18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í C-deild Alþingistíðinda. (2040)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg heyrði ekki hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) neita því, að hann hefði borið fram till. um, að stjórnin undirbúi og leggi fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til laga um bætur á kjörum kennara. En ef hann neitar því ekki, er hann nú beint á móti sjálfum sjer. Vilji hann vera sjálfum sjer samkvæmur, fylgir hann frv. þessu. (Þór. J.: Þetta eru ekki bráðabirgðabætur). Um það þarf ekki að deila.

En það er þó ekkert aðalatriði, hvernig þingið fer að. Þingið getur lagað þetta í hendi sjer. Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir sjálfur farið fram á, að stjórnin beri fram frv. um þetta atriði og að lög sjeu gerð til bráðabirgða, áður en búið er að ákveða takmörk fræðsluhjeraða.

Mjer þótti rjett að taka frv. yfirleitt eins og það kom frá kennarafjelagi Íslands. Þar er mjög hóflega farið í sakirnar.

Jeg get svarað hv. þm. Dala. (B. J.), að jeg býst við, að stjórnin haldi áfram rannsókn þessa máls. En jeg verð að benda hv. deild á, að ef hún ætlast til þess, að mál sem þetta sje rannsakað til hlítar, má hún ekki neita um fje. í fyrra neitaði hún að leggja fram fje til rannsóknar málinu. Það liggur í augum uppi, að umfangsmikil rannsókn, sem gerð er af margra manna nefnd, verður ekki gerð nema með nokkrum fjárútlátum. Nú eru ekki þeir tímar, að hæfir menn fáist til að vinna ókeypis, þótt um góð mál sje að ræða. Ef rannsaka á málið til hlítar, verður að veita stjórninni heimild til að nota ríflegt fje til þess. Hjá því verður ekki komist að leita aðstoðar hæfra manna, því að jeg býst við, að hv. þm. myndu ekki fremur una við bráðabirgðaálit stjórnarinnar sjálfrar, eða álits manns, sem hún lögum samkvæmt á að ráðgast við um slík mál. Jeg neita því með öllu, að stjórnin eigi ámæli skilið, þótt hún leiti til fræðslumálastjóra um málið, enda er hann ekki höfundur núgildandi laga.