28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (2148)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki þreyta hv. þm. á langri ræðu og reyna að haga orðum mínum svo, að þau kveiki ekki í eldfimustu hlutum deildarinnar. En jeg get ekki alveg leitt hjá mjer að mótmæla því, sem fram hefir komið gegn brtt. mínum á þgskj. 404 og 414. það eru í raun og veru að eins þrír af hv. þgdm., sem hafa mótmælt þeim nokkuð verulega, nefnilega hæstv. forsætisráðherra, hv. 2. þm. Arn. (E. A.) og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.).

Jeg ætla þá fyrst að minnast fljótlega á það, sem hæstv. forsætisráðherra sagði. Hann ljet á sjer skilja, að brtt. þessar bæri að skoða sem árás á fjárveitinganefnd og till. hennar. Hann viðhafði það orð, árásir, en það þykir mjer nokkuð djúpt tekið í árinni, því að jeg get ekki talið það árásir á slíkt frv., sem hjer liggur fyrir, þótt komið sje fram með brtt., sem ekki hagga verulega við efni þess, en miklu fremur lúta að því að gera það skýrara og ákveðnara, er í frv. stendur; en að það sje gert, eins og hæstv. forsætisráðherra hjelt fram, til þess að rugla efnið fyrir hv. fjárveitinganefnd, getur mjer ekki skilist; það væri þá, hvenær sem væri á þinginu, ótilhlýðilegt að koma fram með brtt. við verk fjárveitinganefndar. Jeg hygg, að það hafi oft átt sjer stað í fyrra og endrarnær, að fram hafi komið brtt. við fjárlögin og aðrar tillögur fjárveitinganefndar, og hefi jeg aldrei fyr heyrt slíkt talið árásir eða til þess gert að rugla. Breytingartillögur eru öllum þm. heimilar, og hver leggur það til, er honum þykir sennilegast, og get jeg ekki skilið, að fjárveitinganefnd sje nú svo hátt hafin yfir aðra þm., eða verk hennar svo dásamlegt, að ekki megi gera við það breytingartillögur, eða mæla jafnhátt skónum hennar.

Eitt atriði í fyrri ræðu minni dró hæstv. forsætisráðherra í efa, sem sje hvort það mundi rjett, að hjer væri hlutfallslega fleiri embættismenn en í nágrannalöndunum. Það skiftir í rauninni litlu fyrir það mál, sem hjer liggur fyrir, hvort þetta er rjett hjá honum eða mjer. Jeg hefi fljótlega talið saman kennimenn alla á landinu, og nefni jeg þá kennimenn alla, er við kenslu fást, presta alla og kennara; eru þeir nálægt 500, eða 1 fyrir hverja 180 landsbúa. Jeg þykist nú alveg sannfærður um, án þess þó að jeg hafi hjer fyrir mjer „Statistik“ nágrannalandanna, að þeir muni vera miklu fleiri hjer að tiltölu en hjá nágrannaþjóðunum, og líkt mun vera um fleiri opinbera starfsmenn, enda finst mjer það ekki nema eðlilegt, því það liggur í því, að þessi fámenna þjóð er dreifð yfir stórt land og verður því að hafa marga starfsmenn. Það er sjálfsagt vandaverk að finna, hvernig ætti að takmarka þennan starfsmannafjölda, en mjög nærri virðist mjer liggja, að kennarastarfinn til sveita og prestsstarfinn yrði sameinaður, og þannig hefir það í reyndinni verið hjer um margar aldir, þótt nú þurfi að sjálfsögðu meira fyrir fræðsluna að vinna en áður.

