14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Jónsson:

Það er öllum hv. þm. kunnugt, eins og komið er, að megn óánægja hljómar nú frá öllum hliðum um stjórn þá, er nú situr að völdum, og þá ekki síst um hæstv. fjármálaráðh. En í þessu máli tel jeg, að bann hafi skapað sjer ódauðlegri heiður en áður og talað skynsamlegar en flestir aðrir hjer í deildinni. En vilji stjórnin halda þingmönnum hjer iðjulausum í þrjár vikur enn, á hún minni en engan heiður skilið. Annars er það ekki á dagskrá nú, og skal jeg ekki fjölyrða um það.

Jeg varð undrandi við umræður þessa máls í gær. Þá reiknaði hæstv fjármálaráðh. það út, og að mínu viti alveg hárrjett, að ef till. meiri hl. næðu fram að ganga, þá mundi kostnaðarauki landssjóðs nema 1.800.000 krónum. En þá kemur hv. frsm. meiri hl. (P. J.), grípur fram í og spyr, hvers vegna hann reikni þannig. En mjer var það fulljóst, og þá, vona jeg, flestum öðrum, að hæstv. fjármálaráðh. reiknaði hjer eftir sama mælikvarða og í stjórnarfrv. Jeg hefi aldrei heyrt hv. þm. S. Þ. (P. J.) fara með eins ranga fyrirspurn. Eða vill hv. frsm. (P. J.) skýra frá, hvers vegna hann spurði svo og apaði hæstv. fjármálaráðh. að óþörfu? Það er gert ráð fyrir, að lánin nemi sem svarar 20 krónum á íbúa. og get jeg vel skilið, að rjett sje að reikna eftir því, þótt hins vegar megi gera ráð fyrir því, að ekkert sveitarfjelag verði svo illa statt, að hver meðlimur þess þurfi á þessum styrk að halda. En hvert sveitarfjelag á landinu getur beiðst lána af landsstjórninni, sem svarar 20 krónum á íbúa, og getur þess vegna hækkað lánin til einstakra manna, þegar öðrum er slept, sem ekki þurfa.

Jeg held því, að hæstv. fjármálaráðh. hafi talað alveg laukrjett um þetta atriði í gær. Að öðru leyti tel jeg langar umr. um þetta mál alveg þýðingarlausar (P. J.: Já, alveg þýðingarlausar). Jeg býst við, að flestir hv. þingdm. sjeu þannig gerðir, að þeir kæri sig ekki um það að hlusta á langar umr., til þess að láta breyta skoðun sinni; þeir hafa þegar sjeð þingskjölin og skapað sjer skoðun eftir þeirri skynsemi og viti, sem guð hefir gefið þeim.

En úr því að jeg er nú búinn að segja þetta, er jeg víst skyldugur til þess að þagna og setjast niður sem fyrst. En það eru mörg atriði í umræðunum í gær og í dag, sem vert væri að athuga, ef sá, sem athuga vildi, ímyndaði sjer, að það hefði nokkuð að þýða. Jeg er nú einn af þeim, sem gjarnan vildi taka það til athugunar, en jeg held ekki, að þeir menn sjeu hjer í deildinni, er láti breyta skoðun sinni með umræðum. Og ef jeg yrði var við einhvern, sem ljeti snúa sjer til þess að gera annað en hann œtlaði sjer, vildi jeg aldrei heilsa honum framar. Jeg hefi punktað hjá mjer nokkur atriði, er jeg gæti minst á, en ýmsir aðrir hv. þm. hafa í millibili minst á þau, svo að jeg slepp við að orðlengja þar um.

Mætti jeg svo biðja hv. frsm. meiri hl. (P. J.) að svara mjer, hví hann rjeðst svo á hæstv. fjármálaráðh. í gær með fyrirspurn úr sæti sínu og sagði, að 20 kr. á mannsbarn í landinu yrðu ekki 1.800.000 krónur. Jeg held, að hv. þm. S. Þ. (P. J.) komist í strand með þetta, en annars er hann maður fyrir sínum dyrum og mun geta svarað einhverju. Verst er, að eg er dauður, en hann veit, að jeg hefi aldrei gefið mig í að niðra honum, og spyr hann hjer eigi í illum tilgangi.