10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í C-deild Alþingistíðinda. (2056)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Það er ekki nema sjálfsagt að verða við óskum nefndarinnar um að taka málið út af dagskrá. En jeg vildi að eins taka það fram, að þó vart hafi orðið við óánægju hjá mönnum með breytingar þær, sem gerðar hafa verið á frv. af nefndarinnar hálfu, og þó nokkrir menn í bæjarstjórn hafi látið þessa óánægju í ljós, þá efast jeg um, að þeir sjeu í meiri hluta. Jeg ímynda mjer, að þeir sjeu að minsta kosti jafnmargir í bæjarstjórninni, og áreiðanlega er víst, að mikill meiri hl. bæjarbúa er miklu ánægðari með frv. nú, að breytingu þeirri undanskildri, er hv. þm. S. P. (P. J.) flutti og samþ. var (d. lið í 7. gr.), en þegar það var lagt fyrir þingið.

Það er öldungis víst og sannanlegt, að málið hefir tekið mjög miklum breytingum til bóta hjá hv. nefnd, og kann jeg henni bestu þakkir fyrir það.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið; að eins vildi jeg að gefnu tilefni lýsa yfir þessu.