Svo var það hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Hann fór snoturlega með efnið. Hann dró fram dálítið kýmilegt tilfelli, sem fyrir gæti komið, ef brtt. mínar yrðu samþ., nefnilega að einn einstakur embættismaður græddi á því tvær krónur og 50 aura. Þetta getur vel komið fyrir með einn eða tvo menn, og skiftir það engu, því að eins og menn vita, gengur uppbótastigi þessi upp og niður á vissu launabili. Uppbótin fer hækkandi alt að 2.400 kr., og svo aftur lækkandi, og var það ekki nema eðlilegt, að hægt væri að finna „dauðapunkt“ einhversstaðar í stiganum, eða tilfelli þar sem litlu væri tapað og lítið unnið, en jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að hjer lá eigi sparnaðarhugmyndin ein til grundvallar, heldur það eitt, að mjer finst meiri jöfnuður og meira rjettlæti í þessu, og að með tillögu minni er dregið úr því átakanlega misrjetti gagnvart þeim, sem enga uppbót fá, sem annars blasir við auga hvers manns, sem les þetta frv. En af því að hv. þm. (E. A.) dró þetta dæmi fram sjerstaklega, og sýndi hins vegar fram á lítilfjörlega breytingu til lækkunar eftir tillögum mínum, þá ætla jeg að benda á eitt einasta dæmi, sem getur skýrt hugsun mína. Vitamálastjórinn hefir haft 4.000 króna lögmælt kaup undanfarið, en eftir þessu frv. á hann að fá 4.500 krónur og auk þess dýrtíðaruppbót af 4.000 krónum. Það verða 350 krónur. Alls fær hann þá 4.850 krónur. En ef mínar till. næðu fram að ganga, fengi hann alls 4.612 krónur. En svo er annar maður, sem starfar við hlið hans, vitamálaverkfræðingurinn. Föst laun hans eru 2.500 krónur og dýrtíðaruppbót kr. 537,50; laun hans alls verða þá 3.187 krónur og 50 aurar., Munurinn á þessum mönnum verður eftir till. fjárveitinganefndar 1.663 kr., en var áður 1.162,50 kr., Vitamálaverkfræðingi er engin uppbót ætluð, en djúpið milli hans og vitamálastjóra dýpkað, mismunurinn aukinn um ca. 500 kr.

Alt er því þetta frv. hreinasta misrjettisregistur, bætt upp þeim betur stæðu, en gengið fram hjá hinum og fjölda þeirra gefið tilefni til óánægju og kvartana.

Auðvitað hefði jeg hagað till. mínum um þetta efni öðruvísi, ef fleiri hefðu verið teknir í frv. Jeg varð að miða till. mínar við það, sem var, en ekki það, sem kynni að verða er fjárveitinganefnd væri búin að breyta frv. Það, sem fyrir mjer vakti, var að nálgast meiri jöfnuð en kom fram í frv. nefndarinnar.

Þá kem jeg að ræðu hv. frsm. (M. Ó.). Jeg var svo óheppinn, að jeg heyrði fátt af því, sem hann sagði, og áleit, að ekki þyrfti að taka mikið tillit til þess. Hann var að afsaka það, sem hann ljet um mælt um mig í gær. Hann þóttist ekki hafa kastað neinum hnútum til mín. En hann gaf þó í skyn, að annaðhvort af tvennu væri jeg ekki hreinskilinn í till. mínum eða jeg bæri ekki skyn á það, sem jeg færi með, og er jeg honum ámóta þakklátur fyrir hvorttveggja.

Hann kvað mig hafa sagt, að tveir menn í fjárveitinganefnd hefðu verið sammála mjer. Þetta sagði jeg ekki. En jeg sagði, að jeg hefði borið eina brtt. mína undir tvo menn í nefndinni, og að þeir hefðu fallist á, að hún væri rjett. Þetta var brtt. við 7. gr. Og jeg skal nefna mennina, háttv. framsm. til ánægju; þeir eru báðir mestu sæmdarmenn. Annar er hann sjálfur, og hinn er formaður nefndarinnar. Ef þeir vilja neita þessu af því að það var talað undir fjögur augu, þá geri þeir svo vel.

Annars er það um þessar brtt. að segja, að þær eru alls ekki gerðar í þeim skilningi, að eyðileggja frv., heldur til þess að gera það vinsælla og rjettlátara. Og um síðustu till. sagði háttv. frsm. (M.Ó.) í gær, að hann gæti fallist á hana. Og um brtt. um aukakennarana mun hann vera mjer sammála inst í hjarta sínu, og svo ljet hann í gær, er jeg jeg talaði við hann undir fjögur augu. Það er þá að eins dýrtíðaruppbótin, er á skilur með okkur, og hækkunin við læknana. En þar sem taxtahækkunin fer nú hins vegar í hönd, og þessi till. mín verður einkum læknum að liði, vona jeg, að hv. frsm. (M. Ó.) hjálpi mjer til að koma till. mínum fram. Hann hefir altaf reynst mjer fremur snúningaliðlegur maður og hinn bónbesti, er mjer hefir legið á. En ef hann greiðir atkvæði móti þeim, er það sama sem að gefa sjálfum sjer utan undir.