrjef, getur komið til landsverslunarinnar og beðið hana að selja sjer vörur. Þessar vörur getur hann síðan selt einhverjum braskara með 10—20% arði, sá braskari selt það öðrum braskara með álíka hag, sem svo loksins seldi það smásalanum. þannig getur stórkaupaálagið margfaldast. En með till. verður ekki komið í veg fyrir þess háttar brask, en á því væri þó full þörf.

Það er óhugsandi, að landið geti kept við frjálsa verslun. Slíkt er einu sinni ekki kleift á friðartímum, hvað þá nú, þegar jafnörðugt er um aðflutninga.

En svo er eitt enn ótalið, og það er þetta: Fær landssjóður vörurnar? Þeirri spurningu verður líka að svara. Allir vita, að framleiðsla á klæðnaði, skófatnaði, ljósfærum, hitunartækjum, tóbaki o. fl. er takmörkuð og takmarkast æ meir og meir. Þar við bætist, að öll heiðarleg „firma“ leggja áherslu á að láta gamla viðskiftamenn fá vörur eftir þörfum eða getu. En setjum nú svo, að fyrir þetta yrði girt með því, að landið bannaði kaupmönnum að versla, eða gerði verslunina óframkvæmanlega, þá mundu þessi „firma“ alls ekki selja landssjóði, því að nógar yrðu þá þarfirnar annarsstaðar, til að uppfylla þarfir annara gamalla viðskiftamanna. Þetta gæti orðið til þess, að landið fengi alls ekki þessar vörutegundir.

Það gladdi mig, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók það rjettilega fram, sem jeg hefi sjaldan heyrt áður, að það þyrfti annað og meira til að versla en segja: Jeg ætla að kaupa vörur. Hann mundi eftir því, að það þarf peninga til þess að versla. Það hefir komið fram hjer áður á þinginu, að ef landsverslunin yrði rekin þetta ár í álíka stórum stíl og árið 1917, yrði landssjóður að borga um annað nýár um 14 miljónir króna. Upp í þessa skuld höfum við ekkert, nema skipin og landsverslunina. En hvað höfum við til þess að borga með, ef skipin verða ekki seld og landsverslunin verður rekin áfram í enn stærra mæli en 1917, eins og líkindi eru til? Á undanförnum þingum, sem jeg hefi setið á, hafa þingmenn borið mikinn kvíðboga, ef fjárlögin enduðu með 4— 500.000 kr. tekjuhalla, þrátt fyrir það, að tekjur hafa verið gætilega áætlaðar. En nú er sem þm. sje sama um, hvort landssjóður getur staðið í skilum eða ekki. Það er eins og einstaklingsaugnablikshagsmunir og geðþótti sitji alveg í fyrirrúmi fyrir alþjóðarhagnum. Menn minnast nú ekki á landssjóðinn, heldur en hann sje ekki til. Í hinni löngu ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.) kom ekki neitt fram, sem benti til þess, með hverju landssjóður ætti að greiða þetta fje. Hann ympraði ekki á því.

Loks vil jeg benda á það, að sjerþekkingu á öllum sviðum þarf til þess að kaupa þessar svo kölluðu þurftarvörur, sem till. ræðir um. Það er ekki öllum hent að kaupa t. d. garfað leður, skófatnað, vefnaðarvörur o. fl. Til þess þarf sjerþekkingu í hverri grein. Ef landið tæki að sjer kaup og sölu á slíkum vörum, yrði það að hafa 10-—12 manna nefnd, með sjerþekkingu á jafnmörgum sviðum, sjer til aðstoðar. Þessi nefnd yrði síðan að leita nýrra verslunarsambanda. Og hvert ætti hún að snúa sjer, ef gömlu „firmun“ hættu að skifta við landið? Þetta tæki ef til vill 1—2 ár, og á meðan mundi landið verða vörulaust.

Um þetta mætti segja langt mál. En það, sem jeg nú hefi sagt, nægir til að greiða dálítið úr málinu, svo að það komi ekki alveg undirbúningslaust á dagskrá næst. Því jeg þykist vita, að svo muni til ætlast, að landið versli með þessar vörur í framtíðinni.