01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg býst við, eftir því sem talað var hjer um daginn, þegar þetta mál var til umr., að ýmsum þyki vanta, að gert sje ráð fyrir, að sýslumenn fái einhverja uppbót, en það er af tilviljun, að brtt. um það er ekki komin hjer. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hafði öðrum störfum að gegna og bjóst ekki við að geta verið hjer viðstaddur. Jeg geri ráð fyrir, að till. frá honum komi þá fram í hv. Ed., um að veita sýslumönnum launabætur, eitthvað svipað og prestum, og býst jeg við, að það muni laga enn betur samræmið í frv., ef menn fallast á eitthvað í þá átt. Jeg skal líka geta þess, út af því, sem hv. þm. Barð. (H. K.) sagði við síðustu umr. að það er rjett hjá honum, að það er ekki gert ráð fyrir því, að sýslumenn hafi nein veruleg afskifti af landsversluninni, en að öðru leyti eru ekki ráðin í stjórnarinnar höndum, heldur ráða forstjórar verslunarinnar öllu um hana. Um brtt. þær, sem fram eru komnar, vildi jeg geta þess, að jeg tel ýmsar þeirra, sjerstaklega brtt. fjárveitinganefndar, mikið til bóta og sanngjarnar mjög.

Það var að eins þetta, af því að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var ekki viðstaddur, sem jeg vildi geta um, svo að menn hjeldu ekki, að þetta atriði hefði alveg gleymst.